Erna Kristinsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 22. mars 1935. Hún andaðist á Vífilsstaðaspítala 2. desember síðastliðinn. Erna var dóttir Kristins Friðrikssonar útgerðarmanns og verslunarmanns og konu hans Önnu Einarsdóttur sem bæði voru fædd og uppalin í Vestmannaeyjum. Erna var elst þriggja systkina, en hin eru Einar Friðrik, stórkaupmaður, og Sigríður, hjúkrunarfræðingur.

Erna giftist Guðlaugi Helgasyni 19. maí 1956 og eiga þau tvö börn, Kristin byggingarverktaka, f. 23.3. 1954, á hann fjögur börn, og Önnu, hjúkrunarfræðing, f. 2.12. 1958, gift Hannesi Leifssyni lögreglumanni, og eiga þau þrjú börn.

Erna starfaði sem ung stúlka við verslunarstörf um margra ára bil og síðar sem sjúkraliði á ýmsum deildum Landspítalans.

Útför Ernu fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Hver lítil stjarna sem lýsir og hrapar,

er ljóð sem himinninn sjálfur skapar.

Hvert lítið blóm sem ljósinu safnar,

er ljóð um kjarnann sem vex og dafnar.

Hvert lítið orð sem lífinu fagnar,

er ljóð við sönginn sem aldrei þagnar.

(Davíð Stef.)

Hvíldu í friði.

Þinn tengdasonur

Hannes Leifsson.

Það eru margir áratugir liðnir - samt svo stutt í endurminningunni - er við hjónin vorum sótt heim af bróður mínum og systur og mökum þeirra. Yfir erfiðan fjallveg þurfti að fara, Siglufjarðarskarð, sem oft var ófært langt fram á vor. Ferming elsta barns okkar var framundan á hvítasunnudag. Tilhlökkunin var mikil að fá þessa vini úr fjölskyldu okkar á þessum hátíðisdegi og heimsóknir þeirra endurtóku sig á ýmsum tímum þau ár sem við áttum heima á Siglufirði.

Ég hefi oft hugsað um það hve gott það er að vita ekki allt of mikið um framtíðina. Þarna voru tvær óvenju glæsilegar konur, sem lífið gaf vissulega yndislegan tíma, gleði og hamingju, en einnig allt of langan tíma heilsuleysis og vonbrigða.

Erna mágkona mín var óvenju vel gerð. Hún tókst á við hörmuleg veikindi í rúmlega áratug, lífsvilji, bjartsýni og sálarþrek voru hennar aðalsmerki, hún veitti styrk þeim sem áttu í erfiðleikum. Líf hennar var vissulega lærdómsríkt.

Er ég lít til baka, eftir langt hjúkrunarstarf, ber Erna geislabaug óvenjulegs sálarþroska, hún var hetja sem í svo langan tíma þurfti að berjast við erfiðan sjúkdóm, svo mikið niðurbrot á líkama sínum, en samt gaf hún okkur hinum svo mikið af sér að þroski var af. Erna stóð ekki ein, Guðlaugur eiginmaður hennar, börn og fjölskyldan öll stóðu við hlið hennar og veittu henni umhyggju og kærleika til hinstu stundar.

Senn líður að jólum. Skammdegismyrkrið víkur fyrir birtu þeirrar miklu hátíðar. Erna mín, nú ert þú komin yfir erfiða fjallveginn inn í ljóma hinnar helgu birtu, sem mun umlykja þig og blessa. Við þökkum þér þann lærdóm sem við höfum hlotið af lífi þínu. Ég kveð þig með orðum sr. Matthíasar:

Far vel, far vel, vort lán er lauf í vindi

og lífsins trú vor eina raunabót.

Far heil og sæl, því elska, dyggð og yndi

á eilíft líf, þótt skipta sýnist rót.

Herdís Helgadóttir.

Erna mágkona mín er látin eftir löng og erfið veikindi. Ekki átti ég von á því er ég dvaldi hjá henni á Vífilsstaðaspítala á miðvikudegi að hún ætti bara nokkrar klukkustundir eftir ólifaðar. Hún var svo hress í tali og ræddi við mig um væntanlega ferð með Guðlaugi sínum til Kanaríeyja um jólin. Morguninn eftir var hún látin.

Ég kynntist Ernu fyrir 40 árum er ég fór að vera með bróður hennar. Strax urðum við góðar vinkonur og hefur sú vinátta haldist alla tíð síðan. Þegar ég lít til baka eru minningarnar svo margar að ekki er hægt að setja þær allar á blað. Ég minnist ferða okkar með þeim hjónum um Ísland og einnig erlendis. Erna og Guðlaugur fóru með okkur hjónunum í okkar fyrstu skíðaferð til Austurríkis og varð sú ferð til að við fengum skíðabakteríuna. Flestar minningar á ég um Ernu í sumarhúsinu við Álftavatn sem við áttum saman ásamt tengdaforeldrum mínum.

Sumarhúsið byggðum við saman fyrir 35 árum. Eftir fráfall tengdaforeldra minna áttum við bústaðinn með Ernu og Guðlaugi. Allar minningar þaðan um Ernu eru yndislegar. Aldrei bar skugga á sambúð okkar þar og stofukaffið, sexarinn, matseldin sameiginlega og gönguferðirnar upp að hliði voru ein allsherjar skemmtun.

Fyrir um þremur árum var Erna orðin það veik að hún gat ekki notið sumarhússins með okkur og þótti mér það mjög leiðinlegt og saknaði hennar.

Erna hefur átt við veikindi að stríða í mörg ár. Ég hef dáðst að dugnaði hennar, baráttuvilja og góða skapinu gegnum öll þessi ár. Það eru margar ferðirnar sem ég hef farið niðurdregin til hennar en jafnan komið glaðari frá henni. Hún hafði einstaklega gott skap og sá alltaf björtu hliðarnar á lífinu þrátt fyrir veikindin.

Ég vil þakka Ernu mágkonu minni fyrir allar yndislegu samverustundirnar og kveð hana með söknuði.

Ég sendi Guðlaugi, Önnu, Kristni og fjölskyldum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur og bið góðan Guð að styrkja þau í sorginni.

Ólöf mágkona.

Elskuleg Erna frænka mín er látin. Minningar um hana hrannast upp á þessum tímamótum. Erna var alveg einstök manneskja og einstaklega sterkur persónuleiki. Ég veit eigi upphaf né endi alls þess sem mig langar til að segja um hana Ernu okkar, en hér á eftir fer tilvitnun sem segir æði margt um hvað Erna hafði til að bera: "Það er styrkur sálarinnar, sem veitir líkamanum kraftinn, og sálin getur hvergi fundið sér styrk nema í Guði." (Ed. Laboulaye)

Erna kenndi mér svo margt um lífið og tilveruna og stappaði ávallt í mig stálinu og gaf mér aukinn kraft til að takast á við mín veikindi. Hún talaði ávallt um að við myndum sigrast á okkar sjúkdómum. Það er með ólíkindum hvað líkamar okkar þola miklar og strangar meðferðir. Lyf hafa óneitanlega oft á tíðum því miður aukaverkanir og það höfum við frænkurnar reynt. Erna hafði ávallt lausnir á vandamálunum og lagði sig fram við að rækta sálina með sjálfri sér og með aðstoð annarra. Það er oft sagt að fólk þurfi að ganga í gegnum raunir til að kunna að meta lífið og gæði þess. Lífssýn okkar breytist. Okkur ber að huga að líkama og sál og rækta fjölskyldu okkar og ástvini. Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum og svo eru það óneitanlega ástvinir sem stykja mann og styðja þegar eitthvað bjátar á. Erna hefur á undanförnum árum dvalið langtímum saman á lungnadeildinni á Vífilsstöðum. Þar fékk hún frábæra umönnun lækna og hjúkrunarfólks og hrósaði hún þeim gjarnan. Mig langar að þakka öllum þeim sem hlúð hafa að Ernu okkar fyrir ómetanlegan stuðning við hana og hennar nánustu.

Erna var frændrækin og góður vinur og það var ávallt gott og notalegt að koma til hennar og Gía á fallegt og hlýlegt heimili þeirra.

Samhugur Ernu gagnvart öðrum sem veikir voru í kringum hana og styrkurinn sem hún veitti þeim setti mikinn svip á hennar sterku persónu. Hún gafst aldrei upp og reis ávallt upp úr hinum erfiðustu raunum. Hugurinn bar hana áfram og lífskrafturinn sem hún hafði var óbilandi. Bjartsýn og jákvæð horfði hún fram á veginn. Hún fann sér ávallt eitthvert tilefni til að hlakka til og minnist ég þess er ég og Sveinn maðurinn minn gengum í hjónaband sumarið 1998. Erna vildi fá að fylgjast með öllu er því viðkom og hafði sínar skoðanir á hlutunum eins og henni einni var lagið og kom með ýmsar uppástungur.

Það gladdi okkur mikið að Erna skyldi geta verið viðstödd brúðkaup okkar og eigum við einstaklega góðar minningar frá þeim tíma.

Líkami Ernu var orðinn veill en hugurinn og oft á tíðum létt kímnigáfa leiddu hana áfram. Lífsvilji Ernu, þróttur hennar og þrautseigja ásamt jákvæðu hugarfari og léttri lund voru áberandi í fari hennar og miklir mannkostir í hennar lífi sem og í baráttunni við sjúkdóminn. En það veit sá sem reynt hefur að tryggir ástvinir eru ómetanlegir.

Elsku Gíi, þú hefur verið Ernu dygg stoð og ómetanlegur styrkur í gegnum tíðina. Þið voruð yndisleg saman og minnist ég góðra og skemmtilegra stunda með ykkur fyrr á árunum inni í Eikjuvogi, uppi í sumarbústað og nú á undanförnum árum í Þjóttuselinu sem og í Fitjasmáranum. Erna háði hetjulega baráttu við sjúkdóminn sem að lokum lagði hana að velli.

Elsku Gíi, Anna, Hannes, Kristinn, mamma, Einar, Lóla og fjölskyldur, ég votta ykkur mína dýpstu samúð og bið Guð að vera með ykkur og styrkja ykkur í sorginni.

Elsku Erna, ég trúi því að þú sért læknuð þar sem þú ert í dag. Megi góður Guð vera með þér og þínum og vaka yfir okkur öllum.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Kveðja,

Hildur Björk Hilmarsdóttir.

Elsku Erna frænka mín. Nú er baráttu þinni við erfiðan sjúkdóm lokið. Mikið hefur verið á þig lagt í langan tíma. En öllu þessu hefur þú tekið með sérstöku æðruleysi. Þú hafðir til að bera þessa einstöku skapgerð og sást alltaf björtu hliðarnar.

Margar góðar minningar koma upp í hugann. Þú varst skírð á fermingardaginn minn í Vestmannaeyjum. Þá var gleðistund hjá okkur öllum.

Þá minnist ég sérstaklega þegar ég kom á hlýlega og fallega heimilið ykkar Guðlaugs. Þar var alltaf þessa birtu að finna, sem stafaði frá þér.

En hvort sem var á gleðistundum eða erfiðari stundum stóð þinn góði eiginmaður þér við hlið.

Fjölskyldan hefur misst mikið. Nú á sorgarstund sendi ég ykkur öllum samúðarkveðjur.

Sesselja Einarsdóttir.

Kær frænka og vinkona er látin. Löngu veikindastríði er lokið. Lát hennar kom í rauninni ekki á óvart, því veikindin höfðu staðið í mörg ár og oft verið henni erfið.

Erna sýndi fádæma þrek og kjark í veikindum sínum. Lífslöngunin var sterk, aldrei lét hún bilbug á sér finna og von um bata slokknaði aldrei. Hennar góða lund og jákvæða viðhorf átti sinn þátt í því. Eiginmaður Ernu, Guðlaugur, var henni mikil stoð og aðdáunarverð var sú umönnun, sem hann veitti henni. Og Anna dóttir hennar, sem er hjúkrunarfræðingur, var alltaf til taks þegar á þurfti að halda.

Á þessari stundu hvarflar hugurinn til baka. Margar góðar minningar á ég um Ernu allt frá því ég man fyrst eftir mér. Bernska okkar var samofin. Mæður okkar voru systur. Við vorum jafnöldrur. Báðar fæddar í Vestmannaeyjum. þar sem við ólumst upp til níu ára aldurs, fluttum sama árið til Reykjavíkur.

Á þeim árum var mikill samgangur milli fjölskyldna okkar. Ég minnist sérstaklega jólanna. Foreldrar Ernu, Anna og Kristinn, nú bæði látin, tóku mikinn þátt í gleðinni og Kristinn, sem var mikill söngmaður, stjórnaði af lífi og sál.

Erna var afar glæsileg kona svo eftir var tekið, en sorglegt var að fylgjast með því hvernig veikindin settu smám saman æ meiri mörk á hana.

Erna var sjúkraliði, starfaði við það í nokkur ár en helgaði fjölskyldu og heimili lengst af krafta sína. Hún var mikil smekkmanneskja og bar heimili hennar þess sannarlega gott vitni. Tvö börn eignaðist hún, Kristin og Önnu. Barnabörnin, sem eru orðin sjö, lét hún sér mjög annt um. Erna og Guðlaugur ferðuðust mikið saman meðan heilsa hennar leyfði og voru skíðaferðir lengi árlegur viðburður.

Frá því við vorum liðlega tvítugar höfum við nokkrar vinkonur haldið saman, fyrst hittumst við nokkuð reglulega en hin síðari ár hefur það orðið stopulla, ekki síst vegna veikinda Ernu. Oft var glatt á hjalla, mikið talað og mikið hlegið. Erna er sú fyrsta sem hverfur úr hópnum, hennar verður sárt saknað.

Að leiðarlokum kveð ég vinkonu mína og frænku og sendum við Haraldur fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Ernu Kristinsdóttur.

Sigríður (Sísí) Guðjónsdóttir.