KYNNING var haldin í Genúa á Norður-Ítalíu á íslenskri leiklist fyrir íbúa borgarinnar á dögunum. Kynninguna skipulagði leikhús í Genúa, Teatro della Tosse, með stuðningi íslenska menntamálaráðuneytisins og íslensku aðalræðismannsskrifstofunnar.

KYNNING var haldin í Genúa á Norður-Ítalíu á íslenskri leiklist fyrir íbúa borgarinnar á dögunum. Kynninguna skipulagði leikhús í Genúa, Teatro della Tosse, með stuðningi íslenska menntamálaráðuneytisins og íslensku aðalræðismannsskrifstofunnar. Viðstaddur var íslenski heiðurskonsúllinn í Genúa, Maria Cristina Rizzi. Í tilefni kynningarinnar komu til Genúa fulltrúar íslenskrar leiklistar Stefán Baldursson þjóðleikhússtjóri, Guðjón Pedersen leikstjóri, Baltasar Kormákur, leikstjóri og leikari, Árni Ibsen leikskáld og Helga I. Stefánsdóttir, leikmynda- og búningahönnuður, sem túlkaði fyrir viðstadda.

Inngangsorð flutti Sergio Manfredi, leikstjóri Teatro della Tosse en á eftir tók til máls Gianna Chiesa Isnardi, prófessor í skandinavískum bókmenntum og tungumálum við Háskólann í Genúa og höfundur rita um íslenskar bókmenntir og þýðingar bæði á fornbókmenntum og nútímaljóðum. Hún lýsti mjög fræðilega þróun íslenskrar menningar, tungu og samfélags. Íslensku gestirnir lýstu hins vegar einkennum og þróun íslenska leikhússins og gerðu grein fyrir starfsemi Þjóðleikhússins, Borgarleikhússins og Íslensku óperunnar og einnig minni leikhúsa og leikfélaga. Sérstök áhersla var lögð á mikla þátttöku áhorfenda í öllum leikhússýningum, að barnasýningum meðtöldum; fyrirlesarar sögðu hana vera meiri en í mörgum Evrópulöndum. Þeir bentu líka á mikla framför íslenska leikhússins, á það hversu nýtískulegt það væri og á samfellda nýsköpun í textum, túlkun og sviðsetningu sem hefur skapast með árunum, meðal annars sökum mikillar reynslu leikhúsfólksins í útlöndum. Einnig var talað um mikilvægi leikhússins á Íslandi ekki bara sem menningarmiðill í almennri merkingu heldur líka sem magnað tæki til verndar íslenskri tungu.

Áheyrendur í Genúa sýndu mikinn áhuga og báru fram fjölmargar spurningar, bæði um leikhúsið sjálft og um íslenska samfélagið almennt. Upptökur úr nýlega sviðsettum leikritum í Reykjavík voru sýndar undir lok kynningarinnar, meðal annars úr Gullna hliðinu og var þeim mjög vel tekið.

Kynningunni lauk með þeirri ósk að samstarfi yrði komið á sem fyrst á milli leikhúsa landanna tveggja til þess að styðja gagnkvæm samskipti á sviði menningar.

Genúa. Morgunblaðið.