MORGUNBLAÐIÐ hættir frá og með næstu mánaðamótum að innheimta áskriftargjöld með aðstoð blaðbera. Þess í stað geta áskrifendur valið um að greiða áskrift fyrir Morgunblaðið með greiðslukorti eða beingreiðslu.

MORGUNBLAÐIÐ hættir frá og með næstu mánaðamótum að innheimta áskriftargjöld með aðstoð blaðbera. Þess í stað geta áskrifendur valið um að greiða áskrift fyrir Morgunblaðið með greiðslukorti eða beingreiðslu. Þannig verður innheimtan einfaldari og þægilegri fyrir áskrifendur.

Um langan tíma hafa blaðberar Morgunblaðsins gegnt því starfi að innheimta áskriftir hjá stórum hópi áskrifenda. Örn Þórisson, áskriftarstjóri Morgunblaðsins, segir að þessi hópur hafi minnkað með hverju árinu enda rafræn viðskipti og kortaviðskipti orðin algeng. Fátíðara sé að áskrifendur hafi reiðufé á heimilum sínum og ljóst sé að þessi innheimtuaðferð er barn síns tíma. Örn segir enga leið fyrir óprúttna aðila að komast yfir greiðendaupplýsingar í þessum nútímalegu innheimtuaðferðum og örugglega létti mörgum, eftir næstu mánaðamót, að vita af því að blaðberar hætta að vera á ferðinni að kvöldlagi með reiðufé. Hann segir að þrátt fyrir breyttar innheimtuaðferðir haldi blaðberar óskertum launum.

Örn segir að áskrifendur geti með einu símtali í síma 800-6122 breytt greiðsluforminu í greiðslukort eða beingreiðslu. Eyðublað sem auðveldar útfyllingu nauðsynlegra upplýsinga verður sent áskrifendum á næstu dögum.