Mike og sonur hans Mike Handley (Magnús Magnús Magnússon) hafa sérstakt dálæti af því að fara saman í sund. Feðgarnir stefna að því að synda í öllum sundlaugum á Íslandi áður en langt um líður.
Mike og sonur hans Mike Handley (Magnús Magnús Magnússon) hafa sérstakt dálæti af því að fara saman í sund. Feðgarnir stefna að því að synda í öllum sundlaugum á Íslandi áður en langt um líður.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hollywood, Washington D.C., Los Angeles. Anna G.

Hollywood, Washington D.C., Los Angeles. Anna G. Ólafsdóttir stóðst ekki mátið og spurði Mike Handley þul, blaðamann og leikara með meiru hvers vegna í ósköpunum stórborgarbúi hefði slitið upp ræturnar til að setjast að í "svölustu" höfuðborg í heimi. Karl Bretaprins, Martin Sheen, FBI, Washington Post, Ensk málstöð og Latibær að ógleymdum Magnúsi Magnúsi Magnússyni bar á góma á meðan síðustu sólargeislarnir hörfuðu undan myrkvuðu síðdeginu í miðborg Reykjavíkur í vikunni.

WASHINGTON D.C. er góð borg, Los Angeles betri og Reykjavík langbest. Reykjavík hefur töfrað mig upp úr skónum. Nú á ég heima á Reynimelnum og hlakka ekki til að þurfa að fara í viðskiptaerindum til Bandaríkjanna eftir fáeinar vikur. Maður lifir aðeins einu sinni og ber skylda til að láta sér líða vel. Íslendingar verða að fara að skilja að aðdráttarafl Íslands er ekki aðeins fólgið í náttúrunni. Hvergi hef ég upplifað jafn siðmenntað, nútímalegt, öruggt, skemmtilegt og töfrandi samfélag og á Íslandi."

Mike Handley brosir og bandar frá sér furðusvip blaðamannsins. Af yfirvegun útskýrir hann að æ fleiri Bandaríkjamenn hafi sömu sögu að segja og vilji koma aftur og aftur til Íslands. Hvernig er heldur hægt að líta fram hjá manninum að baki orðanna? Mike Handley býr ekki aðeins yfir víðtækri reynslu af því að tala inn á hvers kyns sjónvarps- og kynningarefni í Bandaríkjunum. Hann hefur leikið í kvikmyndum, skrifað greinar í virt blöð og tímarit, fyrir utan að hafa verið virkur í markaðssetningu Íslands í Bandaríkjunum. Ekki alls fyrir löngu hleypti Mike af stokkunum fyrirtækinu Ensk málstöð í Hafnarstræti í Reykjavík. Fyrirtækið sérhæfir sig í að veita fyrirtækjum og stofnunum aðstoð við þýðingar og fínpússningu á enskum texta með erlend málasvæði í huga.

Mike Handley er fæddur í Norfolk í Virginíu-ríki í Bandaríkjunum og ólst að hluta til upp í Frakklandi á unglingsárunum. Hann stundaði m.a. nám í College of William & Mary, American University og Sorbonne í París og er með BA-gráðu í frönsku og fjölmiðlun með áherslu á ljósvakamiðla.

"Ef ég týndi röddinni - myndi ég stela Handleys," segir Jim Bohannon í Mutual Broadcasting og fleiri gætu eflaust tekið undir þau orð. Mike kímir og upplýsir hvenær hann hafi fyrst farið að velta því fyrir sér að röddin gæti orðið honum að gagnlegu verkfæri. "Ef ég ætti að velja eitt atvik myndi ég segja frá því þegar ég ætlaði einu sinni að hringja nafnlaust í eina stelpu í bekknum á unglingsárunum. Ekki halda að ég hafi ætlað að vera með einhvern sóðakjaft! Þvert á móti, því ég var aðeins til baka og ekki alveg tilbúinn til að standa við tilfinningar mínar. Aftur á móti var ég varla búinn að stynja upp fyrsta orðinu þegar hún hrópaði upp yfir sig og í gegnum símalínuna. "Mike Handley - enginn annar í öllum heiminum hefur svona rödd!" Í Frakklandi komst ég fyrst að því að ég væri með áberandi suðurríkjahreim. Ég hafði verið að taka upp á band til að senda pabba í Bandaríkjunum og ákvað að hlusta aftur á upptökuna enda hafði ég ekki sagt stakt orð í ensku í fjóra mánuði. Röddin hljómaði ókunnuglega og hreimurinn var hræðilegur. Með töluverðri vinnu tókst mér á þremur til fjórum árum að losna við hreiminn."

Fyrsta starfið eftir háskólanámið var á útvarpsstöð. "Eftir þrjú ár var ég farinn að ókyrrast og fannst kominn tími til að söðla um. Niðurstaðan varð að vinna sjálfstætt við þularstarfið. Sjálfstæður var ég í 21 ár og líkaði vel. Ég var frjáls og fékk oft vel borgað fyrir litla vinnu. Vinir mínir hafa stundum spurt mig að því hvort mér finnist ekki óþægilegt að búa við óöryggið af því að vita ekki hvaðan næsti launaseðill komi. Nei, ef verkefni gengur ekki upp kemur annað upp í hendurnar á mér o.s.frv. Annar kostur við að vinna hjá sjálfum sér er að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að vera kallaður inn á skrifstofu og rekinn!

Fyrir utan þularstarfið hef ég tekið mér ýmislegt fyrir hendur í gegnum tíðina. Ég hef fínpússað texta, t.d. talsvert fyrir ríkisstjórn Bandaríkjanna og ýmis stórfyrirtæki. Greinar eftir mig hafa birst í Washington Post, Miami Herald, New York Daily News, Minneapolis Star Tribune, Independent (UK), New Zealand Herald, Australian að ógleymdu Morgunblaðinu."

Karl prins slæmur í málfræði

Greint er frá gagnrýni Mikes á málfar Karls Bretaprins í The Washington Post árið 1995. "Karl er oft að tala um að Bretar tali mun betri ensku heldur en Bandaríkjamenn og aðrar enskumælandi þjóðir þegar staðreyndin er að enska hefur tekið mun minni breytingum í Bandaríkjunum en í Bretlandi í aldanna rás. Hann er heldur ekki barnanna bestur sjálfur því hann getur varla talað lengur en í tvær mínútur samfleytt án þess að gera á bilinu tvær til þrjár alvarlegar málfræðivillur. "Hvernig stendur á því að hann kemst upp með að tala svona?" hugsaði ég og lét ekki sitja við orðin tóm heldur skrifaði honum bréf. Ekki leið á löngu þar til svar barst frá ritara Karls. Annars held ég að Karl hafi sjálfur skrifað svarið því að bréfið var afar elskulega orðað og meðfylgjandi var afrit af nýlegri ræðu prinsins. Ræðunni var greinilega ætlað að afsanna að prinsinn talaði ekki fyrirmyndar ensku. Annað kom á daginn þegar ræðan var skoðuð því í henni leyndust hræðilegar málfræðivillur. Ég gerði grein fyrir því í öðru bréfi til prinsins og hélt að þar með væri málinu lokið. Öðru nær, prinsinn hélt áfram að halda því fram að við töluðum ekki eins góða ensku og Bretar. Aftur gerðist því miður þörf á því að setja ofan í við hann því honum hafði ekki tekist að koma skilaboðunum skammlaust frá sér. Ég skrifaði grein í The Washington Post og fékk viðbrögð frá höllinni aðeins þremur dögum síðar. Ritari prinsins hefur væntanlega skrifað bréfið því að stíllinn var allt annar en í fyrra bréfinu. Þar heldur hann því fram að prinsinn hafi brugðið fyrir sig gamaldags fallnotkun. Svarið var gjörsamlega út í hött og ekki svaravert."

Mike hefur skrifað tvær greinar í Morgunblaðið. Annars vegar um hvernig Finnar hafa viljað eigna sér jólasveininn. Hins vegar um hvernig farsælast væri að markaðssetja Ísland í Bandaríkjunum. "Mér finnst gaman að segja frá því að þrjár af ábendingum mínum hafa þegar orðið að veruleika. Hið fyrsta er að skömmu eftir birtingu greinarinnar var farið út í gerð kynningarmyndbands um land og þjóð til að sýna í flugvélum Flugleiða á leið yfir Atlantshafið. Annað er að markaðssetning á landinu snýst ekki lengur aðeins um náttúruna heldur er þjóðin og menningin komin inn í myndina. Þriðja er að Íslendingar eru loksins farnir að kynna hugsanlega tökustaði á Íslandi í Hollywood. Annars eru Íslendingar stundum full íhaldssamir og gætu auðveldlega nýtt sér ýmis frábær tækifæri til landkynningar á erlendri grund. Bandaríska SCOLA-fræðslusjónvarpið bauðst til að sýna klukkustundar langar kennslustundir í íslensku á hverjum degi í að minnsta kosti þrjú ár fyrir um 3 til 4 árum síðan. Þrátt fyrir að eini kostnaðurinn fælist í gerð myndbandsins var tilboðinu hafnað á sínum tíma. Annars stendur svo sem tilboðið enn og hver veit nema íslensku ríkisstjórninni snúist hugur. Stöð 2 var hins vegar ekki lengi að grípa tækifærið og koma á samstarfi við SCOLA. Fleiri áhorfendur SCOLA, ekki aðeins í Bandaríkjunum og Kanada heldur í gegnum Netið úti um allan heim, horfa á úrval úr þáttunum "Ísland í dag" en áhorfendur eru að jafnaði á Íslandi. Áhorfendahópurinn er auðvitað ekki sérstaklega stór á bandarískan mælikvarða. Hinu er ekki að leyna að áhorfendurnir eru áhugasamir og án efa er nokkuð stór hópur tilbúinn til að leggja á sig nokkurt erfiði til að læra grundvallaratriðin í íslensku. Ég get nefnt því til staðfestingar að endirinn varð sá að vísa þurfti talsvert stórum hópi frá þegar ég skipulagði íslenskukennslu í Washington D.C. fyrir nokkrum árum."

Leiðinlegt að leika í kvikmyndum

Fyrir venjulegan Íslending fylgir kvikmyndum og frægum kvikmyndastjörnum ákveðinn ævintýrablær. Mike er ekki ýkja hrifinn. "Umboðsskrifstofan mín sendi mig nokkrum sinnum í prufur fyrir aukahlutverk í kvikmyndum. Ég var auðvitað að reyna að koma sjálfum mér á framfæri og lét tilleiðast í nokkur skipti. Hins vegar hafði ég aldrei jafn gaman af því að leika í kvikmyndum og auglýsingum. Ég vakna fullur tilhlökkunar til að fara að leika í auglýsingu. "Ég er að fara að leika í auglýsingu - frábært!" hugsa ég og er fljótur að komast framúr. Allra skemmtilegast hefur verið að tala inn á auglýsingar fyrir forsetaframbjóðendur. Gaman að finna fyrir valdinu og koma ákveðinni tilfinningu til skila með leikrænum tilþrifum.

Kvikmyndaleikarar þurfa að vakna kl. 4 á morgnana. Dagurinn fer meira og minna í að bíða. Biðin er frekar óskemmtileg og vinnan reyndar heldur ekkert sérstaklega vel borguð. Nema auðvitað að leikarinn sé stjarna. Jú, ég hef unnið með frægum leikurum, t.d. Lou Gossett, James Garner, Lloyd Bridges og Martin Sheen. Engum þeirra kynntist ég sérstaklega vel og hafði ekkert endilega áhuga á frekari kynnum. Mér hefur stundum sýnst ég geta séð í gegnum fólk í spjallþáttum eins og sannaðist á Lloyd Bridges. Tveggja daga daga vinna með honum breytti í engu því áliti mínu að hann væri ekkert sérstaklega skemmtilegur í umgengni.

Skemmtilegra var hvernig ég kynntist kvikmyndastjörnunni Martin Sheen. Ég hafði fengið smáhlutverk í kvikmyndinni Blind Ambition um fall Nixons á forsetastóli og var mættur á tökustað snemma um morgun. Martin var mættur til að fara með aðalhlutverkið og kom til mín til að kynna sig. Ég hafði ekki hugmynd um að hann væri fræg kvikmyndastjarna og spurði því eins og ekkert væri sjálfsagðara hvort að hann væri leikstjórinn. Spurningin kom greinilega flatt upp á hann. "Ég er Martin - Martin Sheen," endurtók hann. Ég yppti öxlum og velti því ekki frekar fyrir mér fyrr en um kvöldið. Hvað heldurðu, á þremur af fjórum sjónvarpsrásum í sjónvarpinu var annaðhvort verið að sýna kvikmyndir eða spjallþætti með Martin Sheen. "Hvílík skömm," hugsaði ég. "Nú heldur hann örugglega að ég sé enn einn afbrýðisami leikarinn."

Um tíu árum síðar hittumst við aftur. Martin sagði að svipurinn á mér virkaði kunnuglegur á sig. Hvað gat ég gert? Ég sagði honum allt af létta og hann var fljótur að muna eftir atvikinu. Hann virtist fínn náungi enda fór vel á með okkur þarna um kvöldið. Annars stóð mér sjaldnast til boða að leika í mjög frægum kvikmyndum. Nema ef til vill þegar ég átti að leika hlutverk sjónvarpsfréttamannsins í kvikmyndinni Murder at 1600 með Wesley Snipes. Ekkert varð hins vegar úr því enda átti ég pantað far til Íslands á tökudaginn og þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um áður en ég hafnaði tilboðinu."

Mike var góðkunningi hins heimsþekkta rabbara Larry King á tímabili. "Við vorum báðir að koma okkur á framfæri og komum stundum saman til að spjalla í hádeginu. Larry vildi að ég sæi um að kynna sig í þættinum í kringum árið 1982. Verkalýðsfélagið taldi að fyrir 15 mínútna vinnu aðra hverja viku ætti útvarpssamsteypan að borga mér 40.000 dollara á ári. Útvarpssamsteypunni fannst upphæðin alltof há fyrir jafn litla vinnu og vildi greiða mér meira fyrir fast starf. Ég vildi ekki binda mig og áformin runnu út í sandinn. Núna er gaman að segja frá því að Larry spurði mig einu sinni að því hvort að ég héldi að hann ætti að stefna á frama í sjónvarpi. Kurteislega benti ég honum á að prófa að taka upp nokkur atriði, horfa á sjálfan sig og athuga hvað honum fyndist! Á þeim tíma var erfitt að spá fyrir um hverjar vinsældir hans ættu eftir að verða í sjónvarpi. Ég hef ekkert nema gott um Larry að segja og hann er frábær - einn af fimm bestu - á sínu sviði. Ég veit að sumir fjölmiðlamenn myndu segja að hann væri algjör asni. Hann kom aldrei þannig fram við mig á meðan við vorum vinir."

Á röngu augnabliki

"Auðvitað hafa komið upp vandræðaleg augnablik á ferlinum," segir Mike og hugurinn leitar aftur til háskólaáranna. "Sagan gerðist þegar ég var í háskóla og í fullu starfi við svæðisbundna sjónvarpsstöð. Ég hafði beðið yfirmann minn um að fá frí meðan ég væri í prófum. Hvernig stóð á forföllunum man ég ekki lengur, en ég var beðinn um að koma fram í beinni útsendingu til að lesa íþróttir eftir að hafa haldið mér vakandi í fjóra og hálfan sólarhring. Ég hafði ekkert vit á íþróttum og var alls ekki í ástandi til að koma fram í beinni útsendingu. Ekkert þýddi að mótmæla enda var mannahallærið algjört. Á hægri hönd var bunki af blöðum með helstu íþróttaúrslitum vikunnar. Ég byrjaði að lesa og gekk þolanlega þar til ég datt skyndilega út og rankaði ekki við mér fyrr en eftir smástund. Enn verra var að ég hafði ekki hugmynd um hvað ég var kominn langt með lesturinn. Ég vissi ekki mitt rjúkandi ráð, vöðlaði blöðunum saman og fleygði í burtu um leið og ég sagði: "Jæja, nú er nóg komið af þessu" enda gat ég með engu móti munað orðið fyrir úrslit."

Aftur birtir yfir andliti Mike. " Ég var að tala inn á fræðslumyndband gegn eiturlyfjanotkun fyrir FBI í einu af verri hverfum Washington-borgar. Myndavélin var hinum megin götunnar og allt í kring voru lögreglumenn og yfirmenn hjá FBI að fylgjast með tökunni - örugglega um 30 talsins. Allt í einu kemur ökumaður á fleygiferð á bíl eftir götunni, keyrir yfir fótinn á fótgangandi manni og ætlar að flýja af hólmi. Ökumaðurinn hefði varla getað valið sér verri stund eða stað til að fremja jafn alvarlegan glæp. Nánast öll hersingin fleygði sér á bílinn og auðvitað var allt fest á filmu."

Fyrirferð í fínpússi

Mike kom fyrst til Íslands fyrir fimmtán árum. "Ég var aðeins í 1 ½ dag á Íslandi í fyrsta skiptið árið 1985. Hvað gerðist veit ég ekki. Aðeins að ég var friðlaus þangað til ég fékk tækifæri til að dveljast hér í tvær vikur haustið eftir. Íslandssóttin ágerðist og fór að snúast um hvort ég gæti hugsanlega flutt til Íslands. Ekkert varð hins vegar úr því á þeim tíma. Sonur minn fæddist og tíminn fór í annað næstu árin. Tengslin við Ísland efldust að nýju með starfi mínu fyrir Íslensk-Ameríska félagið í Washington uppúr 1992. Ég notaði hvert tækifæri til að komast til Íslands. Fyrir kom að ég borgaði með mér til að komast í verkefni á Íslandi. Eftir að ég heillaðist af Íslandi var ég fljótur að átta mig á því að ég gæti ekki unnið fyrir mér með þularstarfinu hér á landi. Eina leiðin var því að grípa til eigin ráða í því skyni að skapa atvinnutækifæri."

Hugmyndin kom upp í hendurnar á Mike fyrir nokkrum árum. "Forstjóri íslensks stórfyrirtækis var að sýna mér glæsilegan kynningarbækling frá fyrirtækinu. Ég handlék bæklinginn og dáðist að útlitinu þegar ég kom auga á villu í textanum, aðra og enn aðra. Í fyrsta kaflanum voru hvorki fleiri né færri en þrjár villur og ekki var framhaldið skárra. "Jú, sjáðu til. Peningar voru ekki vandamálið. Við vorum einfaldlega alltof seinir og gáfum okkur ekki tíma til að fá fagmann til að líta yfir textann," sagði forstjórinn vandræðalega. Fagmaður hefði aðeins þurft um klukkutíma til að fara yfir textann og lagfæra alvarlegustu hnökrana áður en bæklingurinn var sendur út um allan heim í þúsundum eintaka. Hugmyndin að Enskri málstöð hafði kviknað!

Fjórum get ég umfram öðrum þakkað að Ensk málstöð varð að veruleika, Jóni Ögmundi Þormóðssyni, skrifstofustjóra í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, Ara Trausta Guðmundssyni, Bernard Scudder þýðanda og Einari Níelsen og fjölskyldu hans, þ.e. eigendum Rammagerðarinnar. Skrifstofuhúsnæðið fyrir ofan Rammagerðina er hinum síðastnefndu að þakka eins og fleira. Stofnun fyrirtækisins gekk reyndar ótrúlega vel og samkvæmt áætlun ólíkt því hvernig oft hefur gengið með fyrirætlanir mínar. Reksturinn hófst af fullum krafti í sumar. Fleiri og fleiri nýta sér þjónustuna svo fyrirtækið þenst út. Núna erum við með starfsmenn frá fimm mismunandi enskum málsvæðum. Vinnan skiptist gróflega í tvennt. Í um 30% tilvika í þýðingarvinnu og þýðendurnir eru aðeins fullkomlega tvítyngdir Íslendingar. Í um 70% tilvika felst síðan vinnan í að fínpússa enskan texta eftir Íslendinga. Oft vantar ekkert á að textarnir séu 100% málfræðilega réttir. Aftur á móti verður að viðurkennast að oft er orðalagið alls ekki eðlilegt. Fyrirtækið leysir ekki aðeins úr því heldur getur fært orðalagið nær orðfæri íbúa á viðkomandi málsvæði, t.d. höfum við sérstakan starfsmann til að fara yfir orðfæri með tilliti til enskumælandi málsvæðis í Suður-Afríku.

Önnur algeng mistök felast í einhæfri eða beinlínis rangri orðnotkun. Íslendingar t.d. benda á hús og tala á ensku um house. Gallinn er bara að í ensku merkir house aðeins heimili. Annars konar húsnæði undir atvinnustarfsemi er building."

Latibær á enskri tungu

Mike segist vera að skemmta sér við að finna ensk nöfn á íbúa Latabæjar þessa dagana. "Annars verð ég að viðurkenna að ég var ekki ýkja hrifinn af því að taka að mér verkefnið til að byrja með. Magnús Scheving hringdi í mig og reyndi að útskýra fyrir mér út á hvað sagan gengi. Hann gafst ekki upp og tókst að telja mig á að koma á sýningu í Þjóðleikhúsinu. Ég varð stórhrifinn og hef átt erfitt með að slíta mig frá því að hugsa um hvaða nöfn gætu hentað best hverri persónu. Á ég að gefa þér dæmi? Jú, bæjarstjórinn á auðvitað erfitt. Hann er strengjabrúða og vanhæfur til að stjórna bænum. Aftur á móti vill hann vel og er því "Mayor Meanswell." Að vinna með Magnúsi hefur verið alveg frábært og skilað sér í því að um 75% íbúanna hafa þegar fengið ný ensk nöfn.

Ég get s.s. ekki kvartað yfir viðbrögðunum við fyrirtækinu. Reksturinn blómstrar og starfsmannafjöldinn vex hratt. Annars starfa flestir heima. Ég sé ekki ástæðu til að fá fólk til að koma til að vinna á skrifstofunni þegar jafn gott er að starfa heima. Sjálfur er ég álíka mikið úti og inni á skrifstofunni. Í nógu er að snúast. Áður en texti fer frá okkur hefur hann farið í gegnum prófarkalestur tvisvar til þrisvar sinnum. Að lokum hef ég sjálfur litið yfir útkomuna. Núna er orðið erfitt fyrir mig að komast yfir allan textann. Í framtíðinni býst ég við að fá annan til að stýra fyrirtækinu.

Ég vinn ýmis verkefni fyrir bandarísk fyrirtæki og stofnanir héðan frá Íslandi. Ég fæ leiðbeiningar í gegnum síma, tala inn á band og sendi afraksturinn til baka um morguninn. Ferlið er raunar ekkert frábrugðið því að vinna í Bandaríkjunum. Ekki er heldur ómögulegt að vinna fyrir bandarískt sjónvarp á Íslandi eins og sannaðist þegar ég var hér í fjóra mánuði árið 1998. Ég hafði í hverri viku lagt á mig um 30 km ferðalag til að geta talað inn á fréttaþáttinn News Beat með þinghúsið í Washington í bakgrunni og vildi ekki missa af því á meðan ég var á Íslandi. Eftir að hafa velt því fyrir mér fram og til baka hvernig hægt væri að koma því við sneri ég mér til Saga Film með myndband af þinghúsinu í farteskinu. Saga film varpaði myndinni á svokallaðan "Græna skjá." Fyrir framan stóð ég og taldi áhorfendum trú um að ég talaði frá þinghúsi þjóðarinnar - enginn vissi hvaða þjóðar!"

Magnús Magnús Magnússon

Þrisvar segist Mike hafa komist nálægt því að kvænast. Aldrei hafi hann hins vegar komist alla leið upp að altarinu. "Ég var lengi í sambandi við barnsmóður mína. Okkur leið vel saman og hún stakk upp á því að við eignuðumst barn. Hún hélt að ég yrði hissa. Þvert á móti hafði ég verið að velta því sama fyrir mér stuttu áður. Við eignuðumst Mike og höfum alið hann upp í fullkominni sátt. Honum er reyndar illa við að vera kallaður Mike hér á Íslandi. Hann hefur tekið upp íslenskt nafn, eins og ég gerði á sínum tíma, ég hét Michel í Frakklandi. Við fundum út að líkast Mike væri Magnús og af því að við heitum sama nafni heitir hann Magnús Magnússon. Íslendingur hélt því fram að nauðsynlegt væri að velja millinafn. Sonur minn var fljótur að stinga upp á því að hann héti Magnús að millinafni. Hann er örugglega eini Magnús Magnús Magnússoninn á Íslandi! Okkur kemur ágætlega saman og höfum gaman af því að leika í snjónum, fara í bíó og sund. Ég get ekki hugsað mér betra land til að ala upp barn og gæti vel hugsað mér að eignast fjölskyldu og fleiri börn. Hérna þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því að ráðist sé á son minn á leiðinni til vinar síns í hverfinu um miðja nótt. Í Bandaríkjunum myndi ég horfa á eftir honum þangað til ég sæi að hurðinni hefði verið lokað á eftir honum á heimili vinar hans.

Hann fer til mömmu sinnar samkvæmt samkomulagi okkar á milli í haust. Ekki er hins vegar langt í að hann fái að velja sjálfur hvar hann vill búa. Annars er leiðinlegt að hann þurfi að fara frá Íslandi þegar hann er að ná íslenskunni og eignast íslenska vini. Fyrst fór hann úr tímum í Melaskólanum til að fá sérkennslu í íslensku. Honum fannst leiðinlegt að fylgja ekki bekknum í öllum tímum og stakk því upp á því að fara frekar í Námsflokkana á kvöldin. Hann er duglegur strákur og finnst frábært að eiga heima á Íslandi."