HALLDÓR Björnsson, varaformaður Framsýnar, segir ekki koma til greina að leggja fram beiðni af hálfu stjórnar lífeyrissjóðsins, um að haldinn verði hluthafafundur í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins til þess að gera breytingar á nýkjörinni stjórn...

HALLDÓR Björnsson, varaformaður Framsýnar, segir ekki koma til greina að leggja fram beiðni af hálfu stjórnar lífeyrissjóðsins, um að haldinn verði hluthafafundur í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins til þess að gera breytingar á nýkjörinni stjórn bankans.

Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði Eyjólfur Sveinsson, varaformaður bankaráðsins, að næðist ekki fljótlega sátt um þá menn sem valist hafa til forystu í bankanum, komi til greina að skipta strax um menn. Hann sagði jafnframt að þeir hluthafar, sem stóðu að stjórnarkjörinu, myndu verða við beiðni lífeyrissjóðanna tveggja ef þeir bæðu um hluthafafund til að gera breytingar á stjórninni.

Í samtali við Morgunblaðið sagðist Halldór vilja sem minnst um þessi mál tala. "En mér finnst þetta svo víðáttuvitlaust að ég tek því nú sem hverju öðru gríni, ef ég á að segja alveg eins og er. Þetta vita menn sem eru í hlutafélögum, að það stendur sem kosið er á aðalfundum. Það er þá bara uppákoma, eða kannski misferli eða eitthvað slíkt sem kallar á að stjórnin segi af sér og að kjósa þurfi nýja stjórn. Ég hef aldrei látið mér detta í hug að þetta væri hægt. Beiðni um þetta verður ekki lögð fram, enda aldrei hvarflað að nokkrum manni."