[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FÓLK hefur mismunandi hluti til brunns að bera og hæfileikar þess eru á ólíkum sviðum (sem betur fer). Eldamennskan á ekki fyrir öllum að liggja og neistann vantar hjá mörgum, sem þó þurfa að fást við eldamennsku. Oft held ég þó að um þekkingar- og/eða tilraunaskort sé að ræða.

Stundum fæðist góð uppskrift fyrir tilviljun í eldhúsi ólærðra, en oft einnig fyrir tilstilli tilrauna atvinnukokka. Það sem ræður hins vegar alltaf úrslitum um gæði réttarins er hið mikla jafnvægi sem þarf að vera á milli hinna ýmsu hráefna. Það að gera tilraunir með þetta jafnvægi er eitt af því sem gerir eldamennskuna að svo ánægjulegri og gefandi athöfn. Sumir fá meiri ánægju út úr því að fylgja uppskriftum út í ystu æsar.

Ég held að nær hver sem er geti orðið hinn frambærilegasti kokkur (jafnvel þó viðkomandi hafi ekki snert pott hingað til), fylgi hann góðum uppskriftum og gæti almennt að því að hlutföllin séu í góðu lagi. Sá sem er vanur að elda annars hugar; skvettandi smá af einu hér og strá dálitlu af öðru þar, uppgötvar að fylgi hann uppskrift og læri inn á jafnvægi fæðunnar fær hann betri niðurstöðu.

Sjálf hef ég nokkuð góða tilfinningu fyrir hlutföllum, en fylgi þó oft uppskriftum engu að síður. Maður prófar oft nýja rétti og þá er vissara að hafa vaðið fyrir neðan sig. Í breskum og bandarískum matreiðslubókum eru notaðar aðrar mælieiningar en við eigum að venjast. Ég pirraði mig oft mikið á þessu, skvetti oft bara einhverju út í skálina af viðkomandi hráefni í stað þess að fletta upp í orðabók. Nú er ég búin að hengja lítinn lista upp í eldhúsinu hjá mér og þetta vandamál er nú úr sögunni. Hér er listinn.

Ounce (oz) (únsa) = 28,35 g

pound (pund) = 453,59 g

cup (bolli) = 270 g

half-pint (hálfur hálfpottur)

= 0,28 l

pint (hálfpottur) = 0,57 l

quart = 1,14 l

inch (tomma) = 2,5 cm

Ein matskeið af hinu og þessu gefur vitanlega mismunandi grammafjölda, því hráefnin hafa mismunandi rúmmál. Ein matskeið inniheldur t.d. 20 g af salti en 10 g af hveiti. Þetta ber að hafa í huga þegar maður prófar sig áfram. Hvað sem öllum mælieiningum líður verður útkoman best ef maður sýnir fæðunni blíðuhót (og öfugt)! Hér fylgir brot úr hugvekju úr bókinni The Tassajara Breadbook eftir zen-búddistann Edward E. Brown. Hún ber yfirskriftina A Composite of Kitchen Necessitites.

"Þú gætir gert þetta öðruvísi næst,

en það er af því að þú gerðir

það svona í þetta sinn.

Fullkomið, jafnvel þótt þú

þykist hafa sett

of mikið af þessu, of lítið af hinu,

Að elda er ekki aðeins

að nota tungu og góm.

Krafturinn sem þú virkjar

býr í öllum líkamanum,

hríslast úr maga og brjósti

fram í handleggi og hendur."

(Þýð. Jóhanna Sveinsdóttir.)

Eftirfarandi drykk er tilvalið að skvetta í sig á morgnana með grófu og góðu brauði eða á milli mála sem orkudrykk.

Banana- og

jógúrtdrykkur

1 stór banani

safi úr stórri appelsínu

safi úr hálfri sítrónu

1½ dl hrein jógúrt

Setjið bananann og safann í matvinnsluvél. Hrærið jógúrtinni út í í lokin og hellið í glas.

Eftir Álfheiði Hönnu Friðriksdóttur