Björg Bjarnadóttir fæddist á Geitabergi í Svínadal 26. janúar 1909. Hún lést 25. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Bjarni Bjarnason, hreppstjóri, f. 4. janúar 1866, d. 31. desember 1928, og Sigríður Einarsdóttir, f. 14. ágúst 1867, d. 27. maí 1955.

Hinn 26. nóv. 1932 giftist Björg Jónasi Ólafssyni heildsala, f. 18. september 1901, d. 21. september 1980. Dóttir þeirra er Edda Bergljót, f. 25. desember 1933, gift Guðmundi Jóhannssyni, f. 7. júlí 1929. Þeirra börn eru: 1) Jónas, f. 25. maí 1956, hans börn eru Þorvaldur, f. 25. september 1983, og Guðmundur Ragnar, f. 9. apríl 1996. 2) Björg, f. 29. júlí 1966, gift Kristbirni Orra Guðmundssyni, f. 18. nóvember 1979. Hennar börn eru Edda Lind, f. 25. ágúst 1998, og Karen Ösp, f. 2. júní 1992.

Útför Bjargar fer fram frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Nú er hún amma mín farin til Guðs. Hún hafði lengi verið tilbúin til fararinnar og beðið eftir að verða sótt. Amma var hæfileikamikil kona sem skilur eftir sig mikið af fallegu handverki og fjöldann allan af ljóðum. Hún var skemmtileg, fyndin og hafði gaman af orðum, bæði til að raða í ljóð og eins tvíræðum merkingum þeirra. Eitt laugardagskvöldið í nóvember þegar við hjónin vorum að hugsa um að bregða undir okkur betri fætinum sagði hún "farðu bara, Björg mín, ég er ekki í banastuði í kvöld". Amma var gott skáld og samdi vísur fyrir öll tækifæri og einnig lengri ljóð og þá ósjaldan um dalinn sinn, Svínadalinn. Hún var fædd á Geitabergi í Svínadal og æskustöðvarnar voru alla tíð ofarlega í huga hennar. Um dalinn orti hún m.a. (3 erindi af 14):

Þó vetur í viðmóti svalur

vefji þig fönn og ís,

samt eru þú Svínadalur,

sannkölluð paradís.

Því meðan að sólin sefur

og svell þekur dal og hól,

náðin og náttúran gefur

norðurljós, stjörnur og jól.

Guð, sendu af góðleika þínum

grósku í hvert dalsins bú,

og gefðu góðvinum mínum

gæfu, heilbrigði og trú.

Svo gat hún amma líka sungið og söng m.a í Dómkórnum hjá Páli Ísólfssyni í 40 ár.

Mestan hluta ævi minnar hef ég búið í sama húsi og amma, og dætur mínar fengu hjá henni tilsögn í ljóðagerð og málfræði frá blautu barnsbeini. Þær gátu alltaf leitað til löngu sinnar þegar aðrir voru uppteknir í dagsins önn. En í hvíldarinnlögn í Skógarbæ síðastliðið sumar kom í ljós að amma var orðin meira veik en við höfðum gert okkur grein fyrir og því eyddi hún síðustu mánuðum sínum þar.

Amma mín góða, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Starfsfólki Heiðabæjar og Austurbæjar vil ég fyrir hönd míns fólks þakka frábæra umönnun. Þvílík hlýja og góðmennska er vandfundin. Sérstakar þakkir til Hrefnu Grímsdóttur læknanema.

Björg Guðmundsdóttir.