Hjörleifur Már Erlendsson fæddist á Reykjum í Vestmannaeyjum 13. október 1927. Hann andaðist á Hjúkrunarheimilinu Garðvangi í Garði 3. desember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Erlendur Erlendsson veitingamaður, f. 7.9. 1905 á Giljum í Hvolhreppi, d. 14.9. 1958, og Guðbjörg Oktavía Sigurðardóttir húsmóðir, f. 2.10. 1897 á Eystri- Skógum, Eystri-Eyjafjallahreppi, d. 8.11. 1977. Bræður Hjörleifs sammæðra eru: Páll Kr. H. Pálsson, f. 22.8. 1930, d. 24.3. 1995, Marinó Hafsteinn Andreasson, f. 15.7. 1933, d. 17.10. 1986, Óli Markús Andreasson, f. 27.11. 1934, d. 30.3. 1991, Karl Valur Andreasson, f. 27.11. 1934, og Þórir Rafn Andreasson, f. 22.2. 1936. Systkini Hjörleifs samfeðra eru: Sigríður Alda Eyland Erlendsdóttir, f. 29.9. 1930, Valgerður Erlendsdóttir, f. 16.3. 1935, Gísli Erlendsson, f. 26.11. 1936, Erla Erlendsdóttir, f. 12.6. 1943, Jóhanna E. Erlendsdóttir, f. 31.3. 1945, og Ingibjörg Erlendsdóttir, f. 11.7. 1947.

Fyrri kona Hjörleifs var Júlía Ólafsdóttir, f. 20.7. 1924 á Álftarhóli í Rangárvallasýslu. Foreldrar hennar voru Ólafur Halldórsson og Sigurbjörg Árnadóttir. Hjörleifur og Júlía eignuðust þrjú börn. Þau eru: Ómar, f. 16.7. 1947, Hulda Berlin, f. 10.9. 1948, maki Owe Berlin og á hún tvö börn og þrjú barnabörn; og Guðbjörg Alma, f. 26.12. 1949, gift Alberti Erlingi Pálmasyni og eiga þau fjögur börn og tvö barnabörn.

Eftirlifandi eiginkona Hjörleifs er Ástrós Eyja Kristinsdóttir, f. 7.11. 1933 í Norðurgarði vestri í Vestmannaeyjum. Foreldrar hennar voru Gísli Kristinn Aðalsteinsson og Guðbjörg Sigríður Einarsdóttir ábúendur að Norðurgarði estri í Vestmannaeyjum. Hjörleifur og Ástrós eignuðust sex börn. Þau eru: Harpa, f. 4.1. 1953, gift Þórði Haraldssyni og eiga þau einn son; Þröstur Elfar, f. 2.11. 1954, kvæntur Dýrborgu Ragnarsdóttur og eiga þau tvo syni; Hrönn, f. 1.12. 1955, gift Þorgeiri Kolbeinssyni og eiga þau fjögur börn og eitt barnabarn; Hlíf, f. 28.1. 1957, í sambúð með Ómari Leifssyni og eiga þau fjögur börn; Sóley Vaka, f. 27.7. 1963, gift Jóhanni Guðnasyni og eiga þau þrjú börn; og Bylgja Dögg, f. 30.7. 1970, í sambúð með Guðjóni Paul Erlendssyni.

Útför Hjörleifs fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Góður drengur er genginn. Elskulegur faðir minn hefur lokið sínu lífshlaupi. Hann glímdi við illvígan sjúkdóm og erfið veikindi undir það síðasta. Þegar svo er komið kemur dauðinn eins og líknandi engill og hinn sjúki öðlast ró og frið, laus undan oki og þrautum sjúkdómsins. Ég trúi því að nú hafi pabbi náð fundum móður sinnar og föður, móður sem honum var afskaplega kær og föður er hann fékk lítið sem ekkert að kynnast. Örlögin spunnu sinn vef og það átti fyrir pabba að liggja að faðir hans hélt litlu sem engu sambandi við hann. Faðir hans fluttist síðan til Ameríku og lést þar langt fyrir aldur fram. Þá kynntist pabbi heldur aldrei sex systkinum sínum samfeðra, sem öll eru búsett í Ameríku, ef frá er talið eitt skipti er hann hitti hálfbróður sinn er kom í stutta heimsókn til landsins fyrir þremur árum eftir 44 ára fjarveru. Það var yndislegt að verða vitni að því er þeir bræður sáust í fyrsta sinn á heimili mínu.

Pabbi ólst upp með fimm bræðrum sínum sammæðra í Vestmannaeyjum. Hann fór ungur til vinnu og hleypti heimdraganum 18 ára gamall. Hann fluttist þá upp á land og hóf búskap með fyrri konu sinni. Hann var ekki orðinn tvítugur er hann eignaðist sitt fyrsta barn og 22 ára gamall var hann orðinn þriggja barna faðir. Þau hjón skildu og örlögin höguðu því svo að pabbi fékk aldrei að kynnast þessum börnum sínum. Það veit sjálfsagt enginn nema sá sem það reynir, hversu erfitt hlutskipti það er að fara á mis við að kynnast börnum sínum, að sjá þau vaxa úr grasi, lifa og njóta samvista með þeim. Engum gat dulist að þetta setti mark sitt á pabba. Hann stofnaði aðra fjölskyldu í Vestmannaeyjum með móður minni, sem reyndist honum einstaklega tryggur og góður lífsförunautur.

Pabbi var hjartahlýr og góður maður, lítillátur og lét sér annt um velferð sinna nánustu. Hann var einstaklega handlaginn og listrænn. Eftir hann liggja falleg málverk og teikningar og hér á árum áður mótaði hann og skreytti nafnaspjöld á fjölda báta í Eyjum, auk þess sem hann annaðist skrautritun svo fátt eitt sé nefnt. Það var í reynd nákvæmlega sama hvað hann tók sér fyrir hendur, allt lék í höndunum á honum og bar merki frábærs handbragðs hans.

Mestan hluta starfsævi sinnar vann pabbi við bifreiðasmíði, bílasprautun og réttingar. Lengst starfaði hann á Bifreiðaverkstæði Hreggviðs Jónssonar í Vestmannaeyjum, einnig á Bifreiðaverkstæðinu Skemmunni í Vestmannaeyjum hjá Kristni Karlssyni, sem pabbi hafði að öðrum ólöstuðum í miklum metum fyrir drengskap og trygglyndi. Þá var hann leigubifreiðastjóri í Vestmannaeyjum til margra ára.

Fjölskyldan fluttist frá Eyjum í gosinu 1973 og settist að í Keflavík. Þar starfaði pabbi lengi á Bifreiðaverkstæði Birgis Guðnasonar og sjö síðustu starfsár ævi sinnar átti pabbi og rak vaktþjónustufyrirtækið Gæsluna í Keflavík.

Pabbi var félagslyndur og hrókur alls fagnaðar á mannamótum. Hann var mikill tónlistarunnandi og hans líf og yndi var að spila á harmoniku. Hún fylgdi honum jafnan á mannamót. Hann var trúaður, vel lesinn, hafði skoðanir á flestu og var ekkert að liggja á þeim.

Í Keflavík hafa foreldrar mínir notið nábýlis og mikillar umhyggju Sóleyjar systur minnar og fjölskyldu hennar, en hún er eina barn þeirra sem þar býr. Samskipti þeirra voru mikil og veitti það styrk í erfiðum veikindum. Í veikindum sínum naut pabbi jafnframt mikillar umhyggju systurdóttur minnar, Katrínar Rutar, sem búsett er í Garði, en hún var einstaklega dugleg að heimsækja hann og taka hann með sér í bíltúra. Fyrir þetta var pabbi þakklátur.

Á stund sem þessari hrannast minningarnar fram í hugann. Ég sakna allra góðu stundanna með pabba og bið honum blessunar á nýrri strönd. Að leiðarlokum kveð ég elskulegan pabba og þakka fyrir allt og allt. Guð varðveiti og blessi minningu hans og veiti okkur aðstandendum styrk í sorginni.

Þröstur Elfar Hjörleifsson.