Sérkennilegt hótel byggt utan í fjallshlíð í nágrenni Puerto Rico.
Sérkennilegt hótel byggt utan í fjallshlíð í nágrenni Puerto Rico.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í huga flestra standa Eldfjallasysturnar sjö sem betur eru þekktar undir nafninu Kanaríeyjar, fyrst og fremst fyrir sól og sand, en þegar betur er að gáð hafa þær upp á margt annað að bjóða. Kristín Heiða Kristinsdóttir reynir að fylgja þeirri reglu í ferðalögum rétt eins og í lífinu sjálfu, að taka fullyrðingar annarra um menn og staði ekki of hátíðlega

Gran Canaria er væntanlega sú eyja sem Íslendingar þekkja einna best í þessum eyjaklasa. Þó hún sé þriðja stærsta eyjan er hún ósköp smá, aðeins 1.533 ferkílómetrar og það er hægt að keyra hringinn í kringum hana á einum degi. En það er ástæðulaust að afgreiða ferðamöguleikana á eyjunni með því að æða af stað að morgni og koma heim að kveldi til þess eins að státa af því að hafa farið hringinn. Það er nefnilega önnur góð regla sem vert er að hafa í hávegum á ferðalögum og hún er að gefa sér góðan tíma og staldra við smáatriðin. Leyfa landinu og fólkinu að koma sér á óvart. Fara í útúrdúraferðir og láta nefið eitt leiða sig áfram. Velja sér vegaslóða sem enginn tekur sérstaklega eftir og athuga hvað kemur í ljós. Þannig má fá nasaþef af þjóðarsálinni og jafnvel finna fyrir hjartslætti innfæddra.

Haldið til fjalla

Með ofangreindar ferðalagsreglur í huga leigðum við, litla fjölskyldan, okkur bíl einn góðan veðurdag á Kanarí og keyrðum með suðurströndinni í vesturátt. Vegalengdirnar eru stuttar á Kanarí og fyrr en varði var Maspalomas að baki. Þegar þéttbýlinu sleppti opnaðist víðáttan út á hafið og upp til fjallanna. Það var óneitanlega hvíld frá ofverndaðri Ensku ströndinni, þar sem hávaxin hótel eru við hvert fótmál og ferðamenn í hverjum krók og kima. Hrjóstrugt landslagið, fjöll, klettar og hlykkjóttir vegir, kom huganum af stað og augun leituðu uppi konfekt smáatriðanna. Ákveðin tegund af veggjakroti hér og þar á ólíklegustu stöðum í formi yfirlýsinga var áhugaverð: Á ruslagám úti á víðavangi hafði þreföld ástarjátning verið máluð stórum stöfum: Ég elska Alvaro, Hidalgo og Alejandro. Og einhver hafði í góðu samræmi við umhverfið slett orðunum Paradise Lost, á vegg sem stóð einn og yfirgefinn í auðninni. Og á kletti í hrjóstrugu landslaginu var æpandi krafa um skilyrðislaust sjálfstæði frá Spánverjum sem einhverjir blóðheitir í baráttuhug höfðu komið á framfæri. Og litlu hversdagslegu hlutirnir héldu áfram að gleðja okkur. Við mættum fjörgömlum karli sem mjakaðist áfram á vespunni sinni með hund sitjandi fyrir framan sig eins og vegvísi. Uppi í hlíðunum mátti sumstaðar sjá hreysi sem í fljótu bragði virtust gripahús en reyndust vera mannabústaðir, kannski sígaunaheimili. Og lítil sveitaþorp kúrðu enn hærra uppi í fjöllunum. Síðan tók hver litla ströndin við af annarri þar sem sjórinn leitaði inn á milli kletta og fjalla. Hótel sem og aðrar byggingar héngu utan í hlíðum fjallanna og það er óhætt að mæla með heimsókn til Puerto Rico-strandarinnar sem og annarra í nágrenni hennar. Þar kemst maður að því að strönd er ekki bara strönd heldur ekki síður það umhverfi og stemmning sem umlykur hana. Á þessu svæði er líka hægt að fara í spennandi siglingar.

Lítil þorp og göngugarpar

Og við héldum áfram til fjallahéraðsins Mogan og þefuðum af þessum yndislegu litlu þorpum þar sem takturinn er hægari en í þéttbýlinu og fólk gefur sér tíma til að spjalla. Við stöldruðum við hér og þar og tókum fólk tali á förnum vegi, fengum okkur kaffi á heimilislegum pínulitlum kaffihúsum og slökuðum á. Síðan þvældumst við enn lengra inneftir og okkur til undrunar var greinilega mikið um gönguleiðir á þessu svæði, því víða mátti sjá fólk feta sig áfram eftir slóðum sem lágu hvarvetna í fjallshlíðum sem og á láglendinu. Við höfðum ekki tök á að bregða okkur í göngutúr þar sem ársgamall sonur okkar var engan veginn útbúinn til slíkra ferðalaga. Svo við keyrðum áfram inn úr og upp í snarbratt fjall á svo þröngum vegi með svo krappar beygjur að við töldum heillavænlegast að hætta okkur ekki mikið lengra. Við snerum við og gerðum stuttan stans á Strönd elskendanna og kútveltumst þar í síðdegissólinni með klettabelti á báðar hendur. Síðan völdum við af handahófi afleggjara sem lá inn til landsins. Eftir því sem innar dró var ekki laust við að læddist að okkur grunur um að fjöllin ætluðu að gleypa okkur. En þetta snýst jú allt um hugarfar og við ákváðum að taka ágengri nærveru hárra fjalla fagnandi, láta þau umvefja okkur í rökkrinu. Þessi djúpi dalur virtist vera botnlaus og fyrr en varði vorum við komin lengst upp í sveit og stemmningin einkenndist af kyrrð. Alltumvefjandi fegurð náttúrunnar gerði okkur auðmjúk og þakklát. Og í beinu framhaldi af slíku hugarfari fóru handmáluð slagorð á stórum steinum að hrópa á okkur, mitt í auðninni þar sem engan mann var að sjá svo langt sem augað eygði: Cristo viva (Kristur lifi) og Jesus salva (Jesús líknar).

Slökun í faðmi náttúrunnar

Það var farið að bregða birtu þegar við keyrðum inn í El Horno, lítið þorp sem lét ekki mikið yfir sér þarna lengst inni í skuggadalnum og var blessunarlega laust við öll æpandi neonskilti. Glóaldin sem kennt er við suðrið óx þar á hverri grein og bambus setti ekki síður svip á þorpið. Gamlir menn sátu á einhverskonar brúsapöllum og studdust fram á staf sinn í stóískri ró. Ekki gott að segja hvort þeir voru að brjóta heilann um grundvallarspurningar lífsins eða bara að horfa út í loftið og hugsa ekki neitt. Svo dæmalaust afslappaðir. Og hljómur þagnarinnar umvafði okkur í þessum fjallasal. Það er eins og hægist á andardrættinum og allri líkamsstarfsemi í svona umhverfi. Við rönkuðum við okkur þegar komið var fram á harðakvöld og sáum að tímabært var að koma börnunum heim og í háttinn. Við dóluðum okkur til baka í svartamyrkri og þó kílómetrarnir sem við lögðum að baki hafi ekki skipt hundruðum, þá vorum við ansi ánægð með það góða safn sem hafði bæst í sarpinn.