Elín Málfríður Helgadóttir fæddist á Herríðarhóli í Holtum 24. júní 1904. Hún lést á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund hinn 3. desember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Ingveldur Andrésdóttir, f. 1880, d. 1953, Ásgrímssonar verslunarmanns á Eyrarbakka, og Helgi Skúlason, f. 1867, d. 1853, bóndi á Herríðarhóli og síðar skrifstofumaður í Reykjavík, Gíslasonar, prófasts á Breiðabólstað í Fljótshlíð. Systkini Elínar eru Guðrún, f. 1900, d. 1999, Andrea, f. 1905, Sigríður, f. 1907, d. 1997, Þorsteinn Benedikt, f. 1911, d. 1985 og Anna María, f. 1916, Einnig áttu þau hálfsystur, samfeðra, Pálfríði, f. 1893, d. 1976.

Útför Elínar Málfríðar fer fram frá Fossvogskapellu í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Í dag verður til moldar borin kær móðursystir mín, Elín Helgadóttir. Ella frænka má segja að hafi fóstrað mig frá því að ég kom á heimili hennar á Grettisgötu 6A sex mánaða gamall ásamt móður minni og tveim bræðrum. Elín fæddist á Herríðarhóli í Holtum þ. 24. júní 1904, dóttir þeirra sæmdarhjóna Ingveldar Andrésdóttur og Helga Skúlasonar. Á Herríðarhóli var oft mannmargt, systkinin 6 auk hálfsystur svo og vinnuhjú. Þarna átti Elín heima þar til hún fluttist til Reykjavíkur þegar foreldrar hennar brugðu búi árið 1924, þá tvítug. Hún tók fljótlega við búsforráðum hjá foreldrum sínum, enda móðir hennar sjúklingur og gat þar af leiðandi ekki sinnt störfum sem skyldi og lá rúmföst árum saman. Á heimilinu voru líka Sigríður systir Elínar og Þorsteinn Benedikt, bróðir þeirra. Elínu fórst vel úr hendi að stjórna stóru heimili, var afskaplega myndarleg til allra verka hvort sem var við almenn hússtörf eða saumaskap. Var vandvirkni hennar þar við brugðið svo fáir léku það eftir. Engu líkara var en að hún hefði málband í augunum og var fljót að taka eftir ef einhverju skakkaði.

Elín var ákaflega góðgerðasöm og mátti aldrei vita neinn svangan né þurfandi. Hér er lítið dæmi um það. Nótt eina vaknaði Elín við þrusk framan úr eldhúsi. Hún fór fram og kom þar að ókunnugum manni sem sýnilega hafði komið inn um eldhússgluggann. Manninum varð hverft við og bað Elínu um að hringja ekki á lögreglu, kvaðst hafa verið að koma frá þeim. Elín féllst á það, en í stað þess að láta hann fara tafarlaust, bar hún honum kaffi og brauð og fylgdi honum svo til dyra og benti honum á að leita skjóls hjá Hjálpræðishernum. Elín frænka reyndist okkur bræðrunum þrem sem önnur móðir þar sem móðir okkar þurfti að vinna jafnvel meiri hluta sólarhringsins til að sjá okkur farborða. Þá að Elín væri alvörugefin var oft stutt í gamansemina og minnist ég þess sérstaklega þegar ég sagði henni að við hjónin hefðum keypt öflugan jeppa og skírt hann Elínu í höfuðið á henni þar sem við hefðum ekki talið við hæfi að skíra annað en öflugan fjallaþjark í höfuðið á henni, þá hló gamla konan. Það mætti lengi telja upp kosti Elínar frænku minnar, en hún hefði ekki kosið að svo yrði gert og gerði raunar lítið úr þeim sjálf. Oft bað hún Ella mín guð fyrir okkur bræðrum enda var hún trúuð kona og lagði ríka áherzlu á að guðs nafn væri ekki lagt við hégóma, lagði hún áherzlu á að það myndi reynast okkur bezt að treysta honum. Þó að Elín giftist ekki né ætti börn sjálf, þá var hún ákaflega barngóð og þess nutu systrabörn hennar og síðar þeirra börn í ríkum mæli. Það var alltaf tilhlökkunarefni að fara á Grettó, það var alltaf svo gott að heimsækja Ellu og Siggu.

Þessi orð verða ekki höfð lengri, við biðjum guð að geyma hana Ellu. Hvíli hún í friði.

Ísólfur og Hrönn.

Nú er hún Ella frænka mín gengin leiðina sína, Langa-Ella eins og dætur mínar kölluðu hana. Þær bjuggu saman amma mín og systur hennar, Ella og Sigga, sem lést fyrir nokkrum árum. Þar sem amma mín er langamma þeirra, þá fannst þeim eðlilegast að kalla hinar systurnar Löngu-Ellu og Löngu-Siggu. Það lá beinast við í þeirra augum og því voru þær aldrei kallaðar annað af mínum börnum.

Nú þegar Ella er farin finnst mér ákveðnum kafla í lífi mínu vera lokið. Systkinin á Grettó voru svo stór þáttur í lífi okkar bróður míns að þegar við vorum krakkar, þá fannst mér aldrei koma til greina að við þyrftum einhvern tíma að vera án þeirra. En nú hefur fækkað enn einu sinni í fjölskyldunni og amma er orðin ein eftir af systkinunum á Grettó. Það sem áður var óhugsandi er nú orðið að veruleika.

Okkur systkinunum verða ætið minnisstæðar allar ferðirnar á Grettó alveg síðan við vorum börn, það var alltaf svo gott að koma þangað, svo sjálfsagt hvort sem við vorum ein á ferð eða með foreldrum okkar. Það máttu aldrei líða of margir dagar á milli heimsókna. Og alltaf var okkur jafn vel tekið. Ella sagði gjarnan þegar maður kom inn úr dyrunum: "Nei, elsku Adda mín" eða "Halli minn, ertu ekki svangur?" Og aldrei kom til greina að fara út aftur með tóman magann. Ég man eftir stundum þar sem Ella mataði okkur á köldu eggi sem oft var til ofan í skúffu, eða mjólk og brauði. Svo bakaði hún líka svo góðar smákökur. Seinna þegar foreldrar okkar fluttust út til náms um tíma, þá borðuðum við á hverjum sunnudegi á Grettó. Annað kom ekki til greina. Faðmur Ellu var okkur alltaf opinn. Seinna, þegar ég kynnti fyrir henni verðandi manninn minn, þá var honum tekið eins og hann hefði alltaf verið einn af fjölskyldunni. Ella og Sigga áttu í honum hvert bein. Það var eins og þær hefðu þekkt hann alla tíð, slíkar voru móttökurnar. Það varð síðan fastur liður hjá okkur hjónum að skreppa í bæinn á Þorláksmessu ár hvert með börnin til að skoða jólasveinana og fara svo á Grettó til að hlýja okkur og fá eitthvað í svanginn. Ég sakna þess oft að þessi tími skuli vera liðinn. Mér finnst Þorláksmessan ekki vera lengur sú sama eftir að systurnar fluttu frá Grettó.

Þessi orð verða ekki lengri, ég veit að Ellu frænku líður vel núna og hefur sjálfsagt nú þegar hitt bæði Steina og Siggu og borið þeim kveðju okkar sem eftir erum hérna megin. Hvíli hún í friði hjá guði eftir langa ævi.

Andrea og Árni,

Hafliði og Guðrún.

Enn er skarð höggvið í systkinahópinn frá Herríðarhóli í Holtum sem lengst af öldinni bjó að Grettisgötu 6A, enda öll fædd á fyrstu áratugum aldarinnar. Að þessu sinni er það næstelsta systirin, Elín, sem látin er í hárri elli, en ekki er liðið nema hálft ár síðan Guðrún, sú elsta þeirra, lést, 99 ára að aldri.

Ella sleit barnsskónum á Herru og sinnti þeim störfum sem títt var um unglinga þess tíma, bæði innanhúss og utan. Bærinn var kannski lítill fyrir stóra fjölskyldu, en fyrir utan hann tók við sunnlensk víðátta, himbrimar syntu á Herruvatni og í fjarska sá til Heklu. Á björtum sumarnóttum var stundum dansað í sveitinni og lítt um það hirt, þótt fara þyrfti beint í fjósverkin þegar heim kom árla morguns.

En áhyggjuleysi æskunnar tók enda þegar faðirinn, Helgi, brá búi vegna veikinda konu sinnar, Ingveldar, og flutti ásamt fjölskyldunni til Reykjavíkur árið 1924. Ella tók þá fljótlega við ráðskonuhlutverkinu á heimilinu eftir að elsta systirin giftist. Faðirinn og eldri systurnar fóru að vinna úti, Ella hjúkraði rúmfastri móður sinni og hugsaði um tvö yngstu börnin auk annarra heimilisstarfa. Eftir að fjölskyldan flutti í eigið húsnæði á Grettisgötunni, bættust iðulega leigjendur í hóp heimilismanna. Húsið var bakhús, ekki sérlega stórt, og hafði tvo innganga og samtals fjögur forstofuherbergi auk annarra vistarvera og hentaði því vel til sambýlis margra fullorðinna. Inni í því miðju var stofan, félagslegur miðdepill hússins. Þeir eru ófáir, bæði skyldir og vandalausir, sem þar hafa þáð veitingar og hvíld, jafnvel svefn í dívaninum hennar Ellu, en hún gerði sér að góðu að sofa í stofunni nær alla sína löngu búsetu í húsinu og var fletið hennar jafnframt ,,sófinn" í stofunni. Alltaf virtist húsið vera fullt af fólki. Þegar öll systkinin voru farin út á vinnumarkaðinn, komu til sögunnar þrír systursynir Ellu sem þar ólust upp að miklu leyti, ekki síst í umsjón Ellu og Siggu systur hennar, meðan móðirin, Adda, vann myrkranna á milli til að sjá sér og börnunum farborða. Trúi ég því að þrátt fyrir eðlislæga mildi og glaðværð, hafi Ella sýnt börnunum vissa festu í uppeldinu, hvort sem um yngstu systkini hennar sjálfrar eða systursyni var að ræða, enda konan með eindæmum þolgóð og jafnvel þrjósk ef því var að skipta. Þannig leiddi eitt af öðru til þess að Ella fór ekki út á vinnumarkaðinn fyrr en að foreldrum sínum látnum eða á sjöunda áratugnum. Hún starfaði á prjóna- og saumastofum um áratugaskeið fram yfir sjötugt, en þar naut sín einstök nákvæmni og vandvirkni hennar sem ýmsir ættingjar höfðu áður sannreynt. Hún var mjög góð saumakona og þótti snillingur í alls konar fataviðgerðum svo erfitt var að greina á milli þess sem heilt var og viðgert. Hekluð milliverk í sængurfatnað og prjónaðir sokkar og vettlingar Ellu er víða að finna innan fjölskyldunnar.

Ella var mjög greind kona og víðlesin og hefði eflaust farið í langskólanám hefðu aðstæður og tíðarandi verið með öðrum hætti. Bak við hversdagslegan raunveruleikann sló hjarta náttúrubarnsins sem elskaði Schubert, Jónas Hallgrímsson og fugla himingeimsins. Þegar hún var spurð hvort ekki væri leiðigjarnt að sauma hvern gardínumetrann á fætur öðrum, svaraði hún því til að svo væri alls ekki, þá fengi hún tækifæri til að láta hugann reika. Hún gerði heldur ekki víðreist um ævina, í mesta lagi upp í Borgarfjörð eða austur í Vík, og þær skemmtanir sem hún sótti eftir að til Reykjavíkur kom voru fáar, en í minningunni voru þessi atvik þeim mun dýrmætari. Þessi mikla nægjusemi náði einnig til annarra lífsins gæða, svo nútímamanninum þótti stundum jaðra við meinlætalifnað. En hún virtist aldrei vera óánægð og einmana og þessi hugarró smitaði út frá sér og það var gott að vera í návist hennar, komast burtu úr skarkala miðbæjarins inn í hlýjuna hjá henni og systkinum hennar, en á Grettisgötu bjuggu lengst af auk Ellu systkini hennar Þorsteinn og Andrea að ógleymdri Siggu sem oftast var nefnd í sömu andrá og Ella, enda voru þær eins og tvær leiðarstjörnur sem lýstu okkur vegfarendum og umhyggjunni sem þær báru hvor fyrir annarri var við brugðið.

Síðustu æviárin hafa þær systur þrjár búið á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund. Það var með þungum huga að Ellu var vísað á elliheimili eftir að hún hafði eytt megninu af sinni ævi í að hlynna að öðrum. Í nálægð systra sinna og með frábærri aðhlynningu starfsfólks Grundar átti hún þó notarlegt ævikvöld þar. Starfsþrekið var löngu þorrið og hreyfigetan dvínaði smám saman, svo og hæfileikinn til að tjá sig, en fram á síðustu vikur lífs síns hélt Ella andlegum styrk og eðlislægum virðuleika sem ættingjar hennar og vinir þekkja svo vel.

Merk kona er gengin, hversdagshetja sem lét lítið yfir sér en bjó yfir miklu andlegu atgervi. Það hefur verið erfitt að standa undir nafni hennar og kærrar systur hennar, slíkar sómakonur voru þær báðar. Nú fá þær aftur að hvíla hlið við hlið og ef til vill hittast þær aftur annars staðar, lausar úr viðjum sjúkdóma og elli. Blessuð sé minning þeirra.

Elín Sigríður

Konráðsdóttir.