[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvítvín frá Ungverjalandi, Spáni, Frakklandi og Ástralíu koma við sögu hjá Steingrími Sigurgeirssyni að þessu sinni auk rauðvína frá Suður-Afríku, Spáni, Ítalíu og Ástralíu.

HARDYS Nottage Hill Chardonnay 1999 frá Ástralíu er nýtt í reynslu sölu. Sítrusilmur og perubrjóstsykur eru það fyrsta sem gýs upp úr glasinu. Í munni ferskt með snert af nýrri eik og niðursoðnum ávöxtum. Klassískt nýjaheimsstílsvín í millistærðarflokki.

Chateau Megyer Tokaji Furmint 1997 (1.030 krónur) er ungverskt hvítvín á sérlista. Soðin, græn epli, ferskar perur og rauðar rósir einkenna ilminn. Í munni kemur allbragðmikið vín í ljós með þykkum eplakenndum ávexti og nokkru sýrubiti. Skemmtilegt vín í stíl mjög ólíkum þeim alþjóðlega sem öllu tröllríður en samt vín sem flestum ætti að líka vel við.

Chateau Megyer Muscat (1.060 krónur) hefur magnaðan og mikinn ilm af hinni sérstöku múskat-þrúgu. Ilmjurtir og dísætir, sykurlegnir ávextir. Í munni þétt og mikið. Vín sem vafalítið er ekki allra en spennandi fyrir þá, sem vilja reyna eitthvað nýtt.

Domaine Laroche Bourgogne Téte de Cuvée 1998 (1.330 krónur) er einfaldur Búrgundar Chardonnay frá hinu góða Chablis-húsi Domaine Laroche. Mildur og fágaður ilmur þar sem greina má vott af ristuðum hnetum í bland við sætan sítrusávöxt. Sýra gefur ferskleika í munni. Ágætt þurrt matarvín, er ætti að henta með t.d. skelfiski.

African Sky (1.500 krónur) er eitt hinna suður-afrísku vína, sem nú eru loks farin að skjóta upp kollinum á sérlistanum í auknum mæli. Flöskumiðinn og nafnið virkuðu í fyrstu stuðandi á mig, það var líkt og verið væri að selja ímyndarafurð í stað rauðvíns. Vínið sjálft stóð hins vegar ágætlega undir sínu. Ilmur þungur, með rökum jarðvegi, leðri og hinni dæmigerðu suður-afrísku brenndu lykt. Þokkaleg þyngd og lengd og vínið um margt dæmigert fyrir hinn klassíska suður-afríska stíl, þótt það sé vissulega í mildari kantinum og ekki mjög kraftmikið.

Ricasole Formulæ er nýlegt í reynslusölu, en það kemur frá Barone Ricasole, einum traustasta framleiðanda Toskana-vína. Þetta er traust ítalskt matarvín í dæmigerðum Toskana-stíl, þar sem Sangiovese-þrúgan leikur aðalhlutverkið. Sultuð rifsber, krydd og te einkenna ilmkörfuna og hressandi tannín og sýra í munni gefa víninu afl og líf. Mjög góð kaup fyrir 1.150 krónur.

Hardys Nottage Hill Cabernet Shiraz 1998 (1.430 kr.) er vín frá suðausturhluta Ástralíu. Byrjar nokkuð lokað, með rauðum berjum enda vínið enn mjög ungt. Eftir því sem vínið fær lengri tíma í glasi opnar það sig meir og þykk plómusulta og súkkulaði koma í ljós. Mjúkt og milliþungt, með þægilegum, bragðgóðum keim.

Miguel Torres hefur fyrir langa löngu unnið sér sess sem einn helsti víngerðarmaður Spánar. Nú er í reynslusölu vínið Coronas 1996 sem er framleitt úr þrúgunni Tempranillo. Ilmur vínsins er ögn kryddaður í fyrstu, má greina sviðna eik og djúpan, þroskaðan ávöxt. Í munni kemur í ljós vel balanserað vín, nokkuð öflugt, þar sem Tempranillo (sem t.d. er uppistöðuþrúga Rioja-vína) nýtur sín vel. Góð kaup fyrir 1.020 krónur.

Frá Hoya-dalnum á Spáni koma tvenns konar vín, Cabernet Sauvignon og Merlot, bæði af árgerðinni 1995. Báðar víntegundirnar eru mildar og mjúkar, frekar í bandarískum stíl en spánskum. Það á raunar einnig við um útlit flasknanna. Rauð ber, allt að því hindber í Cabernet-víninu en í Merlot-víninu ögn af mjúku mjólkursúkkulaði í bland við jarðarber og plómur. Hvorttveggja slétt og fellt femínískt dömuvín og kemur nokkuð á óvart að Merlot-vínið er aflmeira. Hvorttveggja kostar 1.570 krónur.