Sigurbjörg Einarsdóttir fæddist á Lindargötu í Reykjavík 24. júní 1919. Foreldrar hennar voru hjónin Þórstína Björg Gunnarsdóttir frá Fögruhlíð á Djúpavogi, f. 15.8. 1882, d. 13.1 1950 og Einar Ólafsson, matsveinn og verkamaður, f. 8. 1. 1884, d. 28.9 1955. Þórstína og Einar bjuggu í Reykjavík en fluttu árið 1929 í Borgarfjörð, fyrst að Beigalda og síðan í Borgarnes. Systkini Sigurbjargar voru: Lára Jónsdóttir, f. 1904, gift Sigurði Grímssyni; Ásgeir, f. 1906 kvæntur Láru Sigurbjörnsdóttur; Ásgerður, gift Ara Jóhannessyni; Gunnar, f. 1909, kvæntur Pálu Kristjánsdóttur, Loftur, f. 1916, kvæntur Ásthildi Guðlaugsdóttur og Þorsteinn, f. 1922, kvæntur Katrínu Hendriksdóttur. Á lífi eru Lára, Ásthildur og Katrín.

Hinn 29. mars 1947 gekk Sigurbjörg að eiga Þorstein Oddsson, f.

25.11. 1919 að Hamraendum í Stafholtstungum, d. 27.7. 1994, prentmyndasmið og síðar verktaka. Börn Sigurbjargar og Þorsteins eru: 1) Ásdís, umsjónarmaður, f. 22.5. 1948, var gift Hilmari H. Jónssyni, þau skildu. Börn þeirra eru Eydís Björg, f. 1968, maki: Jón Sigurðsson, Hilmar Þorsteinn, f . 1971 og Tryggvi Þór, f. 1981 2) Einar Þorsteinn, framkvæmdastjóri, f. 3.10. 1949, var kvæntur Björgu Sigurðardóttur, þau skildu. Börn þeirra eru: Sigrún, f. 1969, maki: Joe Ortiz, Þorsteinn, f. 1975 og Sigurður, f. 1976. 3) Gunnar, forstöðumaður, f. 28.3. 1951, kvæntur Ingibjörgu Guðnadóttur. Börn þeirra eru; Guðni, f. 1972, maki: Tina Kilmister, Sigurbjörg, f. 1974, maki: Aðalsteinn Scheving, Jóhanna, f. 1976 og Gunnar Ingi, f. 1989. Gunnar og Ingibjörg eiga þrjú barnabörn. 4) Þórstína Björg, kaupmaður, f. 8.9. 1956, var gift Salmani Tamimi, þau skildu. Börn þeirra eru; María Björg, f. 1974, maki: Hallur Ingólfsson, og Nadia Björg, f. 1979, maki: Júlíus Eggertsson. Þórstína á þrjú barnabörn. Sambýlismaður Þórstínu er Rúnar Pálsson.

Sigurbjörg gekk í Barnaskóla Borgarness. Hún var í Héraðsskólanum í Reykholti í Borgarfirði og þar kynntist hún manni sínum, Þorsteini Oddssyni. Hún var húsmóðir lengst af og vann ýmis störf eftir að börnin voru komin á legg.

Hún var fjölskyldukona af lífi og sál. Sigurbjörg bjó í Teigagerði 3 lengst af en flutti í Espigerði 4 eftir að hún varð ekkja.

Útför Sigurbjargar verður gerð frá Bústaðakirkju í dag, föstudag, og hefst athöfnin klukkan 15.

Það eru nú meira en 28 ár síðan ég hitti tengdamóður mína.

Eins og gengur og gerist var ég stressuð yfir þeim fundum. Ég var eitthvað hikandi en þá hótaði minn heittelskaði mér að hann ætlaði að halda á mér upp tröppurnar. Þá lét ég eftir og fór á tveimur jafnfljótum þar upp. Það var eins og maðurinn minn hafði sagt "hún er svo hress og fín", sem reyndust vera orð að sönnu. Hún var hrein og bein, dugleg og fús til að þjóna öðrum. Leti var eitt af því sem hún kannaðist ekki við. Hún var ekki ánægð nema að stjana við aðra. Hún bjó yfir svo mörgum hæfileikum, svo sem saumaskap - hún var hreinn snillingur á því sviði enda voru ófáar flíkurnar sem hún saumaði - lagaði fyrir okkur öll, börnin, tengdabörn, barnabörnin og svo barnabarnabörnin. Hún var afbragðs kokkur og hafði þann eiginleika að þykja vænt um alla - þá á ég við að henni var alveg sama hvort þeir voru háttsettir í þjóðfélaginu eða þeir lægstsettu. Hún var til svo mikillar fyrirmyndar fyrir mig og aðra hvað varðar að vera trúföst í því að heimsækja á spítala þá sem sjúkir voru. Hún hafði áhyggjur af þeim sem voru sjúkir og einmana og talaði oft um fólk sem við þekktum ekki og hafði áhyggjur af þeim. Sund og ganga voru hennar yndi sem og ferðalög. Hún elskaði það að ferðast og sjá helst landið sitt. Hún var sú sem hélt fjölskyldunni saman og var hreint í essinu sínu þegar allir voru í mat og hún gat stjanað við okkur. Þetta var kona sem hafði gengið í gegnum margt og átti því eitthvað að gefa öðrum. Hún átti Jesú sem frelsara sinn og hafði hreint ótrúlega greiningu á því sem var rétt og rangt. Hún lenti tvisvar í alvarlegum bílslysum, stóð sig hreint ótrúlega þegar tengdapabbi veiktist af krabbameini - fékk síðan hjartaáfall sjálf - og svo margt annað sem óþarfi er upp að telja. Hún var hrein og klár hetja og dáðist ég oft að henni. Ég þakka Guði fyrir að hafa eignast slíka tengdamóður sem hefur reynst mér vel. Það voru miklir kærleikar okkar í millum og bið ég Drottin að blessa minningu hennar. Ég veit að hún var tilbúin að fara - hún átti Drottin Jesúm sem frelsara sinn.

Fáguð blóði Frelsarans

fjarri neyð og trega

Sértu friðarfaðmi hans

falinn eilíflega.

(Loftur Hákonarson.)

Ingibjörg Guðnadóttir.

Ég læt engan taka frá mér minninguna um hana ömmu mína. Hún var stórkostleg kona full af orku.

Ég reyni eins og ég get að finna einhver orð.

Þetta hafa verið erfiðir dagar síðan ég frétti að hún amma mín hefði látið lífið á sviplegan hátt. Það virðist ekki skipta máli hversu margra spurninga maður spyr sjálfan sig, maður fær engin svör.

Allir sem þekktu ömmu mína vita að þar var á ferð einstök kona, hún var alltaf til í að rétta fram hjálparhönd, blíð og góð var hún við allt það fólk sem varð á vegi hennar. Hún var algjör hetja, gafst aldrei upp, hún var amma mín.

Ég veit ekki hvernig lífið verður án hennar, þó að allt annað breyttist, var amma alltaf til staðar, fastur punktur. Ég hélt að hún mundi alltaf vera til.

Það er svo erfitt að skrifa þessar línur, það er svo margt sem ég vil koma fram, ég finn engin orð...

Himmi.

Það er sárara en tárum taki að kveðja þig á þennan hátt.

Ég vildi óska að aðstæður væru aðrar og að við stæðum ekki frammi fyrir þessum erfiðu og sorglegu staðreyndum um sviplegt andlát þitt.

Ég ætla mér að hugsa um allar þær góðu stundir sem við áttum saman og umvefja þær og þína minningu, því fær enginn breytt.

Þú varst einstök. Þú varst einstök fyrir mig því á milli okkar voru bönd sem voru ofin úr þeirri skilyrðislausu og gagnrýnislausu ást sem þú barst til mín. Þessa ást fann ég sem barn, ég fann hana sem unglingur og ég finn hana þegar komið er að kveðjustundinni. Þessi kveðjustund er óvægin og er í hróplegu ósamræmi við það líf sem þú lifðir. Líf sem snerist um fjölskylduna frekar en sjálfa þig þannig að flestar væntingar voru miðaðar við okkur en ekki þig. Á þessari kveðjustund er ég skilin eftir með margar spurningar sem ég fæ aldrei svarað. Þær spurningar sem fjalla um þig og okkar samband eru hinsvegar auðveldari og svörin við þeim munu verða kjarninn í þeirri minningu sem ég mun geyma um þig og aldrei munu verða teknar frá mér.

Eydís.

Okkur langar að minnast ömmu okkar sem var ótrúleg manneskja, kærleiksrík, góðhjörtuð og vinur allra. Hún amma okkar hafði einstakan persónuleika og var ávallt reiðubúin til að hjálpa til, þar sem hennar var þörf. Hún hugsaði fyrst og fremst um aðra og alltaf var maður velkominn í heimsókn þar sem maður fékk knús og gott að borða.

Ömmu skorti sko ekki húmorinn og eru þær ófáar stundirnar sem við höfum hlegið saman. Amma var gjafmild og hefur hún í lífi sínu gefið okkur góðar minningar og samverustundir.

Elsku amma, við söknum þín sárt, minninguna um þig munum við alltaf hafa.

Þorsteinn, Sigurður

og Tryggvi.

Elsku amma,

Þú varst mér ástrík, einlæg, sönn,

mitt athvarf lífs á brautum,

þinn kærleik snart ein tímans tönn

hann traust mitt var í hvíld og önn

í sæld, í sorg og þrautum.

Ég veit þú heim' ert horfin nú

og hafin þrautir yfir

svo mæt og góð, svo trygg og trú

og tállaus, falslaus reyndist þú.

Ég veit þú látin lifir.

( Steinn Sig.)

Á stundu sem þessari er manni orða vant. Föstudagurinn 3. desember leið sem oft áður en það var síðla kvölds að mamma hringdi og tjáði mér að hún hefði mjög slæmar fréttir að færa og bað hún mig að koma yfir í heimsókn eins fljótt og ég gæti. Ýmislegt kom í hug minn á leið til mömmu og pabba en ekkert gat búið mig undir þau hræðilegu tíðindi er ég fékk við komuna. Þú, elsku besta amma mín, hafðir látið lífið á voðalegan hátt fyrr um daginn.

Nei, það gat bara ekki verið. Kvölin nísti hjarta mitt svo ógurlega að um tíma vissi ég hvorki í þennan heim né annan. Hvernig má það vera að svona hræðilegt skyldi henda þig. Þú, þessi yndislega manneskja, sem vildir öllum svo vel.

Þegar ég lít um öxl og hugsa til liðinna ára varst þú alltaf þessi fasti punktur í minni tilveru. Á hamingjuríkustu dögum lífs míns varst þú þar og samgladdist. Í erfiðleikum varst þú þar með þína styrku hendi. Þú varst aldrei eins ánægð og þegar þú varst að stjana við okkur barnabörnin hvort sem það var að sauma á okkur föt eða elda dýrindis mat. Þú varst sjálfri þér samkvæm og áttir lifandi trú á frelsarann Jesú Krist. Hjá þér hef ég fengið besta skyr og brauð með kæfu sem ég hef nokkru sinni smakkað í lífi mínu en það sem meira er, í þér átti ég yndislegan og tryggan vin sem ég mat svo mikils. Ég veit þó að þetta getur með takmörkuðu móti lýst þér og þeirri yndislegu persónu sem þú varst. Ég elskaði þig afar heitt. Ég veit þó að þú ert nú hjá Jesú og hann hugsar vel um þig.

Ég mun alltaf sakna þín og elska. Þú varst mér svo óendanlega mikið, svo mikið að orð geta ekki tjáð.

Þín ávallt,

Sigurbjörg (Sibba).

Ég var að koma heim seint um kvöld eftir langan vinnudag þegar síminn hringdi, pabbi var í símanum. Hann tjáði mér með hvíslandi, brotinni rödd að hann hefði slæmar fréttir að færa. Ekkert í heiminum hefði getað undirbúið mig undir þau tíðindi sem bárust mér til eyrna. Hann tjáði mér að amma mín hefði verið myrt á hroðalegan hátt. Það var eins og eitthvað hefði dáið inni í mér. Amma var ákveðinn stöðugleiki í lífi mínu. Að hún skyldi þurfa að fara svona skilur maður ekki. Mann skortir svo oft orð til þess að segja frá því sem í hjartanu býr, en amma mín var mér mjög dýrmæt. Það eru margar góðar minningar sem fylla hug minn, svo sem þegar amma var með skiptimarkaðinn, ef svo má segja, þegar eldri frændi minn óx upp úr fötum sínum, sá hún til þess að ég fengi að njóta góðs af. Ekkert hafði hún meira gaman af en að bjóða barnabörnum sínum í mat og dúlla við þau. Ég mun aldrei eiga næg orð til að útskýra hversu dýrmæt þessi yndislega kona var. Ég er þakklátur fyrir ömmu mína, allt sem hún var og mun verða í huga mínum, og konu minnar. Það var svo gaman að fylgjast með henni þegar hún var að dúllast við litla drenginn okkar sem fæddist 1. júlí. Það fór ekki á milli mála að hún elskaði hann, eins og okkur öll hin. Það sem róar huga okkar á þessum erfiðu tímum er að við vitum að hún er hjá Jesú.

Guðni Gunnarsson, Tína

og Daníel Gunnar.

Elsku amma mín.

Það var seint um kvöld föstudaginn 3. desember s.l. þegar pabbi hringdi í mig og bað mig um að koma til þeirra sem allra fyrst, þau þurftu að tala við mig. Ég gat ekki hugsað mér þær hörmulegu fréttir sem þau sögðu mér, að þú værir frarin frá okkur og á þennan hræðilega hátt. Þetta gerðist svo snöggt og mér gafst enginn tími til að kveðja þig og segja þér hvað ég elska þig mikið. Það er svo mikill tómleiki í hjarta mér og svo mikill söknuður. Þú varst mér svo mikið allan þann tíma sem þú varst hér, þú gafst mér svo mikla hlýju og stuðning. Ég mun ævinlega vera þér þakklát fyrir það. Þú varst amma mín og enginn getur tekið það frá mér. Þótt þú sért farin til Jesú á betri stað þá mun minning þín alltaf lifa í hjarta mér. Ég mun elska þig alltaf.

Þín,

Jóhanna.

Okkur langar til að segja nokkur orð til að kveðja góðan vin og ættingja. Við vorum svo gæfusöm að amma Sibba bjó hér rétt hjá okkur, og leit oft við hjá okkur þegar hún átti sína daglegu leið hjá. Hún var okkur hjónunum og barnabörnum sínum mikil hjálparhella og góður félagi og skilur eftir hjá okkur ógrynni af góðum og björtum minningum.

Svo góðar og bjartar að þær skína skærar en það myrkur sem endalok hennar voru. Hún var hluti af okkar daglega lífi og án efa sú manneskja sem oftast hefur heimsótt okkur hingað. Svo hraust var hún og hress, að hún átti það til að gæta barnanna okkar og alltaf gleymdi maður því hve gömul hún í raun var orðin, enda bar hún þess ekki merki hlaupandi eftir hitaveitustokkunum hér fyrir utan og veifandi okkur í gegnum gluggann á leið sinni út í Hæðargarð að taka þátt í starfsemi aldraðra þar sem hún lét sig sjaldan vanta. Oft tók hún börnin okkar með sér og kom þeim á leikskólann sem var þarna í næsta húsi. Allir gátu átt afdrep hjá Ömmu Sibbu enda hélt hún myndarheimili allt til dauðadags, og gætti þess jafnan að eiga til það sem hún vissi að öðrum fannst gott, og við söknum þess að geta ekki skotist til hennar, sest niður í rólegheitunum og látið dekra við okkur. Ósjaldan bauð hún okkur í mat og töfraði fram sinn yndislega ömmumat og lagði metnað sinn í að öllum liði sem best hjá sér. Hún var miðpunktur samskipta í fjölskyldunni og var ávallt með nýjustu fréttir af ættingjunum og fannst miður að fjölskyldan skildi ekki hittast oftar enda naut hún sín til fulls í öllum veislum þar sem fjölskyldan kom saman, nú síðast í brúðkaupinu okkar. Þar lét hún ekki sitt eftir liggja og lagði til sínar velþekktu skonsur á veisluborðið.

María er nú líklega sú manneskja sem var í hvað nánustu samskiptum við ömmu sína og fór oft til hennar á kvöldin og fór í heitt bað og slakaði á og ræddi dagleg mál við ömmu sína. En nú er sá tími á enda og kallið komið. Amma Sibba, þú ert farin frá okkur og skilur eftir þig stórt skarð, og það er áreiðanlegt að jólin verða ekki þau sömu án þín. Við huggum okkur þó við það að við vitum að þú ert á góðum stað hjá afa Steina, og yljum okkur við þær mörgu góðu minningar sem þú hefur skilið eftir hjá okkur. Hér á heimili okkar er svo margt sem minnir okkur á þig og þær minningar eru allar góðar. Amma Sibba, þú hafðir hjarta úr gulli, og áttir engan þinn líka. Okkur finnst mjög sárt að kveðja þig, en við gerum það full þakklætis fyrir það sem þú skilur eftir hjá okkur, og biðjum góðan guð að taka vel á móti þér og vernda þig.

Sæluminningarnar munu með tímanum sigra þann sársauka sem við glímum við núna. Hvíl þú í friði.

María, Hallur og börnin.

Elsku amma mín.

Þú fórst skyndilega, ég hef alltaf hugsað um þig sem fastan punkt í fjölskyldunni. Það var alltaf gott að koma til þín. Þú elskaðir að hafa okkur í kringum þig og þér leið best þegar öll fjölskyldan var saman komin hjá þér og þú gast stjanað við okkur. Mínar bestu minningar eru frá Teigagerði. Það voru engin jól nema hjá ykkur afa. Ég, María og mamma vorum alltaf hjá ykkur á aðfangadag og eftir að búið var að senda pakkana, kom öll fjölskyldan saman og þá skein ánægjan af þér. Ég man hvað ég hafði gaman af því að slá fallega garðinn í Teigagerðinu. oft voru ég, María, Seini, Siggi og Tryggvi að dunda okkur í garðinum heilan dag en tókum okkur margar pásur til að borða skonsurnar þínar sem voru bestar í heimi. Þú varst svona ekta amma, alltaf hlý, traust og góð heim að sækja. Alltaf var eitthvað á boðstólum, skonsur, skyr eða hvað sem er, maður fór sko ekki svangur út frá ömmu. Ég á svo margar góðar minningar um þig, þú varst alltaf svo glöð og hress og faðmaðir alla og kysstir og það var svo gott að knúsa þig, amma bangsi, eins og ég sagði oft við þig og kleip í kinnina á þér. Það er ótrúlegt að þú hafi verið orðin áttræð, þú varst svo hraust og meðvituð og áhugasöm um nánasta umhverfi, fórst alltaf í sund og leikfimi og tókst virkan þátt í félagsstarfi í Hæðargarði og naust þín innan um fólk. Það líkaði öllum við þig.

Elsku amma mín, ég mun sakna þín sárt og þú átt alltaf sérstakan stað í hjarta mínu. Guð geymi þig.

Þín

Nadía.

Ég fór að hágráta þegar ég heyrði að hún amma mín væri dáin.

Ég fór að hugsa um allt mögulegt - og man svo eftir skonsunum hennar ömmu, þær voru lang-lang bestar. Ef ég vildi ekki eitthvað sem hún var að gefa fullorðna fólkinu þá bakaði hún þær fyrir mig. Mér fannst líka svo flott sem hún var að föndra. Jólabjölluna sem hún bjó til úr pínulitlum perlum.

Ég veit að hún er núna hjá Jesú. En ég sagði við pabba þegar við vorum að biðja á sunnudagskvöldið að við þyrftum að biðja fyrir manninum sem gerði þetta, því að hann þarf virkilega að kynnast Jesú.

Takk Jesú fyrir ömmu mína, ég á eftir að sakna hennar alveg rosalega en það er svo gott að vita að hún er hjá þér, þar líður henni vel og þú passar hana. Því að þegar við veljum þig - þá förum við til þín.

Gunnar Ingi Gunnarsson.

Með nokkrum fátæklegum orðum vil ég minnast Sigurbjargar Einarsdóttur, fyrrverandi tengdamóður minnar, sem svo óvænt hefur kvatt þennan heim.

Minningarnar eru margar um einstaka konu og ömmu barnanna minna, sem fundu hjá henni ást, alúð og umhyggju og var alltaf til staðar þegar á þurfti að halda. Konu sem af óeigingirni lifði fyrir heimili sitt eiginmann, börn og barnabörn í anda sinnar kynslóðar. Nú seinni árin hafði hún full af lífsþrótti tekið virkan þátt í starfi aldraðra í Hæðargarði og notið þess samfélags til fullnustu.

Ég þakka Sigurbjörgu samfylgdina í blíðu og stríðu og kveð hana í hinsta sinn. Börnum, barnabörnum og öðrum ættingjum votta ég mína innilegustu samúð. Blessuð sé minning um góða konu.

Hilmar.

Ég sat og var að lesa undir próf, þegar sonur minn á Íslandi hringdi og tilkynnti mér að hún amma Sibba vœri dáin. Hún amma Sibba lét lífið á hrœðilegan hátt, orð hans skáru inn í merg og bein. Èg sagði, hún amma Sibba, þessi góða kona sem öllum vildi vel. Èg veit sagði hann, hún var svo góð.

Agndofa og orðlaus settist ég niður og fram komu allar þær minningar sem ég og börnin mín höfum átt með þessari góðu konu, henni Sigurbjörgu Einarsdóttur eða ömmu Sibbu eins og barnabörnin kölluðu hana. Árin eru orðin mörg síðan ég fyrst var kynnt fyrir Sigurbjörgu og Þorsteini sem þá bjuggu að Teigagerði 3 í Reykjavík. Þau urðu síðan tengdaforeldrar mínir. Þegar ég kynntist Sibbu og Steina átti ég litla dóttur og hefur hún alltaf kallað þau ömmu og afa. Svo fæddust Steini og Siggi og voru þeir ávallt í uppáhaldi hjá ömmu og afa eins og öll hin barnabörnin. Sigurbjörg var einstaklega barngóð kona, sem lifði fyrir fjölskylduna. Henni leið best þegar allir voru samankomnir, hressir og glaðir. Ég veit líka að Sibbu leið illa þegar hún vissi að eitthvað bjátaði á hjá einhverjum. Hún var kona sem reyndi alltaf að hjálpa öllum. Margar eru flíkurnar sem hún hefur saumað og ófáar eru saumspretturnar sem hún hefur lagað fyrir fjölskylduna og ef einhver fékk blett í flík var farið til ömmu Sibbu, alltaf gat amma Sibba náð úr einum bletti. Það var alltaf gott að koma í Teigagerði til Sibbu og Steina og gerði maður ekki boð á undan sér þá bakaði Sibba heimsins bestu skonsur, hún vissi að skonsur borðuðu allir, bæði stórir og smáir. Það eru líka mörg barnabörnin sem hafa gist hjá ömmu og afa gegnum tíðina og man ég sérstaklega eftir þegar þær Eydís og Sigrún fengu að vera í lengri tíma hjá ömmu og afa í Teigó. Stelputátur á versta aldri en það var ekkert mál, þær gegna mér, sagði Sibba. Þær elskuðu ömmu sína og fengu hana til að sauma á sig þær flíkur sem þær langaði í. Þessar stelputátur eru orðnar þrítugar í dag og ég veit að þœr sakna ömmu sinnar mikið. Sigrún mín sem býr í Ameríku hlakkaði svo til að heimsækja ömmu Sibbu um jólin og nú er hún amma dáin. Ég veit líka að synir mínir Steini og Siggi sakna ömmu sinnar, hún sem hefur hjálpað þeim svo mikið síðan þeir fluttu til Íslands.

Fyrir tveimur árum áttum við, ég og synir mínir, yndisleg jól með ömmu Sibbu hjá Stínu dóttur hennar og Rúnari, minningu sem við ávallt munum geyma í hjarta okkar. Með tímanum mun sorgin breytast í ljúfar endurminningar. Í einrúmi og af alhug tek ég þátt í sorg og söknuði ykkar allra.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

( V. Briem )

Björg Sigurðardóttir.

Með nokkrum línum langar mig að kveðja hana Sibbu, sem lést með hörmulegum hætti. Það er hræðilegt til þess að vita að gömul kona sem var heilsuhraust og vel á sig komin, skyldi ekki fá að njóta elliáranna í friði og ró í návist elskulegrar fjölskyldu sinnar.

Ég kynntist ömmu Sibbu fyrst þegar ég fór að umgangast fjölskyldu Eydísar vinkonu minnar fyrir um 20 árum. Við vinkonurnar komum stundum við í Teigagerðinu, enda var Eydís mjög náin ömmu sinni og hennar elsta barnabarn. Þá var aðalatriðið að tolla í tískunni og það var ósjaldan farið til ömmu og hún beðin um að sauma nýjasta nýtt, laga eða útbúa hluti. Gerði hún það með mikilli prýði, enda mjög handlagin.

Nú, síðustu árin eftir að Sibba varð ekkja og flutti úr Teigagerðinu í litlu íbúðina sína, var það orðið partur af tilverunni þegar ég var á landinu að Eydís dreif mig með í heimsókn til hennar. Mér þótti alltaf vænt um hvað hún sýndi mér mikinn áhuga og vildi vita hvernig mér vegnaði, enda hafði hún mikinn áhuga á lífinu í kringum sig, bæði þjóðmálum og fólki sem henni þótti vænt um. Það var áðdáunarvert hvað hún var dugleg að drífa sig út með eldri borgurum í ferðir út á land, í gönguferðir og hvaðeina sem í boði var, enda heilsuhraust.

Mér verður hugsað til nýársdags nú í ár þegar við Eydís sátum hjá henni og röbbuðum saman um hvað þetta ár bæri í skauti sér og við vorum að brosa að því hversu gamlar við værum að verða. Þá skellti Sibba upp úr; "Þið, svona stórglæsilegar stúlkur, ég hlusta nú ekki á svona vitleysu" og við hlógum og hlógum. Já, það var gaman og gott að vera í návist ömmu Sibbu enda var hún mikill ættarhöfðingi og lagði kapp á að halda fjölskyldunni saman.

Það er huggun gegn harmi hvað hún náði nú síðustu árin að taka þátt í gleðistundum með fjölskyldunni og sjá barnabörnin hvert af öðru ganga í heilagt hjónaband og eignast sín eigin börn. Ég veit þó eitt, að hún átti þá ósk heitasta að fá að upplifa brúðkaup elsta barnabarns síns. Eydís mín, hún verður með þér þegar þar að kemur.

Ég kveð með söknuði ljúfa og góða konu og sendi fjölskyldunni allri mínar dýpstu samúðarkveðjur við ótímabært fráfall ástkærrar móður, tengdamóður, ömmu og langömmu.

Ragnhildur.

Það er komið að kveðjustund. Í dag kveðjum við Sigurbjörgu Einarsdóttur sem ég þekki betur undir nafninu Sibba amma. Í rúm 20 ár hef ég átt samleið með Sibbu í gegnum Eydísi vinkonu mína.

Ég á bágt með að trúa því að við þurfum að kveðja Sibbu svona fljótt. Ég sé hana enn ljóslifandi fyrir mér svo snögga í hreyfingum, kvika og með glampa í augum. Hún Sibba var svipmikil kona og það var mikil reisn yfir henni og svo auðvelt að láta sér þykja vænt um hana. Hún var svo gefandi, hvort heldur var á andleg eða veraldleg gæði.

Eydís talaði oft og mikið um ömmu sína og í ófá skipti fór ég með henni í heimsókn til Sibbu ömmu. Sibba hafði ævinlega frá mörgu að segja enda mjög athafnasöm. Við þessar ungu öfunduðum hana hálfpartinn af allri þeirri orku sem hún bjó yfir. Hún hafði alltaf eitthvað fyrir stafni, hugsaði vel um sjálfa sig og aðra. Fyrir stuttu sagði Eydís mér sögu af ömmu sinni og hefur þessi saga verið að koma upp í huga mér síðastliðna daga. Þannig var að Eydís var á ferðalagi um hálendið. Á einum áningarstaðnum verður Eydísi starsýnt á mann sem er í hjólastól og á konu sem er að faðma hann í bak og fyrir. Þegar konan snýr sér við sér Eydís að þetta er Sibba amma og verða að vonum miklir fagnaðarfundir með þeim. Þegar Eydís spyr hvaða maður þetta hafi verið sem hún var að heilsa kemur í ljós að Sibba þekkti manninn ekki. Þetta var erlendur maður sem var að ferðast um landið í hjólastól til að safna áheitum fyrir góðgerðarfélag. Sibbu fannst hann bara vera svo duglegur og hún var ekkert að fara í grafgötur með það, mátti til með að faðma hann og hrósa honum. Svona sé ég hana fyrir mér, svo hlýja og gefandi.

Elsku Eydís, Jón, Ásdís, Himmi, Tryggvi Þór og Hilmar, ég óska þess og bið að allt hið góða megi leiða ykkur í gegnum þessa lífsreynslu sem þið standið nú frammi fyrir. Hins sama óska ég öllum aðstandendum Sibbu.

Ég á ævinlega eftir að minnast þess kærleika sem hún sýndi mér. Blessuð sé minning hennar.

Ásta.

Þegar mér bárust þær hörmulegu fréttir að Sibba frænka væri dáin féllust mér hendur. Hún Sibba sem alltaf var svo sterk og lífsglöð, full af þrótti og krafti var allt í einu tekin frá okkur á svo skelfilegan hátt. Sibba var sú af frænkum mínum sem best tengdi mig við föðurfólk mitt. Í gegnum hana fékk ég fréttir af föðursystkinum mínum, þeim Ásu, Gunnari, Láru og Ásgeiri og öllum öðrum frændsystkinum mínum. Sibba var mér eins og lykill að frændfólki mínu. Alltaf þegar ég hitti hana hafði hún nýjar fréttir fyrir mig og hún var afar ættrækin og yndisleg kona.

Elsku fjölskylda Sibbu sem syrgir svo sárt. Ég vildi að ég gæti verið með ykkur í dag en aðstæður leyfa það ekki. Ég bið Guð að blessa ykkur, styrkja og hugga í sorg ykkar. Ég veit að orð verða svo lítilfjörleg þegar sorgin kveður dyra, og því vil ég senda ykkar kveðjur úr Heilagri ritningu frá áttunda kafla Rómverjabréfsins, vers 26: "Þannig hjálpar og andinn oss í veikleika vorum. Vér vitum ekki hvers vér eigum að biðja eins og ber, en sjálfur andinn biður fyrir oss með andvörpum sem ekki verður orðum að komið."

Elsku vinir, bænir mínar og fjölskyldu minnar fylgja ykkur.

Kærleikskveðjur,

Katrín Þorsteinsdóttir,

Akureyri.