Hanna Sesselja Hálfdanardóttir fæddist í Hafnarfirði 13. nóvember 1938. Hún lést á Landspítalanum 3. desember síðastliðinn, 61 árs að aldri. Faðir hennar var Hálfdan Helgason, bifvélavirki, f. 6. janúar 1910 á Stokkseyri, d. 2. mars 1985. Móðir hennar er Þórdís Hansdóttir, f. 30. júní 1920 í Hafnarfirði. Eftirlifandi systir Hönnu er Kristrún Bjarney Hálfdanardóttir, f. 8. nóvember 1940. Hún átti einnig tvo bræður; annar f. 20. maí 1949 andvana og hinn, Hálfdan Þórir Hálfdanarson, f. 5. mars 1952, dó af slysförum 9. nóvember 1960. Hinn 15. ágúst 1959 giftist Hanna Sesselja Markúsi Ármanni Einarssyni veðurfræðingi, f. 5. mars 1939, d. 20. október 1994. Börn þeirra eru þrjú: a) Hálfdan Þórir Markússon verkfræðingur, f. 24.5. 1963, kvæntur Sóleyju Indriðadóttur, f. 24.9. 1964. Börn þeirra eru fimm, Hanna Sesselja, f. 9.5. 1985, Bára Fanney, f. 22.9. 1988, Árný Þóra, f. 4.2. 1992, Margrét Rósa, f. 2.6. 1994, og Sylvía Rún, f. 20.9. 1998. b) Ingibjörg Markúsdóttir sálfræðingur, f. 18.6. 1966. c) Ármann Markússon nemi, f. 11.2. 1972. Hanna Sesselja lauk gagnfræðaprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1955 og prófi frá Húsmæðraskólanum í Reykjavík 1959. Auk húsmóður- og félagsstarfa vann Hanna Sesselja við afgreiðslu og iðnað. Útför Hönnu Sesselju verður gerð frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Hanna Sesselja Hálfdanardóttir fæddist í Hafnarfirði 13. nóvember 1938. Hún lést á Landspítalanum 3. desember síðastliðinn, 61 árs að aldri. Faðir hennar var Hálfdan Helgason, bifvélavirki, f. 6. janúar 1910 á Stokkseyri, d. 2. mars 1985. Móðir hennar er Þórdís Hansdóttir, f. 30. júní 1920 í Hafnarfirði. Eftirlifandi systir Hönnu er Kristrún Bjarney Hálfdanardóttir, f. 8. nóvember 1940. Hún átti einnig tvo bræður; annar f. 20. maí 1949 andvana og hinn, Hálfdan Þórir Hálfdanarson, f. 5. mars 1952, dó af slysförum 9. nóvember 1960.

Hinn 15. ágúst 1959 giftist Hanna Sesselja Markúsi Ármanni Einarssyni veðurfræðingi, f. 5. mars 1939, d. 20. október 1994. Börn þeirra eru þrjú: a) Hálfdan Þórir Markússon verkfræðingur, f. 24.5. 1963, kvæntur Sóleyju Indriðadóttur, f. 24.9. 1964. Börn þeirra eru fimm, Hanna Sesselja, f. 9.5. 1985, Bára Fanney, f. 22.9. 1988, Árný Þóra, f. 4.2. 1992, Margrét Rósa, f. 2.6. 1994, og Sylvía Rún, f. 20.9. 1998. b) Ingibjörg Markúsdóttir sálfræðingur, f. 18.6. 1966. c) Ármann Markússon nemi, f. 11.2. 1972.

Hanna Sesselja lauk gagnfræðaprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1955 og prófi frá Húsmæðraskólanum í Reykjavík 1959. Auk húsmóður- og félagsstarfa vann Hanna Sesselja við afgreiðslu og iðnað.

Útför Hönnu Sesselju verður gerð frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Elsku Hanna systir, mig langar til að kveðja þig með fáeinum orðum. Þú varst ætíð mín stóra systir sem ég leit upp til og naut að vera með. Skyndilegt andlát þitt er mér mikið áfall og missir minn mjög mikill. Það sem hjálpar mér á þessum erfiðu tímum eru allar þær ljúfu minningar sem ég á um þig.

Ég man þegar við vorum litlar og gengum í Mýrarhúsaskólann og þurftum að ganga í skólann frá Fálkagötunni þegar strætó gekk ekki vegna ófærðar. Þá styttum við okkur stundirnar með því að telja ljósastaurana. Ég man hvað mér þótti gaman með þér, Helgu Emils og hinum vinkonunum þínum. Það skipti þig engu máli að ég var litla systir. Ég var einfaldlega ein af hópnum. Ég man eftir öllum skemmtilegu stundunum í Hálogalandi þegar þið Þróttarstelpurnar voruð að keppa í handbolta. Ég fór alltaf með.

Á milli okkar voru alltaf sterk bönd þrátt fyrir hve ólíkar við vorum að mörgu leyti. Við áttum mjög auðvelt með að vinna saman við undirbúning fjölskylduboða eða annað sem til féll. Þetta voru skemmtilegar stundir og miklu var komið í verk og var það ekki síst vegna skipulagshæfni þinnar og ósérhlífni.

Þeir sem þekktu þig nutu mjög nærveru þinnar vegna margra góðra kosta. Þú varst svo róleg, umburðarlynd og bóngóð. Þú kvartaðir aldrei heldur fannst það jákvæða í öllu.

Dugnaður þinn og styrkur var mikill og komu þessi kostir ekki síst fram í veikindum Mannsa og síðar þínum. Með þessum orðum kveð ég þig elsku systir og læt fylgja tvær af þeim bænum sem mamma kenndi okkur.

Vertu nú yfir og allt í kring

með eilífri blessun þinni.

Sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðar kraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

Þín systir.

Vináttan er vorsins blómi,

vináttan er lífið manns,

jafnt í æsku og aldurdómi,

er hún faðmur kærleikans.

(R.B.)

Að hafa átt vináttu Hönnu Sesselju Hálfdánardóttur í rúm 40 ár er ríkidæmi sem ég er þakklát fyrir. Það var haustið 1958 sem við hittumst fyrst í Húsmæðraskóla Reykjavíkur, ungar að árum, nýtrúlofaðar og tilbúnar að búa okkur undir húsmóðurstarfið. Við vorum saman í litlum vinnuhópi allan veturinn, urðum herbergisfélagar og vinkonur.

Um vorið veiktist undirrituð og var á sjúkrahúsi nokkrar vikur. Þá var það Hanna sem óbeðin tók að sér að ganga frá handavinnunni minni og ekki ætlaðist hún til nokkurs endurgjalds. Þannig var hún allt sitt líf, traust og góð, tilbúin að rétta hjálparhönd öllum sem á þurftu að halda.

Hanna naut mikillar gæfu í einkalífi sínu, því hún og eiginmaður hennar Markús Á. Einarsson veðurfræðingur voru einstaklega samhent og góð hjón og börnin þeirra, Hálfdán Þórir, Ingibjörg og Ármann, voru stolt þeirra og gleði. Það var því mikið áfall þegar Markús fékk alvarlegan sjúkdóm á besta aldri, sjúkdóm sem hann barðist við í 12 ár af mikilli karlmennsku, studdur af Hönnu hvert skref.

Það komu góð ár inn á milli og þau notuðu þau vel til ferðalaga innanlands og utan og ekki síður að eiga stundir með fjölskyldu og vinum, enda vinsæl og góð heim að sækja. Með árunum bættust í fjölskylduna dætur Þóris og Sóleyjar, þær Hanna Sesselja, Bára Fanney, Árný Þóra, Margrét Rósa og Sylvia Rún, sem urðu gleðigjafar ömmu og afa. Þessi góða fjölskylda stóð einhuga saman í veikindum Markúsar, sem lést 20.10. 1994 og var hans sárt saknað af öllum. Eins og alltaf stóð Hanna mín sig eins og hetja, þó henni fyndist sig vanta helminginn af sjálfri sér, svo náin voru þau Markús.

Aðeins nokkrum mánuðum seinna uppgötvaðist illkynja mein hjá henni sjálfri og hófst nú ný barátta, með uppskurði, geisla- og lyfjameðferð. Ekki kvartaði Hanna yfir þessum illu örlögum, þó okkur vinum hennar þætti nóg komið. Hún naut þess að Ármann bjó heima hjá henni og var henni ómetanlegur styrkur í þessari baráttu og ekki síður Ingibjörg og Þórir og fjölskylda. Bæði fjölskylda hennar og Markúsar stóðu þétt um hana og sjálf trúði hún á að bati mundi fást. Hún hélt ótrauð áfram að rækta vináttu við okkur vini sína og tók virkan þátt í öllu með okkur eins og áður. Í sumar áttum við vinahópurinn úr Húsmæðraskólanum enn eina ánægjuferðina saman í Þýskalandi. Þar naut Hanna sín sérstaklega vel og nú trúðum við að hún hefði sigrast á veikindunum fullkomlega. Það kom því sem reiðarslag að fá þær fréttir að hún hefði fengið heilablæðingu og látist þann 3. des. sl. Kannski gat Mannsi hennar ekki verið án hennar lengur. Við verðum að trúa því að einhver tilgangur sé með þessu.

Seinni árin völdum við tvær að kveðjast ætíð með þéttu faðmlagi, sem sagði okkur allt sem þurfti. Þannig vil ég kveðja þig í huganum, kæra vinkona mín. Vinátta þín var mér mikilis virði og gleymist ekki. Um þig er auðvelt að segja að þú hafir verið gull af manni og gott að hafa átt þig að. Ég bið Guð að umvefja þig kærleika og við Stefán og fjölskyldan okkar vottum ykkur öllum, sem Hönnu voru kærastir, einlæga samúð og biðjum Guð að vaka yfir ykkur og gefa ykkur styrk.

Árný.

Gleðin er léttvæg og lánið er valt.

Lífið er spurning sem enginn má svara.

Vinirnir koma, kynnast og fara.

Kvaðning til brottfarar, lífið er allt.

(Freysteinn Gunnarsson)

Tími fyrsta aðventukertisins var að fjara út þegar Hanna okkar lauk lífsgöngu sinni. Þá göngu fór hún mannkostaskrefum, með átakalausri lotningu fyrir lífsins höfundi. Ósérhlífni og vinnusemi voru hennar. Aldrei miklaðist hún af verkum sínum, en gegndi öllu hóli með því að vísa til þess að aðstæður leyfðu slíkt.

Fyrstu kynni okkar saumaklúbbssystra voru í Húsmæðraskóla Reykjavíkur veturinn 1958-59. Þar sátu 40 yngismeyjar og bjuggu sig undir framtíðina. Hanna hafði á þessum árum kynnzt lífsförunauti sínum, Markúsi Á. Einarssyni.

Við héldum svo allar áfram lífsgöngunni, hver með sínum hætti. Kjarni myndaðist sem hittist reglulega og eftir því sem á lífsgönguna leið, urðum við nánari vinkonur, sem deildum saman gleði og sorg. Makar okkar komu nær og deildu með okkur vináttunni.

Síðan höfum við sýnt hvert öðru systkinaþel án orða.

Eiginmaður Hönnu lézt fyrir fimm árum. Áður höfðum við misst Kristínu Sólveigu. Og nú kveður Hanna hópinn. Við höfum reyndar alltaf vitað, að vinakeðjan okkar myndi færast á æðra svið. Við vitum líka, að vinir okkar stíga nú lífsdansinn í eilífðinni. Og þar munum við öll taka þátt að lokum.

Blessuð sé minning mætrar konu.

Saumaklúbbssystur og makar.

Fyrir tæpum 20 árum var stofnað í Hafnarfirði Systrafélag Víðistaðasóknar.

Í dag kveðjum við eina af frumkvöðlum okkar, Hönnu Hálfdanardóttur, sem frá fyrstu stundu var ætíð boðin og búin að gera allt fyrir kirkjuna og félagið okkar. Aldrei skoraðist Hanna undan, ef hún var beðin um eitthvað. Oftar bauð hún fram krafta sína að fyrra bragði. Það er örugglega engin nefnd til í félaginu sem hún hefur ekki starfað í, og síðast var hún með okkur í aðventukaffinu í kirkjunni 28. nóvember sl. Hanna var ein af okkar traustustu félagskonum og gat hún alltaf fundið jákvæðu hliðarnar á flestum málum, þegar til hennar var leitað. Hanna sat í stjórn félagsins árin 1985 til 1987. Systrafélagið kveður nú með virðingu og söknuði einn af máttarstólpum sínum, og eru henni þökkuð óeigingjörn störf sem unnin voru af alúð og gleði á liðnum árum. Fjölskyldu Hönnu vöttum við okkar dýpstu samúð.

Systrafélag Víðistaðasóknar.

Það er þyngra en tárum taki þegar við Þróttarstelpurnar hittumst til að setja niður nokkur minningarorð um Hönnu vinkonu okkar, sem kölluð var svo snögglega burt frá okkur.

Minningarnar hrannast upp, æskuárin á Grímstaðaholtinu þar sem flestar úr hópnum ólust upp með Hönnu og Kiddý yngri systur hennar.

Handboltinn, æfingar, kappleikir, æsku- og unglingsárin, fylgjast hver með annarri giftast eignast fjölskyldu og börnin.

Samstaða okkar í þau rúmlega fjörutíu ár í saumaklúbbi sem stofnaður var úr handknattleiksliðum í Knattspyrnufélaginu Þrótti er okkur öllum mikils virði.

Þar var Hanna einn sterkasti stólpinn, sá um peningahliðina, ávaxtaði fyrir okkur saumaklúbbssjóðinn, þannig að við gátum farið í margar ógleymanlegar utanlandsferðir ásamt mörgu öðru er við gerðum sameiginlega.

Allt þetta gerði Hanna á sinn hátt, ákveðin en hógvær. Hanna fór ekki varhluta af mótlæti í lífi sínu, styrk og þol sýndi hún þegar hún missti mann sinn Markús Á. Einarsson veðurfræðing á þeirra besta æviskeiði, en sú einstaka ást og umhyggja sem hún sýndi honum í veikindum hans var aðdáunarverð.

En ekki stóð hún ein, með börnum þeirra yfirunnu þau það mikla áfall, en þá kom annað högg, Hanna greindist með krabbamein, en hún vann sigur, studd af börnum, tengdadóttur og barnabörnum. Því kemur þetta ótímabæra fráfall hennar sem reiðarslag yfir fjölskylduna, og okkur vini hennar.

Í hljóðri bæn sendum við Þórdísi móður hennar, börnum, tengdadóttur, barnabörnum og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Við erum bara hluti af náttúrunni og líf okkar örstuttur áfangi á löngu þroskaferli, við erum eins og önnur blóm jarðar, sem ljúka upp ásjónu sinni að morgni og sofnum við hinsta sólargeisla.

Minningarnar um Hönnu munu færa birtu og yl inn í hjörtu þeirra sem hana þekktu, því allt sem lifað hefur lifir þótt það deyi og þeir sem getið hafa sér góðan orðstír lifa í huga þeirra sem manngildi kunna að meta.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi.

Hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibj. Sig.)

Þróttarstelpurnar,

Aðalheiður, Sveinbjörg, Elín, Erla, Gíslína,

Margrét, Helena, Helga,

Katrín og Steina.