Guðmundur Magnússon fæddist á Kjörvogi í Árneshreppi í Strandasýslu 8. desember 1913. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík 3. desember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðrún Jónsdóttir (1874-1952) frá Stóru Ávík, húsfreyja á Kjörvogi, og Magnús Guðmundsson frá Finnbogastöðum, útvegsbóndi á Kjörvogi. Guðmundur var yngstur fimm systkina, sem öll eru nú látin. Þau voru: Guðrún (1900-1947), húsfreyja á Akureyri, Guðfinna (1902-1925), Magnús (1906-1926) og Guðjón (1908-1994).

Eftirlifandi kona Guðmundar er Kristín Guðmundsdóttir, f. 26. apríl 1927 á Hólakoti í Dýrafirði. Synir þeirra eru: Magnús Rúnar (f. 1961), framkvæmdastjóri hjá Málmtækni sf., kvæntur Hrönn Harðardóttur, hjúkrunarfræðingi, þau eiga tvær dætur, og Níels Pétur (f. 1967), deildarstjóri hjá Íslandspósti. Fyrir átti Kristín þrjú börn, Þórdísi Garðarsdóttur, maður hennar er Lúðvík Björnsson, Guðmund Elías Níelsson, kona hans er Karólína Guðmundsdóttir, og Elsu Margréti Níelsdóttur, maður hennar er Jaap de Ridder. Níels, fyrri maður Kristínar, fórst af slysförum árið 1954. Ól Guðmundur þau Guðmund og Elsu upp sem sín fósturbörn til fullorðinsára. Alls urðu barnabörn Guðmundar tíu talsins.

Framan af ævi stundaði Guðmundur bústörf á Kjörvogi en lærði ungur múraraiðn og starfaði við þá iðn meðfram búskap næstu áratugi. Um miðjan sjötta áratuginn fluttist Guðmundur til Reykjavíkur og starfaði hjá Ofnasmiðjunni frá 1963-1986 er hann settist í helgan stein.

Útför Guðmundar verður gerð frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 10.30.

Það var ef til vill við hæfi, að stjúpi minn, Guðmundur Magnússon, eða Mundi eins og hann var jafnan kallaður, kveddi þennan heim áður en ný öld rennur í garð. Hann fæddist í afskekktri sveit í byrjun þessarar aldar, inn í heim, sem ekki hafði breyst að ráði um aldir og upplifði meiri breytingar en nokkur kynslóð hefur gert. Oft fannst honum nóg um og kaus þá að standa öruggum fótum í viðhorfum og gildum, sem höfðu enst honum vel. Gamlar dyggðir eins og vinnusemi, trúmennska, hjálpsemi og nægjusemi voru honum eðlislægar og hann lét ekki heimsins prjál villa sér sýn.

Að Munda stóðu sterkir stofnar dugmikils bændafólks, sem jafnhliða búskap stundaði sjósókn af annáluðu kappi. Jafnframt því að vera æðrulaust í átökum sínum við óblíð náttúruöfl, þá var þetta fólk einnig framfarasinnað og lífsglatt. Heimilið að Kjörvogi var gestrisið menningarheimili. Þar gengu menn fumlaust til stórra verkefna og samheldni einkenndi heimilisbrag. Til þess var tekið, þegar reist var glæsilegt, tvílyft íbúðarhús úr rekaviði á mettíma árið 1936. Gömul gildi voru í heiðri höfð, guðsótti og góðir siðir. Sem unglingur varð Mundi fyrir þeirri sáru reynslu, að missa tvö systkini sín með árs millibili, en þau voru þá rétt um tvítugt. Sú lífsskoðun, sem Mundi hlaut í veganesti var í grundvallaratriðum sú, að setja traust sitt á skapara sinn en að jafnframt, að hafa þyrfti fyrir hlutunum og Guð hjálpaði þeim, sem hjálpuðu sér sjálfir.

Mundi hlaut uppfræðslu eins og hún tíðkaðist á þeim tíma, en um eiginlega skólagöngu var ekki að ræða. Hann stundaði almenn bústörf framan af ævi en eftir að Guðjón bróðir hans kom heim frá Akureyri menntaður byggingameistari fór Mundi að fylgja bróður sínum til verka. Mundi nam af Guðjóni múrverk og næstu áratugina fór hann víða og stundaði þá iðn en búskapurinn var þó jafnan hans aðalstarf á þessum árum. Þannig háttaði til, að eftir lát pabba hans bjuggu Mundi og móðir hans, Guðrún, Kjörvog á móti Guðjóni og Guðmundu, konu hans. Vegna starfa sinna þurfti Guðjón að dveljast langdvölum utan heimilis og reyndist Mundi þá frændsystkinum sínum haukur í horni, hvort sem var í leik eða starfi.

Þegar Mundi var kominn vel yfir fertugt hitti hann tilvonandi eiginkonu sína, Kristínu. Var það hans stóra gæfa og áttu þau saman 40 góð ár. Þau bjuggu í Reykjavík, fyrst að Skúlagötu 62 en síðan að Miklubraut 16. Hann hóf störf hjá Ofnasmiðjunni árið 1963 og starfaði þar til ársins 1986, er hann settist í helgan stein. Jafnframt starfi sínu hjá Ofnasmiðjunni sinnti hann múrverki og gerði við stálvaska fyrir þakkláta viðskiptavini. Skipti þá jafnan meira máli, að verkið væri vel af hendi leyst en að endurgjaldið væri hátt. Mundi var mikill hagleiksmaður og allt lék í höndum hans. Þau eru t.d. ófá börnin sem eiga lítinn kistil eftir hann. Vinnudagur hans var yfirleitt langur og hugtakið sumarfrí eins og við skiljum það í dag, var óþekkt fyrirbæri. Er starfsævi lauk var líkaminn orðinn slitinn, enda hafði drjúgu verki verið skilað, en andlegu atgervi hélt Mundi uns yfir lauk og fyrir það var hann almættinu þakklátur.

Mundi var blíður og ljúfur í lund, glettinn og gamansamur og naut þess að hafa samskipti við fólk. Hann var ákveðinn og hreinskiptinn og óhræddur við að viðra skoðanir sínar við jafnt háa sem lága og talaði þá tæpitungulaust. Hann eignaðist góða vini úr hópi sveitunga og vinnufélaga, sem yljuðu honum með trygglyndi sínu til síðasta dags. Mundi hafði ánægju af að gleðja aðra og gaf oft rausnarlega til líknarmála af hóflegum efnum. Kom það beint frá stóru hjarta en kærleikur og hlýja eru þau lyndiseinkenni sem uppúr standa að lokum. Minnumst við systkinin hans fyrst og síðast sem kærleiksríks heimilisföður.

Sagt er, að Strandamenn hafi löngum vitað lengra en nef þeirra náði. Ekki er lagður dómur á það hér, en víst er, að Mundi var berdreyminn og hafði tilfinningu fyrir óorðnum hlutum. Hann hlaut í arf frá sínum uppvexti sterka trú og þar batt hann sitt akkeri. Hann kunni Passíusálmana mikið til utanbókar ásamt fjölda annarra kvæða, veraldlegra og andlegra. Aldrei gekk hann til hvílu án þess að signa fyrir við útidyr og það var einnig hans síðasta verk áður en lagðist fyrir og fékk hægt andlát að kvöldi 3. desember. Hann hafði verið ferðbúinn lengi, var saddur lífdaga og fékk lausn á þann hátt sem hann helst kaus. Að leiðarlokum þakka ég stjúpa mínum fyrir samfylgdina og bið honum blessunar á nýju tilverustigi. Blessuð veri minning hans.

Guðmundur E. Níelsson.

Þegar mér var tilkynnt andlát Guðmundar Magnússonar, föðurbróður míns, eða Munda á Kjörvogi, eins og hann var venjulega kallaður í sveitinni sinni, Árneshreppi í Strandasýslu, sem var honum alla tíð svo kær, hvarflaði hugurinn ósjálfrátt þangað. Þegar ég var að alast upp þarna í sveitinni sem barn var hann enn bóndi á Kjörvogi þar sem hann hafði tekið við búskapnum af afa og ömmu. Foreldrar mínir bjuggu svo á hinum helmingi Kjörvogs sem því var tvíbýli en voru ekki með mikinn búskap þar sem faðir minn, Guðjón Magnússon, var smiður og starfaði við iðn sína vítt og breitt um Húnaflóasvæðið. Mundi frændi virkaði því sem hálfgerður annar faðir okkar systkinanna á Kjörvogi og var ekki vanþörf á því hjörðin varð heil tylft og oft ærslast eins og nærri má geta á stóru heimili og full þörf á styrkri stjórn svo allt færi ekki úr böndunum.

Heimilið á Kjörvogi var ávallt fjölmennt og mikill gestagangur. Íbúðarhúsið var stórt tvílyft timburhús smíðað úr rekavið árið 1936 og hver spýta í það söguð með handsögum. Bjuggu fjölskyldurnar tvær sín í hvorum helmingi hússins. Átti Mundi stóran þátt í húsbyggingunni.

Fyrstu kynni mín af Munda voru því af honum sem bónda á Kjörvogi og elskulegum frænda sem hafði gaman af að hafa litlu frændsystkini sín í kringum sig, segja þeim sögur, gantast við þau, stríða svona mátulega, hugga þegar svo bar undir, já, vera frændinn sem maður heldur stundum að sé bara til í sögubókum. Já, þvílík forréttindi að hafa í vegferð sinni fengið að stíga nokkur skref með slíkum samferðamanni.

Í næsta kafla minninganna er Mundi farinn að heiman og orðinn heimsborgari í mínum augum, fluttur til Reykjavíkur, og búinn að kynnast stóru ástinni í lífi sínu, henni Kristínu Guðmundsdóttur, sem gekk með honum hans æviveg allt til enda. Taldi Mundi ávallt að það hefði verið hans mesta gæfa í lífinu að finna hana Stínu sína kominn á þennan aldur en hann var þá á fimmtugsaldri. Faðir minn hafði þá tekið við búinu á Kjörvogi.

Þótt Mundi væri fluttur frá Kjörvogi og hættur búskap kom hann á hverju sumri ásamt hinni nýju fjölskyldu sinni. Með Stínu, sem var ekkja, fékk Mundi þrjú börn, Þórdísi sem var elst og Guðmund Elías og Elsu, sem voru á svipuðu reki og ég og gekk hann þeim í föðurstað. Þannig fengum við yngstu systkinin á Kjörvogi leikfélaga á hverju sumri næstu sjö árin því Guðmundur Elías og Elsa voru á Kjörvogi öll sumur fram yfir fermingu.

Það var því oft kátt á Kjörvogi og var þessi tími afskaplega skemmtilegur.

Mundi var ávallt hrókur alls fagnaðar og mikið hlakkaði maður til hvers sumars þegar krakkarnir og Mundi og Stína kæmu í sveitina. Hann hafði svo gaman af okkur og sóttumst við eftir félagsskap hans. Sláttur á Kjörvogi hófst ávallt á þessum árum með því að Mundi sló bæjarhólinn með orfi og ljá og söng svo undirtók í hinum fagra fjallasal Strandanna. Hamingja hans var svo fullkomnuð þegar hann og Stína eignuðust drengina Magnús Rúnar og Níels.

Mundi og Stína hófu sinn búskap í Reykjavík á Skúlagötu 62 en fluttu fljótlega að Miklubraut 16 þar sem þau bjuggu síðan og komu börnum sínum vel til manns og mennta, öll heilsteypt og dugandi einstaklingar sem vegnað hefur vel í lífinu. Mundi hóf störf í Ofnasmiðjunni hf. og starfaði þar alla tíð en hann var þúsundþjalasmiður og jafnvígur á stein, tré og járn.

Meðfram vinnunni í Ofnasmiðjunni vann hann í múrverki og öðlaðist full réttindi í þeirri iðn og tók að sér múrverk víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu .

Þegar hann hætti störfum fyrir aldurs sakir í Ofnasmiðjunni var hann búinn að innrétta lítið verkstæði í kjallaranum á Miklubrautinni þar sem hann vann við að gera við og standsetja stálvaska, smíða niðurföll og ýmsa smáhluti til bygginga. Mundi var því alltaf að, starfskraftar hans ótrúlegir, viljinn óbifandi, en að lokum varð eitthvað undan að láta og síðustu árin gat hann lítið gert á litla verkstæðinu sínu. Hann átti þó lengi lager af ýmsu smálegu sem hann hafði smíðað og þegar ég heimsótti hann fyrir fáum árum og sagði honum að ég færi kominn með nýja konu þá sótti hann tvo listilega smíðaða smákistla, annan bláan handa mér og hinn bleikan sem hann bað mig að færa nýju konunni. Kistlar þessir hafa síðan prýtt náttborð okkar hjónaleysanna og sóma sér vel.

Síðustu árin voru Munda oft erfið, hann var þrotinn kröftum, en alltaf var jafngott að koma í heimsókn til hans og fá smástaup af koníaki eða sherry og spjalla um liðna daga. Hann hafði gaman af að fylgjast með uppátækjum okkar Kjörvogsbræðra og er hann frétti að við hygðumst ganga yfir Ófeigsfjarðarheiði fyrir tveimur árum lét hann okkur hafa fleyg af eðalwhisky sem hann bað okkur bera yfir heiðina og drekka full sína og forfeðra okkar þá heiðin væri gengin. En gangan var í minningu Magnúsar afa frá Kjörvogi. Gekk það allt eftir en það var lýsandi fyrir Munda þegar hann að lokinni göngu hafði samband og sagðist hafa tekið feil á fleyg því hann hefði auðvitað ætlað að láta okkur bera koníaksfleyg en ekki whiskyfleig yfir heiðina. "En þið þurfið nú ekki að ganga heiðina aftur til að fá koníakið, elskurnar mínar," sagði hann með þeirri kímni sem einkenndi hann þegar rétta flaskan var afhent.

Það var ævinlega gott að koma til Munda og Stínu. Heimili þeirra stóð okkur Kjörvogssystkinum ávallt opið og gestrisni þeirra átti sér engin takmörk. Þau voru alltaf hluti af stórfjölskyldunni og tóku þátt í gleði hennar og sorgum.

Þrátt fyrir erfitt brauðstrit gaf Mundi sér tíma til lesturs góðra bóka og aflaði sér þekkingar á ýmsum sviðum. Hann var hafsjór af fróðleik og minnugur vel, draumspakur og oft forspár. Trúaður var hann og hafði öðlast fullvissu um hvað við tæki að jarðlífinu loknu. Hann hafði séð endalok sín fyrir og beið þeirra rólegur og óttalaus enda gekk það allt eftir eins og hann hafði fyrir sagt og fékk hann hægt andlát á heimili sínu sem hafði verið honum svo hamingjuríkt. Eftir stöndum við rík að minningum um ástkæran frænda sem gaf okkur svo margt.

Elsku Stína og börn, guð blessi ykkur og styrki nú og ævinlega.

Daníel Guðjónsson.

Nú er komið að kveðjustund. Það eru að verða nær tuttugu ár síðan ég kom fyrst inn á heimilið þeirra Munda og Stínu á Miklubrautinni. Þar var mér tekið opnum örmum og hjá þeim átti ég mitt annað heimili i mörg ár. Betri tengdaforeldra er ekki hægt að óska sér. Mundi var vel ern og hafði gott minni. Hann hafði gaman af því að segja okkur frá æskuslóðum sínum, Kjörvogi við Reykjafjörð og Árneshreppnum. Þar þekkti Mundi hverja þúfu og nutum við góðs af því þegar við fjölskyldan fórum á þessar slóðir í fyrrasumar. Einnig hafði hann gaman af því að heyra að sonardætur hans hefðu synt í Krossaneslauginni, því hann múraði hana áður en hann fluttist alfarinn til Reykjavíkur.

Mundi var einstaklega góður afi. Hann sýndi barnabörnum sínum mikla hlýju og væntumþykju, var óspar á hrós og alltaf lumaði hann á einhverju til að gleðja þau. Tengdapabbi var alltaf boðinn og búinn að aðstoða alla sem þá þurftu að halda, hvort sem það voru börnin hans eða smælingjar úti í heimi en sjálfur var hann mjög nægjusamur. Mundi var þakklátur fyrir það sem honum hafði hlotnast í lífinu og var sáttur við að fara. Hann kvaddi alltaf með orðunum "Guð veri með þér" sem var svo góð kveðja.

Að lokum vil ég þakka alla hlýjuna, fallegu orðin, hrósið og svo margt, margt fleira. Hvíl þú í friði, elsku Mundi.

Þín

Hrönn.

Okkur langar að þakka afa fyrir það, hvað hann var alltaf góður við okkur.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni.

Sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson.)

Góði guð, láttu afa líða vel hjá þér.

Hanna Kristín og

Arna Margrét.

Við lát Guðmundar Magnússonar vinar míns og frænda koma margar myndir fram í hugann.

Árneshreppur á Ströndum er orðlagður fyrir stórbrotna náttúrufegurð. Eitt af sérkennilegustu fjöllum þar er Kamburinn sem skilur milli Veiðileysufjarðar og Reykjarfjarðar. Hvergi blasir mikilfengleg fegurð hans betur við byggðu bóli en á Kjörvogi þar sem Guðmundur Magnússon fæddist og átti heimili í meira en fjóra áratugi. Hann var sonur heiðurshjónanna Magnúsar Guðmundssonar útvegsbónda á Kjörvogi og Guðrúnar Jónsdóttur konu hans sem bæði voru af Finnbogastaðaætt.

Guðmundur ólst upp í umhverfi "mikilla sanda og mikilla sæva" og fólkið þar var í samræmi við náttúru landsins mikils háttar, þrautseigt og stálheiðarlegt og hugsunarhátturinn allur harla ólíkur þeim sem nú ríkir í þéttbýlinu á öld lífsþægindagræðgi og gróðafíknar. Í samskiptum manna skipaði heiðarleikinn öndvegið. Sem gott dæmi um það sagði Guðmundur mér söguna af Heklunni, 30 lesta fiskiskútu með hjálparvél, sem faðir hans og föðurbróðir, Finnbogi á Finnbogastöðum keyptu og höfðu gert út á þorsk og hákarl frá Kjörvogi í 6 ár þegar hana rak á land í ofsaveðri síðsumars árið 1923. Brotnaði skipið þá mikið og urðu þeir bræður fyrir miklu tjóni því að vátryggingarfé fékkst ekki greitt. En þeir létu ekki deigan síga, heldur ákváðu að gera við skútuna. Var þar ekki lítið færst í fang þar sem engu var hægt að beita nema mannafli og hugvitinu til að taka 30 lesta skip á land. En þetta tókst með snilldarbrag. Þeir öfluðu sér efniviðar og tækja frá Ísafirði, settu skipið upp á kamb og gerðu við það með hjálp ættingja og tveggja smiða frá Ísafirði. Skömmu síðar seldu þeir skútuna, en söluverðið hrökk ekki fyrir þeim kostnaði sem hvíldi á skipinu, þannig að þeir sátu uppi með skuld sem nam um 300 lambsverðum. Til þess að verslunin, smiðirnir og allir kröfuhafar fengju sitt þurftu þeir bræður að veðsetja Kjörvoginn og taka lán í Landsbankanum. Og síðan mátti segja að líf þeirra hafi snúist um það að standa skil á láninu, bæði afborgunum og vöxtum. Þær greiðslur voru ekki látnar mæta afgangi meðal heimilisútgjalda heldur voru þær settar í forgangsröð, því að jarðnæðið og heiður húsbændanna var í veði. Og þegar skuldin var loks greidd að fullu létti þungu fargi af lánþegunum og reyndar heimilisfólkinu öllu sem í hlut átti. Um það gat Guðmundur Magnússon borið, því að hann fór sjálfur með síðustu greiðsluna í Landsbankann. "Og þá gat faðir minn dáið sáttur við alla og með hreinan skjöld því að hann hafði náð takmarki sínu og aldrei brugðist þeim trúnaði sem honum var sýndur." Þannig sagði Guðmundur Magnússon efnislega frá þessu afreki þeirra Kjörvogs- og Finnbogastaðamanna.

Það fer ekki hjá því, að sá sem elst upp í slíku andrúmslofti mótist af hugsunarhættinum og að þess sjái síðar merki í eigin viðhorfum til lífsins. Og það hefur svo sannarlega komið fram hjá Guðmundi Magnússyni. Hann var kvistur af góðum stofni, maður sem mátti treysta og hafði djúpa réttlætiskennd. Hann gat líka slegið á léttari strengi og brugðið fyrir sig gamansemi. Mundi, eins og hann var oft kallaður, var því einstaklega vinsæll maður og aufúsugestur í góðum hópi þar sem hann var jafnan hrókur alls fagnaðar meðan hann var við góða heilsu.

Mundi hleypti seint heimdraganum. Atvikin höguðu því þannig að eldri bróðirinn, Guðjón húsasmíðameistari og bóndi á Kjörvogi, var oft að heiman þar sem hann vann við húsbyggingar á Hólmavík, í Reykjaskóla og víðar. Kom þá lengi í hlut Guðmundar að annast bústörfin þar til börn Guðjóns komust á legg eitt af öðru og urðu vinnufær. En alls átti hann 12 börn með sinni merku konu, Guðmundu Jónsdóttur. Það var tvíbýli á Kjörvogi. Magnús Guðmundsson féll frá árið 1942 en Mundi bjó áfram með móður sinni Guðrúnu Jónsdóttur þar til hún dó tíu árum síðar. Eftir það fór Mundi að heiman og vann mikið við byggingarvinnu og múrverk víða um sveitir og var mjög eftirsóttur því að hann var lagtækur og duglegur maður við smíðastörfin, m.a. vann hann stundum að viðhaldi Heimavistarskólans á Finnbogastöðum og hófust þá okkar kynni sem urðu með tímanum að einlægri vináttu og kallaði hann mig aldrei annað en frænda síðustu árin. Hann dáði Guðmund Þ. Guðmundsson á Finnbogastöðum manna mest og taldi hann hafa verið langt á undan sinni samtíð. Mátti það vel til sanns vegar færa því að hann stofnaði skólann á eigin spýtur árið 1929 og helgaði honum krafta sína alla. En nokkrum árum áður hafði hann haft verkstjórn á hendi þegar ráðist var í það stórvirki að gera við Hekluna eins og frægt varð og áður er lýst.

Mundi á Kjörvogi var einhleypur allt fram á fimmtugsaldur. Þá bar svo til árið 1959 þegar hann var orðinn 45 ára að hann fór til spákonu sem sagði honum að brátt yrði breyting á högum hans. Hún sæi konu nálgast hann og leiða til hans tvö börn. Mundi tók þessu mjög fjarri og bað guð að hjálpa spákonunni úr því að henni datt í hug að segja svona vitleysu. En þá segir spákonan: "Ef þú ert ekki þegar búinn að sjá þessa konu þá verður það á næstu tveim eða þrem vikum." Mundi tók þetta sem hvert annað rugl en fannst þó til um, hvað völvan var ákveðin. Fáum dögum seinna biður Guðjón smiður bróður sinn að koma og hjálpa sér við smíðar í Reykjaskóla. Mundi varð við þeim tilmælum og þá sá hann stúlku sem honum leist strax vel á og skynjaði um leið að þetta var konuefnið sem Almættið hafði ætlað honum. Stúlkan var matráðskona hjá smiðunum á Reykjaskóla, Kristín Guðmundsdóttir að nafni, ættuð úr Dýrafirði. Hún var ekkja með tvö ung börn. Er ekki að orðlengja það að með henni og Munda tókust góð kynni sem leiddu til sambúðar og heimilisstofnunar á Skúlagötu í Reykjavík. Síðar keyptu þau sér íbúð að Miklubraut 16 þar sem varð þeirra framtíðarheimili, en ekki vildu þau gifta sig fyrr en ljóst væri orðið að samband þeirra var byggt á öruggum grunni ástar og umhyggju. Það kom reyndar því betur fram sem tímar liðu og árið 1963 létu þau séra Þorstein Björnsson fyrrum prest í Árnesi innsigla sambúð þeirra með hjónavígslu. Og hjónaband þeirra varð farsælt. Betri lífsförunaut en Stínu gat Mundi ekki hugsað sér enda þakkaði hann Almættinu hátt og í hljóði fyrir að hafa leitt þau saman.

Þau eignuðust tvo syni og ólu upp tvö börn Kristínar frá fyrra hjónabandi sem Munda þótti ekki síður vænt um en eigin börn. Og þótt fjölskyldan væri orðin stór tóku þau til sín gamla konu, Guðfríði Kristjánsdóttur, og önnuðust hana fram í háa elli. en hún hafði lengi þjónað húsbændunum á Kjörvogi með mikilli trúmennsku. Þannig voru um skeið 7 manns í heimili þeirra og þurfti því mikils við að framfleyta þessari stóru fjölskyldu. Húsbóndinn, Guðmundur Magnússon, dró heldur ekki af sér við vinnuna. Hann hóf fljótlega störf við Ofnasmiðjuna hjá Sveinbirni Jónssyni framkvæmdastjóra og fékk að vinna þar meðan honum entist þrek og heilsa. En eftir að hann hætti störfum þar, sat hann löngum niðri í vinnuherbergi sínu og smíðaði ýmsa vandaða smáhluti eins og kistla eða skartgripaskrín sem hann gaf flesta ættingjum og vinum af rausn sinni.

Við heimsóttum hvor annan öðru hverju, enda fjarlægðin milli heimila okkar aðeins góð heilsubótarganga eða um einn km. Spjölluðum við þá saman um gamla daga og landsins gagn og nauðsynjar yfir kaffibolla hjá Stínu eða einu sherrystaupi. Á þeim stundum varð honum tíðrætt um forlagatrú og hvernig lífi okkar er stjórnað meira en okkur grunar af æðri máttarvöldum og vitnaði þá til hjúskaparsögu sinnar, sem kom reyndar alveg heim við mína trú og reynslu. Hann talaði oft um Kjörvog og sveitina sína, en hann var ófús að fara þangað og hafði sínar ástæður fyrir því. Hann vildi geyma mynd sveitarinnar óbreytta í huga sér eins og hún var áður en tækniöldin og vélvæðingin komu til sögunnar og breyttu ásýnd hennar. Síðustu misserin strjáluðust ferðir Munda til mín. Heilsan hafði bilað og þrekið var á þrotum. Hann skynjaði að endalokin voru ekki langt undan en kveið ekki vistaskiptunum. Ef veður leyfði reyndi hann að fara út undir bert loft og ganga stuttan spöl. Alls ekki vildi hann fara á hæli eða stofnun fyrir aldraða. Heima þráði hann að vera í lengstu lög. Og honum varð að þeirri ósk að fá að deyja á heimili sínu. Hann var þá hættur að fara út en klæddist þó dag hvern með hjálp sinnar einstaklega tryggu og umhyggjusömu eiginkonu. - Og síðasta handarvikið sem hann vann í lífinu var að læsa útidyrunum og gera krossmark fyrir þeim eins og hann hafði jafnan gert áður að gömlum og góðum íslenskum sið. Síðan fetaði hann sig upp stigann, háttaði og lagðist fyrir. Eiginkonan breiddi sængina yfir hann og hlúði vel að honum. Það hafði kólnað þessa daga. Kjörvogsmúlinn var hulinn hvítri snjóbreiðu og Reykjarfjarðarkamburinn hafði breytt um svip. En tindar hans teygðu sig þó jafnhátt og áður - til himins.

Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast Guðmundi Magnússyni og og njóta velvildar þeirra hjóna. Ekkjunni, Kristínu Guðmundsdóttur og öðrum aðstandendum votta ég einlæga samúð mína og konu minnar.

Torfi Guðbrandsson.