Hvort kemur á undan, eggið eða hænan? Haukur Halldórsson eggjabóndi svarar ekki þeirri spurningu en í spjalli við Svein Guðjónsson ræðir hann hins vegar um vistvæna eggjaframleiðslu og sitthvað fleira varðandi hænsnarækt.

VIÐ lifum á vistvænum tímum og fólk verður sér sífellt meira meðvitandi um mikilvægi hollustu og heilbrigðis í matvælaframleiðslu. Í samræmi við það ákvað Haukur Halldórsson, í samvinnu við eiginkonu sína, Bjarneyju Bjarnadóttur, og bróður sinn, Jóhannes, og hans konu, Herdísi Jónsdóttur, að hefja framleiðslu á vistvænum eggjum á hænsnabúinu Gerði á Svalbarðsströnd. Í október á síðasta ári gaf Búnaðarsamband Eyjafjarðar út viðurkenningu og heimilaði búinu notkun merkisins "Vistvæn landbúnaðarafurð" fyrir framleiðsluna, enda uppfyllir hún kröfur reglugerðar frá 1998, þar sem kveðið er á um gæðastýringu og eftirlitskerfi til að tryggja uppruna og eldi búfjár.

Að sögn Hauks eru hænurnar hans ekki í búrum heldur frjálsar í húsinu og hafa þægilega aðstöðu til að sitja og geta jafnframt baðað sig í tréspónum og sandi. "Samkvæmt reglugerðinni um framleiðslu vistvænna landbúnaðarafurða er lögð sérstök áhersla á dýravelferð og umhverfisþætti. Bönnuð er hvers konar notkun óæskilegra hjálparefna svo sem hormóna, stera, fúkkalyfja og annarra lyfja og skordýraeiturs og hænsnadritið skal nýta sem áburð á tún eða til uppgræðslu," sagði Haukur.

Frjálsar eins og formæðurnar

"Ástæðan fyrir því að við tókum þá ákvörðun að hefja framleiðslu af þessu tagi var sú sannfæring okkar, að æ fleiri neytendur láta sig varða hvernig matvæli eru framleidd," sagði hann ennfremur. "Svo til öll egg, sem hafa verið á markaði hér, eru úr búrhænum, það er að segja úr hænum sem aldar eru í búrum. Okkar hænur spranga hins vegar um frjálsar eins og formæður þeirra gerðu í sveitinni í gamla daga. Það má kannski líkja þessu við "rómantísku stefnuna" frá því fyrr á öldum, sem gekk út á það að "hverfa aftur til náttúrunnar." Þessi stefna í landbúnaðarframleiðslu er þó fremur stutt á veg komin hér á landi, en þess má geta að stjórnvöld í Sviss hafa nú þegar bannað framleiðslu eggja með búrhænum. Svíar hafa einnig ákveðið að banna búrhænur og gefið eggjabændum aðlögunartíma til ársins 2002. Í samræmi við þetta hefur sænska matvælakeðjan Hämkjöb ákveðið að selja eingöngu lífræn og vistvæn egg og tekur ekki lengur við eggjum frá búrhænsnum.

Ég held að krafa neytenda sé í auknum mæli sú að láta sig varða hvernig maturinn verður til og þá eru menn ekki bara að hugsa um hollustu og hreinleika matvæla heldur einnig hvernig skepnunni líður og svo alla umhverfisþættina, til dæmis hvað gert er við úrganginn, sem er mikið vandamál víða í Evrópu. En ef rétt er að málum staðið má búa til verðmæti úr hænsnaskítnum og það er einn þátturinn í því sem við, "þessir vistvænu" gerum. Sem áburður er hænsnaskíturinn verðmætari enannar húsdýraáburður, sökum þess hversu mikið er af köfnunarefni og öðrum áburðarefnum í honum"

Sterkari skurn

Undanfarið ár hefur hænsnabúið að Gerði verið með sérstaka athugun á vistvænni framleiðslu og að sögn Hauks voru í því skyni bornir saman tveir þúsund hæna hópar. Annar var í hefðbundnum búrum, en hinn fékk aðbúnað samkvæmt reglum um vistvæna framleiðslu. "Við teljum okkur sjá talsverðan mun á hópunum," sagði Haukur. "Skurn eggja vistvænu hænanna er sterkari og svokölluð "blóðegg" finnast nánast ekki meðal þeirra. Heilsufar í báðum hópum er gott, en þó enn betra meðal frjálsu hænanna."

Haukur sagði að viðtökur neytenda lofuðu góðu og stöðugt fjölgar "vistvænu" hænunum á hænsnabúinu að Gerði. Í fyrstu voru eggin eingöngu seld í verslunum KEA á Akureyri og í Reykjavík, þar sem framleiðslan annaði ekki fleiri verslunum, en núna er einnig farið að selja þau í Nýkaupi í Kringlunni, Heilsuhúsinu, Skagfirðingabúð og nokkrum smærri verslunum sem hafa sýnt þessu áhuga. "Fram til þessa höfum við ekki varið miklu fé í auglýsingar og umbúðir, en með aukinni framleiðslu verður væntanlega gerð bragarbót þar á. Aðalatriðið er þó að neytendur geri sér grein fyrir að þessi framleiðsla er sérstaklega merkt með merkinu "Vistvæn landbúnaðarafurð". Það er ekki nóg að höfða bara til "sveitasælu" eða "hamingju" og "frelsis" ef merkið vantar á umbúðirnar. Merkið eitt tryggir að farið er eftir reglugerðinni um vistvæna landbúnaðarframleiðslu og eftir því sem ég best veit erum við einu eggjaframleiðendurnir hér á landi sem höfum heimild fyrir notkun þessa merkis enn sem komið er," sagði Haukur.

Fullt hús matar

Egg eru þó ekki bara egg, eins og greinarhöfundur hafði haldið fram til þessa, heldur er að ýmsu að hyggja hvað varðar meðhöndlun þeirra eins og fram kemur í máli Hauks Halldórssonar.

"Þegar neytandi kaupir egg spyr hann gjarnan hvort þau séu ekki örugglega alveg glæný. Hann ætti hins vegar að spyrja hvort þau væru ekki passlega gömul. Staðreyndin er nefnilega sú að ef þú setur nýorpið egg í pottinn, ferð kannski út í hænsnakofa og sækir þér egg og sýður það getur þú lent í vandræðum við að flysja það. Glæný egg vilja nefnilega sitja föst í skurnini. Egg er kælivara og þarf að vera í að minnsta kosti viku í kælinum áður en það er soðið. Við setjum því egg ekki í sölu fyrr en þau hafa verið geymd í viku í kælinum. Og ef menn vilja nota egg í salöt er best að þau séu mánaðargömul.

Eggin mega vera allt að tveggja mánaða gömul, en auðvitað geta þau líka orðið of gömul," bætir Haukur við. "En við megum ekki gleyma því að eggið er ákaflega vel úr garði gert frá náttúrunnar hendi. Eggið er í rauninni "fullt hús matar" í lofttæmdum umbúðum. Innan við skurnið er húð og eftir að hænan hefur verpt og eggið þornar lokast himna utan um það líka. Þess vegna eiga menn ekki að þvo eggin áður en þau eru sett í geymslu því að við þvottinn skemmist ytri húðin og við það skerðist geymsluþol eggjanna."

Innbyggt jafnvægi

Varðandi umræðu um hollustu eggja og fullyrðingar þess efnis að menn mættu ekki borða mikið af þeim vildi Haukur benda á að eggið hefur innbyggt jafnvægi hvað varðar kólesteról. Þannig ættu menn ekki að borða bara annaðhvort rauðuna eða hvítuna heldur allt eggið. "Rauðan er mjög vítamínrík, einkum af A-vítamíni, svo ekki sé talað um eggjahvítuna sem próteinið er kennt við. Rauðan og hvítan jafna út áhrif hvor annarrar þannig að þegar talað er um óæskileg áhrif þá á það aðeins við í þeim tilvikum þegar menn neyta bara rauðunnar. Eggið í heild er mjög heilsusamlegt, það er mín sannfæring og við hana stend ég hvar og hvenær sem er," segir eggjabóndinn og færist nú allur í aukana: "Lífið á jörðinni kemur úr eggi og í því er allt sem fóstrið þarf. Svo geta menn deilt um það hvort kom á undan, hænan eða eggið. Ég ætla mér ekki að leysa þá lífsgátu."

Haukur bendir ennfremur á að egg séu misjöfn eftir því á hvernig fóðri varphænan er hverju sinni. "Niðurstöður af samanburði á eggjum hér á landi og í nágrannalöndum okkar sýna að það er meira af Omega3-fitusýrum í okkar eggjum, sem er ekki bara lífsnauðsynleg hverjum manni heldur mjög æskileg fita. Það stafar líklega af því að hér á landi nota menn síldarmjöl sem próteingjafa og að hluta til grasmjöl. Það er sem sagt augljós fylgni á milli notkunar fiskimjöls í fóðri og háu Omega3-fitusýru innihaldi í afurðunum. Við í Gerði höfum látið sérblanda fóðrið fyrir okkur þannig að í því er mikið af fiskimjöli og grasmjöli og því erum við með verulega hærra hlutfall af innlendu fóðri í vistvænu eggjunum sem við framleiðum, og þar með er sérstaklega mikið af Omega3-fitusýru í þeim eggjum. Það má því segja að þau séu hollari en gerist og gengur með egg svona almennt."

Vottun felur í sér gæðastýringu

Það er ýmislegt fleira sem hafa ber í huga varðandi meðhöndlun eggja. Sjálfsagt hafa ekki allir gert sér grein fyrir því að suðan á egginu verður að miðast við stærð þess. Sjötíu gramma egg þarf meiri suðu en fimmtíu gramma egg, ef menn vilja fá þau nákvæmlega eins soðin. Séu þau hins vegar jafnlengi í pottinum verður annað harðsoðið en hitt linsoðið, það segir sig auðvitað sjálft þó ekki sé víst að allir hafi átta sig á því. Haukur sagði að því væri mikilvægt að hafa eggin í hverri pakkningu til neytenda af svipaðri stærð. Og þannig gætum við endalaust haldið áfram að tala um egg og fiðurfénað.

Haukur sagði að lokum að fram til þessa hefðu íslenskir neytendur keypt egg án þess að velta því fyrir sér hvernig þau væru tilkomin. Hann kvaðst þó telja sig finna fyrir auknum áhuga almennings á vistvænum afurðum og þeim kröfum þyrftu framleiðendur að mæta. "Það hefur hins vegar dálítið borið á því að menn séu að selja hitt og þetta sem vistvænt eða lífrænt án þess að hafa til þess heimild samkvæmt reglugerð. Mér finnst það ekki í lagi og hvet þess vegna þá neytendur, sem vilja fá ósvikna, vottaða vöru, að líta eftir stimplinum um "vistvæna landbúnaðarafurð". Vottunin felur í sér ákveðna gæðastýringu á því hvernig varan verður til með áherslu á hreinleika afurða, velferð búfjár og umhverfisvernd," sagði Haukur Halldórsson.