Þorsteinn Jónsson fæddist í Bolungarvík 20. júlí 1920. Hann lést 3. desember síðastliðinn.Foreldrar hans voru Jón J. Eyfirðingur, f. 20. janúar 1880, d. 29. október 1972, og Sigurlína Ingibjörg Þorleifsdóttir, f. 23. september 1891, d. 2. maí 1939. Þorsteinn var fjórði í röð tíu systkina sem eru: Leifur, f. 25.2. 1916, d. 29.3. 1976; Stanley, f. 19.4. 1917, d. 28.12. 1985; Ármann, f. 22.2. 1918, d. 9.4. 1939; Guðríður, f. 21.10. 1921; Guðrún, f. 14.11. 1923, d. 12.11. 1924; Höskuldur, f. 5.7. 1925, d. 7.9. 1995; Magnús, f. 22.7. 1929; Sveinn, f. 13.4. 1931og Gunnar Jón, f. 14.12. 1932. Þá átti Þorsteinn eina hálfsystur, Aðalheiði Haraldsdóttur (látin)

Þorsteinn kvæntist Ástríði Ólafsdóttur árið 1945. Þau eignuðust tvo syni sem eru: Gísli, f. 19.12. 1945, kvæntur Hjördísi Henrysdóttur. Börn þeirra: 1) Ólafur Ágúst, kvæntur Berglindi Ólafsdóttur og eiga þau eitt barn: Hjördísi Evu en fyrir átti Ólafur Hrólf frá fyrri sambúð. 2) Henrietta Guðrún, gift Guðjóni H. Gunnarssyni, barn þeirra: Gísli Tómas. 3) Ástríður, gift Steinari Þ. Guðgeirssyni, barn þeirra: Andrea Dís. 4) Birna.

Þorsteinn, f. 15.6. 1951, kvæntur Guðrúnu Þóru Halldórsdóttur. Barn þeirra: Þorsteinn Jóhann. Fósturbarn og barn Guðrúnar: Halldór Már Sverrisson, kvæntur Ólafíu Pálmadóttur, barn þeirra: Auður Hrönn. Þorsteinn og Ástríður slitu samvistir. Hann kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Geirlaugu Guðmundsdóttur árið 1964.

Þorsteinn stundaði sjómennsku frá unga aldri og sigldi meðal annars á íslenskum togurum á stríðsárunum. Hann lauk síðan prófi frá stýrimannaskólanum. Hann var stýrimaður og skipstjóri á skipum Einars Guðfinnsonar í Bolungarvík en réðst síðar til starfa hjá Landhelgisgæslunni þar sem hann starfaði um árabil eða þar til hann gekk til starfa hjá Hafrannsóknarstofnun við fiskirannsóknir þar til hann lauk starfsferli sínum.

Útför Þorsteins Jónssonar verður gerð frá Áskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan. 13:30.

Þá ert þú búinn að hífa og skálka trollið. Fleyið er sjóklárt, siglingin mikla getur hafist. Stefnan er sett til Austurs þar sem skærasta ljósið logar eilíflega.

Við þökkum þér, pabbi minn, fyrir samveruna, hjálpina, frumkvæðið og allt það sem þú hefur gert fyrir okkur. Við geymum minningarnar uns við hittumst aftur.

Við biðjum hinn Hæsta Höfuðsmið að lýsa þér á þeim vegum sem þú nú hefur lagt leið þína út á.

Gísli og Þorsteinn.

Í dag kveðjum við elskulegan afa okkar.

Tárin sem falla eru eigingjörn tár, saknaðartár, því það var blessun að hann afi fékk loks að fara eftir langa rúmlegu.

Það er ekki auðvelt fyrir svalan sægarp sem aldrei féll verk úr hendi að vera bundinn við rúmið í langan tíma. Var hugurinn enda víðs fjarri, á sjónum eða úti í miðri veiðiá.

Afi var hinn mesti fjörkálfur og enga eins gaman að sækja heim og hann og Laugu í Efstasundið. Þar hékk harðfiskurinn í kjallaranum sem var hið mesta undraland fyrir forvitna krakka og garðurinn var ekki síður endalaus uppspretta ævintýra enda eyddu þau þar löngum stundum við garðyrkju og ýmis handverk. Skúrinn var stolt afa enda allt þar í röð og reglu, veiðarfæri og fleira sem skemmtilegt var að skoða. Gamlárskvöldin eru sérstaklega eftirminnileg en afi gekk þá heldur betur í barndóm og fór offari í flugeldakaupum, sprengingum, sprellilátum og barnadekri. Afi hafði róast töluvert á síðari árum en það var nú alltaf jafn stutt í grallarann í honum og er öruggt að segja að áramótin verði ekki söm héðan í frá.

Afi var mikil veiðikló og útivistarmaður. Útilegurnar og veiðiferðirnar með afa og Laugu voru þær allra bestu. Voru þau bæði endalaus uppspretta fróðleiks um hvernig nýta mætti náttúruna og ganga vel um hana. Afi var ótrúlega fiskinn og þykjumst við öll hafa erft þann eiginleika, enda skóluð af meistaranum í öllum helstu greinum veiðilistarinnar. Það lýsir afa vel að þegar kroppurinn var aðeins farinn að linast á síðari árum að eitt sinn í veiðiferð þegar hann féll í ána og braut veiðistöngina sína lagði hann ekki hendur í skaut, eftir að hafa formælt árinni sinni, heldur hóf að tína ber og bar af berjatínslumönnunum í þeirri ferð.

Hann afi var svo lánsamur að eyða mestum hluta ævi sinnar með yndislegri konu og vart hægt að finna samstilltari og skemmtilegri hjón, enda kímnigáfan aldrei langt undan og gerðu þau óspart grín að hvort öðru. Frá því að afi veiktist fyrst var Lauga hans stoð og stytta og er aðdáunarvert hve mikinn styrk hún hefur sýnt, svo ekki sé talað um hversu mikla ást og umhyggju hún hefur umvafið hann afa okkar. Við kveðjum nú elsku afa okkar, þökkum fyrir allar stundirnar með honum og biðjum góðan guð að fylgja honum og varðveita í fyrirheitna landinu.

Að lifa er að elska,

og sá sem einhver elskar

getur aldrei dáið.

Ólafur, Henrietta,

Ástríður og Birna.

Ég ætla mér að kveðja afa minn Þorstein Jónsson með nokkrum fátæklegum orðum.

Það sem kemur fyrst og fremst upp í huga mér þegar ég hugsa um afa Steina, (eins og ég kallaði hann alltaf) er sú gífurlega veiðiþrá sem hann var haldinn. Veiðimennskan átti hug hans og hjarta, og hann var vanur að fara heilu veiðiferðirnar í huganum, svo mikil var veiðiástríðan. Því kemur það alls ekki á óvart að mér skuli þessi þrá hafa verið í blóð borin. Það voru jú ófáar veiðiferðirnar sem við fórum saman, og veiðina bar ávallt á góma þegar við hittumst. Þessar minningar kalla óneitanlega fram yl í hjartarótunum, og ég vildi óska að ferðirnar og umræðurnar hefðu orðið miklu fleiri. En það verður víst ekki á allt kosið, og lífið verður að fá að ganga sinn vanagang. En eitt get ég sagt þér afi minn, ég mun alltaf eftir fremstu getu viðhalda veiðiástríðunni, því ég veit að það hefðir þú viljað

En nú ert þú lagður upp í ferðina miklu á fund drottins, og þar munt þú hljóta nýtt og æðra hlutverk.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

(Þórunn Sig.)

Vertu sæll, elsku afi minn, og guð geymi þig. Ég veit að við eigum eftir að hittast aftur á björtum og góðum stað.

Þinn,

Þorsteinn Jóhann Þorsteinsson.

Mig langar að skrifa nokkur minningarorð um föðurbróður minn og uppáhaldsfrænda, Þorstein Jónsson, sem lést hinn 3. desember sl. Ótal minningar koma upp í hugann, fyrst frá því er ég var lítil stelpa, og við systkinin fórum í ferðalög með mömmu og pabba og Laugu og Steina. Við ferðuðumst víða um land saman. Alltaf var jafn gaman í þessum ferðalögum, og átti Steini frændi mestan þátt í því, að gera þau svo skemmtileg. Hann var eins og segull, laðaði alla krakka að sér. Hann var alltaf tilbúinn að sprella, og leika sér við okkur, segja okkur allskyns sögur, yrkja skemmtilegar vísur, og teikna myndir. Í einni ferðinni sagði hann okkur að vanda margar sögur, okkur hefur sennilega þótt þær eitthvað ótrúlegar, því þá fundum við krakkarnir upp nafnið Steini platari, og síðan þá hefur oft verið hlegið að þessu innan fjölskyldunnar, og nafngiftin lifað góðu lífi.

Steini frændi og pabbi voru með veiðidellu, og renndu þeir bræður fyrir fisk hvar sem þeir gátu. Ég naut góðs af, og fékk ég oft að fara með þeim í veiðitúra. Margt spaugilegt gerðist í þessum veiðiferðum, og oft síðan höfum við rifjað upp þessar ferðir, hlegið mikið og haft gaman af.

Eitt sinn vorum við á ferðalagi, og tjölduðum við Ánavatn á Jökuldalsheiði.

Pabbi og Steini voru búnir að standa lengi niður við vatn, en höfðu ekkert veitt. Ég fór til þeirra og hafði pabbi þá lagt frá sér stöngina, fór heim að tjaldi og ætlaði að skipta um agn. Ég náttúrlega notaði tækifærið, stalst með stöngina og kastaði út, og viti menn, eitthvert ferlíki, að mér fannst, beit á, ég varð ofsahrædd og veinaði Steini! Steini! ég er að missa stöngina. Steini frændi kom hlaupandi, greip stöngina og landaði níu punda bleikju. Ekki leiddist honum það.

Öðru sinni vorum við að veiða í Kleifarvatni, við höfðum veitt vel, og settum við fiskana hvert í sína hrúgu. Í minni hrúgu voru 13 fiskar, og var ég mjög ánægð með veiðina. Kom þá ekki hrafn fljúgandi, greip einn fiskinn frá mér, og fór með hann burt. Þá sagði Steini frændi: Sossa mín (hann kallaði mig alltaf Sossu þegar ég var stelpa), mikið ertu heppin, nú áttu bara 12 fiska, en ekki 12 og 1. Steini frændi hafði mikla ótrú á tölunni 13, nefndi hana helst aldrei, heldur sagði 12 og 1.

Pabbi og Steini frændi voru alla tíð mjög samrýndir, og hefur alltaf verið mikið samband á milli okkar fjölskyldu og Steina og Laugu. Þau voru frábær saman, og það var alltaf jafn gaman að koma til þeirra í heimsókn, eða að fara með þeim í ferðalög, alltaf var verið að grínast og hlæja.

Eftir að ég og Lína systir stofnuðum okkar eigin fjölskyldur, hélst sá siður við, að fara saman í ferðalög. Árið 1991 héldum við ættarmót í Kleifakoti í Ísafirði við Djúp, þar sem móðir þeirra pabba og Steina, Sigurlína Ingibjörg Þorleifsdóttir, var fædd, og var þetta mót í 100 ára minningu hennar. Öll höfðum við mjög gaman af þeirri ferð. Ekki má gleyma öllum verslunarmannahelgunum sem við vorum í saman í Veri í Álftaveri, þar sem fjölskylda mín er með lítið sumarhús. Þar höfum við hist árlega síðustu 10 árin að ég held. Svenni bróðir þeirra, Sólveig kona hans og Dódó systir þeirra hafa einnig alltaf komið. Steini frændi hafði sérstaklega gaman af þessum samverustundum, og kallaði hann þetta alltaf "hátíðina", hlakkaði hann mikið til á hverju ári að komast í Verið. Á síðustu "hátíð" komst Steini frændi ekki, því þá var hann kominn inn á sjúkrastofnun. Lauga var með okkur, og þótt þessi "hátíð" væri ekki eins og hinar, því Steina vantaði eða "stóra grjótið" eins og Lauga kallaði hann oft í gríni, gátum við skemmt okkur við að rifja upp ýmislegt sem brallað hefur verið í gegnum árin, og kom Steini frændi ansi oft við sögu.

Þegar ég skoða myndaalbúmin frá liðnum árum, get ég ekki annað en hlegið með sjálfri mér, þegar ég sé myndirnar af Steina frænda. Hann er aldrei eins og aðrir á myndunum, heldur stillir hann sér upp alveg á sérstakan hátt, eða er með einhverjar fettur og brettur, þannig að myndirnar verða svo sérstakar, alveg eins og Steini frændi var, einstakur maður. Ég tel mig mikið heppna, að hafa átt slíkan frænda.

Elsku Lauga, Gísli og fjölskylda og Þorsteinn og fjölskylda. Við systurnar ásamt fjölskyldum okkar, sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Soffía Guðrún Gunnarsdóttir.

Nú er félagi okkar og samstarfsmaður til margra ára, Þorsteinn Jónsson, látinn. Þorsteinn hóf störf sín hjá Hafró um það leyti er ég kom þangað nýskriðinn úr háskóla fyrir tæpum 30 árum síðan. Ég man vel þegar fundum okkar bar fyrst saman, en það var um borð í Ölveri , sem Gunnar bróðir hans átti og var í leigu hjá Hafrannsókn við botndýrarannsóknir. Þorsteinn var mjög hjálplegur og einstaklega þægilegur maður í allri umgengni. Hann mátti ekkert hálfkák vita og samviskusemin var með ólíkindum. Ef hann kláraði ekki ákveðin verkefni á venjulegum vinnutíma þá átti hann það til að mæta til vinnu nánast um hánótt eða helgar ef því var að skipta og ljúka ætlunarverki sínu , en þeir vinnutímar voru ekki tíundaðir. Við á botndýradeild Hafró áttum því láni að fagna að hafa slíkan samstarfsmann í röðum okkar um langt árabil. Steini var mikil hamhleypa til allra verka og vann allt sem hann tók sér fyrir hendur af stakri vandvirkni og elju. Hann var listamaður í eðli sínu og margar voru myndir hans sem birtust á ólíklegustu stöðum af mönnum og sér í lagi hvers konar skipum sem hann hafði komist í tengsl við á lífsleiðinni. Ég átti því láni að fagna að kynnast Steina nokkuð utan vinnutíma, þar sem við báðir höfðum mikinn áhuga á skotveiðinni og margar ferðirnar fórum við saman til rjúpna í nágrenni Reykjavíkur og víðar Steini var af þeirri kynslóð Íslendinga þar sem orð voru sama og lög og orð skyldu standa.Þetta er því miður sá eiginleiki sem óðum er að hverfa hér meðal fólks þar sem flestum er "alveg sama" um alla hluti. Þessi eiginleiki hjá eldra fólki er ómetanlegur og hvað allt væri nú þægilegt í samskiptum fólks ef treysta mætti því fullkomlega sem fólk segði. Þannig var Steini, allt sem hann sagðist gera framkvæmdi hann hvað sem það kostaði og lagði mikinn metnað í slíkt. Ég veit að við sem kynntumst Steina hjá Hafró urðum ríkari eftir og söknuðum hans þegar hann hætti hjá okkur. Þá tóku við mikil og þrálát veikindi hjá honum, en það var aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig hann reyndi að vinna sig út úr þeim með óbilandi viljastyrk og þrautseigju. Þar naut hann mikils stuðnings eiginkonu sinnar og sona allt þar til yfir lauk.

Ég vil með þessum fáum orðum þakka Steina allar samverustundirnar því án þeirra hefði ég farið á mis við góðan og traustan félaga. Fjölskyldu hans sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Sólmundur Tr. Einarsson.

Þegar að hinstu kveðjustundinni kemur langar mann að segja eitthvað, en ósköp verður maður fámáll, enda mega orð sín lítils á svona stundum. En ósjálfrátt reikar hugurinn til baka.

Og það get ég sagt að það voru forréttindi að fá að kynnast honum Steina. En hann Steini var giftur frænku minni henni Geirlaugu Guðmundsdóttur (gænku).

Sem stráklingur var ég eins og grár köttur á heimili þeirra hjóna, þar var einhver hlýja og öryggi sem stráklingurinn fann og þar var gott að koma þegar eitthvað bjátaði á, enda var Steini barngóður með afbrigðum.

Mér eru enn í fersku minni öll þau áramót sem ég var hjá þeim Steina og Gænku en það var ekkert lítið ævintýri hjá okkur krökkunum.

Steini var alltaf búinn að viða að sér ósköpunum öllum af sprengiefni og þegar byrjað var að sprengja var eins og skollið væri á stríð og mátti þá vart á milli sjá hvor var yngri ég eða Steini.

Þá voru alltaf rjúpur á borðum sem Steini hafði veitt, en hann var mikill veiðimaður. Sjómennska og veiði hvers konar átti hug hans allan og heyrði maður margar skemmtilegar veiðisögur hjá Steina.

Eftir að ég komst til (vits) og ára fluttist ég út á land, eignaðist bát og fór að gera út. Í hvert skipti sem ég hitti Steina eftir það var maður spurður spjörunum úr, hvort maður væri að fá hann og hvar og hvernig.

Alltaf gat hann sagt manni eitthvað nýtt, það var eins og hann þekkti allt hafsvæðið og ákafinn leyndi sér ekki hjá þessum annars rólynda manni.

Í síðustu heimsókn þeirra hjóna til mín var Steini karlinn orðinn ansi lasburða, en það kom að sjálfsögðu ekki annað til greina en að skreppa á sjóinn og reyna fyrir sér með sjóstöng.

Lentum við fljótlega í góðu fiskiríi og var fiskur á hverju járni, þá sé ég hvar stöngin hjá Steina fer alveg í hring. Ég hleyp til og ætla að hjálpa honum, þá hvín í kalli, komdu ekki nálægt mér, því ég er með stóran, jafnvel spröku, og inn baslaði karlinn þrem stærðar þorskum.

Og áfram hélt fiskiríið þegar ég fór að ýja að því hvort ekki væri komið gott, því ég hélt að karlinn myndi sprengja sig, svaraði hann að bragði, ertu vitlaus drengur, það hættir enginn óvitlaus maður í brjáluðu fiskiríi.

Það voru þreyttir en ánægðir veiðimenn sem héldu heim seinna um daginn og minnst 20 árum yngri.

Þakka samfylgdina og samverustundirnar, Steini minn, verst að veiðiferðirnar gátu ekki orðið fleiri.

Ásgeir Valdimarsson.

Kvatt hefur okkur á aðventunni Þorsteinn Jónsson, höfðingi ættaður af Bolungarvík vestur. Kynni okkar Steina eins og hann var ávallt kallaður voru ekki mikil eða náin fram eftir ævi en jukust um og eftir miðjan aldur og er gildur sjóður í minningabanka undirritaðs. Steini var sjómaður að ævistarfi og starfaði við sjósókn mestan sinn starfsaldur en síðan við störf tengd sjómennsku eftir að í land var komið. Hann var kurteis og hógvær og frábitinn því að berja bumbur á torgum, virtist vera nokkuð seintekinn í viðkynningu en eftir að inn úr skelinni var komið var hann sannur vinur vina sinna og ávallt gott til hans að leita. Steini var mikill unnandi íslenskrar nattúru, sannkallað náttúrubarn og veiðimaður var hann af Guðs náð. Hann hafði til að bera þau skilningarvit sem einungis yfirburðaveiðimönnum eru gefin. Því er nú einu sinni þannig varið að sumum mönnum eru gefnir þeir hæfileikar að lesa og njóta náttúrunnar á öðrum víddum en margir okkar og það var mikil lífsreynsla að fylgjast með Steina við veiðar, allt hans fas og framkoma fumlaus og án fyrirgangs eða áreynslu. Þeir sem njóta þessara forréttinda þurfa ekki að vera margorðir til að þeir skiljist. Steini var sjálfskipaður foringi og heiðursfélagi okkar veiðifélaganna bæði til fugla og fisks, þar er nú vinar vant og skarð fyrir skildi.

Hann giftist Ástríði Ólafsdóttur og átti með henni tvo drengi, Gísla og Þorstein, sem báðir eru vel gerðir og hafa erft ríkulega mannkosti foreldra sinna. Leiðir þeirra Steina og Ástu skildu og seinni kona Steina er Geirlaug Guðmundsdóttir ættuð frá Tálknafirði, hin mesta sóma- og mannkostakona.

Við Magga áttum því láni að fagna að vera samferðafólk Steina og Laugu í íslenskri náttúru og ferðalögin með þeim hjónum eru ógleymanleg og eiga eftir að ylja okkur um ókomin ár.

Þorsteinn Jónsson hefur nú lagt upp í ferðina sem er óumflýjanleg, inn á bjartar veiðilendur handan sjóndeildarhringsins, trúi ég því að til þessa ferðalags sé Steini ekki vanbúinn. Honum eru færðar þakkir frá okkur Möggu fyrir samfylgdina. Við vottum öllum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Far í frið og guð þig blessi.

Ólafur Ág. Þorsteinsson.

Fátækleg orð mega sín lítils þegar kveðja skal í hinsta sinn góðan vin og velgjörðarmann. Þegar Steini hóf búskap með ömmusystur minni Geirlaugu Guðmundsdóttur, sem við köllum aldrei annað en Gænku. Þá bjó hjá henni móðir hennar, hún Valgerður langamma og við systkinin vorum heimagangar hjá henni í tíma og ótíma.

Það var okkar lán að Steini var mjög barngóður maður og hafði gaman af félagsskap barna. Hann var þá bátsmaður á varðskipi og síðar stýrimaður og átti flott "kaskeiti" sem við krakkarnir mátuðum alltaf þegar færi gafst, annars var það geymt í plastpoka uppi í skáp og við bárum allt of mikla virðingu fyrir þessu flotta höfuðfati til að stelast í það. Hjá Gænku og Steina var alltaf yndislegt að vera, þar ríkti friður, hlýja, reglusemi, og einhver sérstakur lífskraftur.

Það var oft fjörugt við spilaborðið á kvöldin þegar allir voru að spila manna, bæði börn og fullorðnir. Steini kenndi mér m.a. mannganginn í tafli og mikið hafði ég gaman af því þegar hann seinna meir sat vestur í Grundarfirði og tefldi við mín börn, kenndi þeim spil o.fl.

Steini hafði sérstakt lag á að fanga hugi barnanna svo þau voru ein eyru og augu.

Það er margs að minnast og margt að þakka. Steini hjálpaði mér oft að læra fyrir próf þegar ég var í skóla, hann kenndi mér margt gagnlegt og gott, ekki síst með því að vera sú góða fyrirmynd sem hann var, því hann var mikill mannvinur og vandaður bæði til orðs og æðis. Það var föst regla þegar við vorum krakkar að fara til Gænku og Steina á aðfangadagskvöld og borða þar jólarjúpuna sem Steini hafði veitt og Gænka matreiddi af sérstakri snilld.

Einnig vorum við alltaf hjá þeim á gamlárskvöld ásamt sonum Steina, þetta voru sérstakar og ógleymanlegar hátíðarstundir, Á gamlársvöld var Steini búinn að viða að sér flugeldum og blysum og útbúa traustan "skotpall" á svölunum. Steini sá um að skjóta eins og vera bar en gleymdi aldrei að eiga til blys og stjörnuljós fyrir smáfólkið. Svo þegar skothríðin hófst, þá mátti sjá sömu barnslegu gleðina og spenninginn í andliti hans og okkar krakkanna.

Þau voru mjög samhent hjón Gænka og Steini og áttu það sameiginlegt að hafa mikla ánægju af því að bjóða fjölskyldu og vinum heim og þau voru svo sannarlega alltaf höfðingjar heim að sækja.

Ég hef oft sagt að það rynni ekki blóð í æðunum á Steina, heldur saltur sjór því ég hef ekki enn fyrirhitt mann sem hefur jafn mikið yndi af hvers konar sjómennsku og hann hafði. Ég átti mitt heimili á Grundarfirði í mörg ár, þá þótti okkur alltaf jafn gaman þegar Gænka og Steini komu í heimsókn.

Ásgeir bróðir bjó líka í Grundarfirði (og býr enn), hann á bát og ekki þótti Steina mínum ónýtt að fá að skreppa á sjóinn með Ásgeiri.

Ég man þagar hann fór síðast á sjó með Ásgeiri, þá var mikil rekistefna í eldhúsinu hjá Huldu og Ásgeiri um hvort það væri óhætt fyrir hann að fara á sjó, hann var orðinn svo heilsuveill, þá tvívegis búinn að fá heilablóðfall.

En Steini lét hvorki laust né fast, hann vildi komast á sjó og á sjóinn var farið.

Það þurfti að styðja Steina um borð í bátinn því hann hafði svo lélegt jafnvægi.

Þegar svo sægarparnir komu að landi aftur stóðum við, ég, Gænka og Hulda, auðvitað tilbúnar á bryggjunni til að fara beint heim með Steina, okkur þótti þeir vera búnir að vera alltof lengi og hann væri örugglega úrvinda, en viti menn, minn maður stóð algallaður og alvopnaður við slægingu á dekkinu og sagðist ekki fara fet frá borði fyrr en búið væri að gera að öllum aflanum og hana nú.

Við stöllurnar á bryggjunni sáum að við hefðum getað sparað okkur áhyggjurnar, það var mun glaðari og ferskari maður sem var studdur frá borði í lok sjóferðar en hafði farið um borð í upphafi hennar. Mögru fleiru mætti hér við bæta, en nú er mál að linni.

Ég er guði þakklát fyrir að hafa fengið að njóta samfylgdar með þér, elsku Steini minn, og gleðst yfir því að þú ert nú hjá honum laus við þjáningar og sjúkdóma.

Foreldrar mínir, þau Gyða og Hreiðar, þakka samfylgdina og allar góðar minningar.

Það er okkur öllum huggun harmi gegn að geta yljað okkur við hlýjar minningar um allar góðu samverustundirnar og rifja upp hvernig þú gast alltaf hleypt fjöri í samkomuna með hnyttnum athugasemdum og tilsvörum.

Þín elskandi vinkona,

Þorgerður.