Í NÍTJÁN manna rútunni, sem lenti í umferðarslysinu á Vesturlandsvegi á föstudagskvöld voru sex starfsmenn Úrvals-Útsýnar, sumir ásamt mökum og vinum.

Í NÍTJÁN manna rútunni, sem lenti í umferðarslysinu á Vesturlandsvegi á föstudagskvöld voru sex starfsmenn Úrvals-Útsýnar, sumir ásamt mökum og vinum.

"Við erum harmi slegin," sagði Hörður Gunnarsson, forstjóri Úrvals-Útsýnar, í samtali við Morgunblaðið. "Eftir því sem ég best veit er okkar starfsfólk ekki alvarlega slasað, sem betur fer, en þrír meiddust og þrír fengu mikið áfall. Ég veit að okkar fólk er í góðri umsjón. Að sjálfsögðu þurfa þau sinn tíma til að jafna sig og þau fá þann tíma."

Hörður sagði að fólkið væri meðal um 40 starfsmanna í innanlandsdeild fyrirtækisins, sem starfar við innflutning erlendra ferðamanna, og sagðist ekki eiga von á að slysið hefði bein áhrif á starfsemi fyrirtækisins.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær var rútan sem lenti í slysinu önnur tveggja í samfloti að flytja 60 manna hóp starfsfólks ferðaskrifstofa í óvissuferð í Skagafjörð. Fjölmörgum úr aftari rútunni var veitt áfallahjálp. Í samtölum Morgunblaðsins við starfsfólk Sjúkrahúss Reykjavíkur kom fram að fólkið í hópnum hefði þekkst vel; þarna voru á ferð vinnufélagar, kollegar og viðskiptafélagar, sumir með maka og vini.