ALÞJÓÐLEGUR dagur soroptimista er í dag, 10. desember. Alþjóðasamband soroptimista er samtök starfsgreindra þjónustuklúbba sem ná yfir heimsbyggð alla.

ALÞJÓÐLEGUR dagur soroptimista er í dag, 10. desember. Alþjóðasamband soroptimista er samtök starfsgreindra þjónustuklúbba sem ná yfir heimsbyggð alla. Það sameinar dugandi konur úr öllum starfsgreinum til þess að vinna að eflingu hugsjóna soroptimista og til samstarfs við önnur samtök um að stuðla að góðvild, skilningi og friði meðal þjóða. Samtökin eru hlutlaus gagnvart trúmálum og stjórnmálum.

Fyrsti soroptimistaklúbburinn var stofnaður 1921 í Oakland í Kaliforníu og fyrsti íslenski klúbburinn í Reykjavík 1959. Félagar eru nú um 95.000 og klúbbar yfir 3.000 í 112 löndum. Á Íslandi eru klúbbarnir orðnir 16 með 412 félögum. Akureyrarklúbburinn var stofnaður árið 1982 og eru í honum 26 konur.

Helsta verkefni Soroptimistaklúbbs Akureyrar hefur verið aðstoð við aldraða. Frá árinu 1983, eða í tæp 17 ár, hefur klúbburinn m.a. séð um útburð hljóðbóka og venjulegra bóka frá Amtsbókasafninu, án endurgjalds, til aldraðra og öryrkja í heimahúsum, sem komast ekki á safnið. Konur í klúbbnum hafa skipst á að fara með sendingar á hverjum fimmtudegi, um 15-20 sendingar í hvert skipti.

Smákökur með næstu sendingu

Síðasta ferð með sendingar fyrir jólin er fimmtudaginn 16. desember og eins og undanfarin ár fá þá allir sendingu, eða um 35 einstaklingar. Þá hafa þrjár konur skipt með sér sendingunum og hverri þeirra hafa fylgt smákökur, sem konur í klúbbnum bökuðu sjálfar fyrstu árin. Undanfarin fjögur ár hafa bakaríin í bænum hins vegar gefið kökurnar og fyrir þá velvild eru soroptimistakonur á Akureyri þakklátar.