Hulda Klara Randrup fæddist 21. ágúst 1920. Hún lést á Landspítalanum 2. desember síðastliðinn. Hulda var gift Adolfi Sveinssyni, f. 13 maí 1920, d. 21 apríl 1967 og áttu þau sex börn: 1) Snæbjörn, f. 1948, kvæntur Kristínu Guðjónsdóttur, eiga þau þrjú börn en hann á fjögur úr fyrri samböndum og þrjú barnabörn. 2) Sveinn, f. 1950 kvæntur Sigríði Gunnarsdóttur eiga þau þrjá syni. 3) Agnes, f. 1952 gift Pétri Aðalgeirssyni og eiga þau tvo syni. 4) Sigurður, f. 1955, hann á þrjú börn. 5) Guðný, f. 1958 gift Hjalta Heimi Pétursyni, eiga þau fjögur börn og eitt barnabarn. 6) Adolf, f. 1959

Hulda Klara verður jarðsungin frá Keflavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 16.

Í morgun fékk ég þær sáru fréttir að þú værir farin frá okkur, elsku Hulda mín. Þetta gerðist svo fljótt, sem er svo erfitt að sætta sig við. En á hinn bóginn er gott að vita að þú þurftir ekki að þjást, og ég trúi að núna hafir þú hitt manninn þinn, hann Adolf, aftur eftir allmörg ár, það slær svolítið á sorgina, en ég vildi að við fengjum að hafa þig líka. En svona auðvelt er þetta líf víst ekki.

Ég kynntist þér árið 1988 þegar ég og Siggi, sonur þinn, vorum rétt að byrja saman. Það var í afmælisveislu Agnesar, dóttur þinnar, sem ég hitti þig og reyndar alla fjölskylduna í fyrsta skipti, ég var svo kvíðin en þess hefði ég ekki þurft. Það tóku mér allir vel og þú, elsku Hulda, stóðst þarna í eldhúsinu svo fín og falleg og svo blíðleg og góð, ég vissi þá strax að við gætum orðið vinkonur. Sú varð raunin, og þú tókst ekki bara mér vel heldur tókstu syni mínum, honum Guðmundi Má, eins og hann væri eitt af þínum barnabörnum og það þótti mér mjög vænt um.

Ég og Siggi eignuðumst tvær yndislegar dætur saman, þær Söru Jóhönnu og Huldu Dögg, en 1992 slitnaði upp úr sambandinu okkar Sigga, en það breytti engu á milli mín og þín, þú varst bæði mér og Guðmundi Má og auðvita Söru og Huldu alla tíð mjög góð.

Ég ætlaði að heimsækja þig miklu oftar en ég gerði, ég hélt að ég gæti það hvenær sem væri en núna get ég það ekki og mér þykir það svo sárt. Ég er þó fegin því að stelpurnar mínar fengu að hitta þig annan hvorn sunnudag þegar Siggi fór með þær til þín í sunnudagssteikina, það var fastur liður sem er ekki til staðar lengur.

Það var svo erfitt að segja Söru og Huldu frá andláti þinu, við sátum á stofugólfinu, héldum utan um hver aðra og grétum. Þær skilja ekki, frekar en ég, af hverju þú varst tekin frá okkur. Sara Jóhanna sagði að þetta væri ekki réttlátt, sérstaklega þar sem pabbi þeirra er nýbúinn að kaupa íbúð rétt hjá Huldu ömmu svo þær systurnar gætu bara labbað til þín þær helgar sem þær væru hjá pabba sínum og Hulda Dögg spurði mig hvað þær ættu að gera þá sunnudaga sem þær hefðu átt að vera með þér, ég gat ekki svarað því.

Ég tók fram allar myndirnar af þér og við skoðuðum þær lengi og töluðum um þig og hversu mikið við eigum eftir að sakna þín.

Í hjarta mínu veit ég að þér líður vel þar sem þú ert núna og góður Guð mun taka á móti þér opnum örmum, en við sem eftir sitjum eigum eftir að sakna þín svo mikið. En við eigum minninguna um þig og við munum alltaf geyma þig í hjörtum okkar. Elsku Siggi, Snæbjörn, Svenni, Agnes, Guðný, Addi, tengdabörn og barnabörn, Ég samhryggist ykkur og bið góðan Guð að gefa ykkur styrk í sorginni.

Við kveðjum þig með miklum söknuði, elsku Hulda okkar og amma.

Sigríður, Sara

Jóhanna, Hulda Dögg og Guðmundur Már.

Elsku amma. Þegar Þóra systir hringdi í mig fimmtudagsmorguninn og sagði mér að þú værir farin frá mér fannst mér sem heimurinn hryndi. Þú varst búin að vera veik en þú varst öll að hressast svo ekki átti ég von á því að þú værir að fara frá mér strax. Ég á eftir að sakna þess að geta ekki lengur komið með Jóa og Pétur Heimi í heimsókn til þín og Adda. Því þér þótti svo gaman þegar Pétur Heimir var hjá þér. Þegar ég, Pétur Heimir og mamma eða bara ég og Pétur Heimir vorum að skutla þér á mánudögum því þá varstu ekki að bera út dagblaðið með Gústu systur þinni. Þú varst nefnilega alltaf að bera út dagblaðið með Gústu systur þinni.

En núna ertu komin til afa sem þú misstir ung frá þér og börnunum ykkar. Vona ég að ykkur líði vel saman á ný.

Góði Guð, viltu styrkja okkur öll til að komast í gegnum sorgina.

Hulda Klara.

Elsku amma. Aldrei bjóst ég við því að þú gætir horfið svona fljótt úr lífi mínu. Ég get allavega huggað mig við það að nú ertu komin aftur til afa og ég vona að ykkur líði vel.

Eftirminnilegast sem ég man er þegar fjölskyldan mín kom til þín í pönnsur á sunnudögum, þú bjóst til bestu pönnukökurnar.

Og alltaf þegar það voru afmæli þá bakaðir þú pönnsur fyrir okkur og komst með til okkar. Nokkrum sinnum komst þú með okkur til ömmu Stínu á Þorláksmessu í skötu. Svo þegar þú passaðir Ómar er ég var í skólanum. Ég kom og sótti hann er ég var búin og þá bauðst þú mér alltaf uppá kökur og djús eða grillað brauð með baunasalatinu sem þú bjóst alltaf til fyrir Adda. Ég vildi að ég hefði getað kvatt þig almennilega áður en þú fórst en þetta skeði allt svo snögglega. Ég, Ásthildur og Ómar gleymum þér ekki og minningarnar pössum við vel í hjörtum okkar. Takk fyrir allt og bless, amma, í bili, við sjáumst, guð geymir þig.

Góði Guð, viltu styrkja mömmu, pabba, Adda, Svenna, Agnesi, Snæbjörn og Sigga til að komast í gegnum sorgina.

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt,

hafðu þar sess og sæti,

signaði Jesú mæti.

Vertu nú yfir og allt um kring

með eilifri blessun þinni.

Sitjí guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

Þóra Kristín, Ásthildur

Margrét og Ómar Þröstur.

Elsku Hulda mín.

Ég vil þakka þér allan þann kærleik og hlýju sem þú gafst mér og fjölskyldu minni síðan við kynntumst.

Mamma orti tvö vers fyrir mig til þín, og þau segja allt sem segja þarf.

Frá hjarta mér þakkir og minningar

streyma,ég þakka þann dag, sem að kynntist ég þér.

Manngæsku þinni ég aldrei mun gleyma

né öllum þeim kærleik,sem sýndir þú mér.

Nú vel þér mun líða í ljóssins landi.

Því skærasta ljósið mun lýsa þinn veg.

Og útbreiddur faðmur, sem tók þér á móti,

hann leiðir þig áfram,og fylgir þér.

(Sara Vilbergsdóttir.)

Ég sendi öllum sem elskuðu Huldu mínar innilegustu samúðar kveðjur.

Hvíl í friði, elsku Hulda mín. Þín vinkona,

Jóhanna St. Guðmundsdóttir (Hanna).

Hún Hulda frænka er dáin, það er erfitt að sætta sig við það en nú vitum við að þér líður vel og þúþarft ekki að þjást lengur því þú varst búin að vera lasburða síðustu vikur þótt þú hafir aldrei kvartað, það er ekkert að var alltaf svarið og slegið á létta strengi. Þær eru ófáar minningarnar sem við geymum í hjarta okkar , hláturinn sem allir smituðust af, allar þær sumarbústaðarferðir sem þú komst með mömmu og pabba til okkar og alltaf voru spilin tekin með því þú hafðir svo gaman af að spila,og þá sérstaklega við "strákana" eins og þú orðaðir það og var þá mikið hlegið. Það er erfitt að hugsa til þess að þú komir ekki til okkar systranna eftir að þið voruð búnar að bera út blöðin, en þinn síðasti blaðadagur var hinn 30. nóvember tveimur dögum áður en þú kvaddir, en við trúum því að þú verðir áfram með okkur við það starf. Já við erum búnar að eiga margar góðar stundir með þér og mömmu sem sárt saknar þín því þið voruð svo samrýnar systur alla tíð en mamma og pabbi eru stödd erlendis og eru með okkur í huganum á þessari sorgarstundu.Við kveðjum þig með þessum orðum og biðjum Guð að geyma þig, elsku frænka.

Börnum, tengdabörnum barnabörnum og barnabarnabörnum viljum við votta okkar dýpstu samúð og megi guð veita ykkur styrk á þessari sorgarstundu.

Kveðja,

Sigríður, Agnes og fjölskyldur.

Hulda Randrup, það er skrítið að segja nafn þitt án þess að það sé í sambandi við eitthvað sem ekki er hægt að hlæja að. Þau eru ófá spaugilegu atvikin sem við höfum lent í og mikið hlegið, og þegar þú hlóst, elsku Hulda, þá smitaðir þú alla í kringum þig.

Við eigum eftir að sakna þín sárt.

Í afmælum - jólaboðum voruð þið systur hrókur alls fagnaðar. Nú hringir enginn á sunnudögum og spyr: "Á að fara í kvöld?", þá var átt við bingó, því þér þótti gaman að fara út og vera innan um fólk. Alltaf ef eitthvað stóð til hjá fjölskyldunni var sagt: "Þið takið Huldu með". Því þú varst ómissandi, þú og Gústa systir þín. Þér var allstaðar tekið opnum örmum ef eitthvað stóð til.

Elsku Hulda við kveðjum þig í þessu lífi, en við hittumst aftur. Það efast ég ekki um, en þangað til bið ég guð að geyma þig og votta börnum þínum og barnabörnum mína hjartans samúð. Missir þeirra er mikill en minning þín mun lifa um ókomin ár.

Sigurjóna Hauksdóttir.