SAMNINGANEFNDIR Flóabandalagsins og Samtaka atvinnulífsins hafa fundað síðustu daga og segir Halldór Björnsson, formaður Eflingar, að viðræðurnar séu á góðu róli.

SAMNINGANEFNDIR Flóabandalagsins og Samtaka atvinnulífsins hafa fundað síðustu daga og segir Halldór Björnsson, formaður Eflingar, að viðræðurnar séu á góðu róli. Viðræður stóðu yfir fram á föstudagskvöld og síðan var þráðurinn tekinn upp aftur eftir hádegi í gær.

"Við erum farin að ræða nánast alla þætti samningsins, þ.m.t. launaþáttinn og menn hafa skipst á hugmyndum, en við vorum auðvitað búin að setja fram okkar hugmyndir í desember. Atvinnurekendur hafa verið að setja fram sín svör á móti okkur og við höfum verið að vinna fagvinnu með okkar hagfræðingum í að fara yfir þessar hugmyndir þeirra, hvað þær þýða o.s.frv."

"Á góðu róli"

Halldór sagðist ekki geta metið stöðuna nákvæmlega á þessu stigi, en viðræðurnar væru að hans mati á mjög góðu róli. "Maður getur ekkert séð fyrir endann á þeim, en það er í það minnsta verið að tala efnislega saman og það er auðvitað mikið mál. Það er farið beint í efni málanna og reynt að forðast miklar þrætubókarlistir. Þegar sérsamningarnir eru að hluta til frá og sumir skemmra komnir, þá eru þetta í sjálfu sér mjög einföld mál til að ræða þau. Það ætti því að koma fljótlega í ljós hvort við náum saman í þessu eða ekki."