Árni Einarsson með græna kúluskítsgæludýrið sem honum var fært á hátíðinni í Japan.
Árni Einarsson með græna kúluskítsgæludýrið sem honum var fært á hátíðinni í Japan.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í aðeins tveimur vötnum sitt hvorum megin á hnettinum finnst grænþörungurinn kúluskítur í stórum kúlum, í Japan í Akanvatni og á Íslandi í Mývatni, þar sem hann er ein undirstaða lífríkisins.

Í aðeins tveimur vötnum sitt hvorum megin á hnettinum finnst grænþörungurinn kúluskítur í stórum kúlum, í Japan í Akanvatni og á Íslandi í Mývatni, þar sem hann er ein undirstaða lífríkisins. Frá 1921 er hann í Japan "sérstök náttúrugersemi" og stranglega friðaður. Dr. Árni Einarsson líffræðingur kynntist í Japan, hvernig heilt hérað lifir á aðdráttarafli þessarar gersemi er dregur að yfir hálfa milljón gesta og stendur undir mikilli kúluskítshátíð og ferðamannaframleiðslu. Elín Pálmadóttir fékk um það að heyra.

ÞÓTT dr. Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, þekki vel til grænþörungsins Cladophora aegagropila, sem þekur stór botnsvæði í vatninu, eru þessar grænu kúlur ekki jafn landsfrægar á Íslandi og í Japan, þar sem hver maður á götu í Kyoto reyndist þekkja marimo, eins og þessi þörungur heitir þar í landi. Í heimsókn sinni þangað í október sl. hafði hann veðjað við plöntulífeðlisfræðinginn og sérfræðinginn um grænþörunga þar, dr. Isamu Wakana. Japaninn sagði 90% Japana þekkja þennan sérstæða þörung, en Árni giskaði á 60%. Sem fyrr segir urðu svörin í óformlegri könnun á slíkri þekkingu ókunnugra á götu í Kyoto 100% jákvæð. Vildi fólk meira að segja fræðast meira af þeim þegar það vissi að þarna færu sérfræðingar um kúluskít frá einu vötnunum sem fóstra stóra kúluafbrigðið. Er stórborgin Kyoto þó langt frá norðlægu eyjunni Hokkaido, þar sem þessi sjaldgæfi kúluskítur nær að vaxa upp í þessar stóru kúlur. Eini staðurinn sem það gerist fyrir utan Mývatn.

En fræðumst fyrst hjá Árna ofurlítið um kúluskítinn sem tekur á Íslandi nafn af því að þessir smágerðu grænu hnoðrar á reki í vatninu vildu setjast í netin hjá bændum, en í augum þeirra er flest sem kemur í netin og ekki er silungur einfaldlega skítur. Leifar kúluskíts hafa fundist í setlögum í Mývatni, jafnvel þeim sem fyrst mynduðust eftir að vatnið varð til fyrir 2.300 árum. Hefur verið hægt að fá um þetta vitneskju úr borkjörnum. En það var ekki fyrr en á 16.-17. öld sem blómatími kúluskítsins hófst, er vatnið var orðið hæfilega grunnt til að nægileg birta bærist á botninn. Segir Árni að þess sjáist merki að sumar vinsælustu átutegundir vatnsins hafi þá aukist til muna. Nú þekur kúluskítur stór svæði í vatninu og er frumframleiðandi og afar þýðingarmikill hlekkur í lífsamfélaginu. Kúluskítsteppi á botninum er undirlag fyrir kísilþörunga og er aðalbúsvæði vinsælla átutegunda sem eru einkennandi fyrir Mývatn, m.a. ákveðinna mýflugutegunda og krabbadýra. Þá gegnir kúluskíturinn hlutverki í súrefnisbúskap vatnsins og loks má nefna að kúluskítur, þ.e. hið smágerða vaxtarform hans, er eftirsótt fæða andategunda og álfta. Kafendurnar ná sjálfar í þessa litlu lausu hnoðra og allt sem í þeim er, sem liggur eins og laust kusk á botninum og buslendurnar sitja um þá þegar þá rekur á fjörur. En kúluskíturinn á sér fleiri vaxtarform. Sá smágerði er hárfínir þörungaþræðir, hver um sig ein fruma að þykkt, sem greinast út frá miðju og kvíslast þannig að plantan myndar flókinn vef. Þessi vefur er kærkomið undirlag fyrir kísilþörunga sem vaxa í miklum mæli í Mývatni, auk þess sem lífrænar setagnir safnast í þörungavefinn. Slíkur kúluskítur finnst á þó nokkrum stöðum í heiminum, fyrst og fremst í Evrópu og Austur-Asíu á steinum eins og mosi og verður eins og breiða á botninum. Það afbrigði er í Mývatni. Getur kúluskítur einnig vaxið í Þingvallavatni.

En aðeins í tveimur vötnum í heiminum, á Íslandi og í Japan, nær kúluskíturinn að vaxa upp í hinar sérstæðu stóru kúlur. Annars staðar virðast þær vera horfnar. Og í þessari grein höldum við okkur við þær og hvernig Japanir hafa kunnað að nýta aðdráttarafl þeirra fyrir ferðamenn, eins og komið verður að síðar.

Árni útskýrir að grænþörungurinn kúluskítur hafi þrjú vaxtarform. Í fyrsta lagi eru það þessir lausu hnoðrar, eins og ló á stærð við fingurnögl, sem leggjast saman ef þeir eru teknir upp, í öðru lagi er kúluskítur sem vex á neðri hlið steina líkt og mosi og þriðja vaxtarformið eru þessar kúlur, 10-15 cm í þvermál og þéttar í sér, þannig að þær halda laginu þótt þær séu teknar upp úr vatninu. Fer eftir árum hve mikið er um þetta í Mývatni. Það sem helst er í samkeppni við kúluskítinn er hið svokallaða leirlos, svifþörungar í vatninu sem skyggja á birtuna og draga úr sólarljósinu við botninn. Þegar mikið er af þessu plöntusvifi, dregur úr framleiðslu kúluskíts. Að þessu eru áraskipti, en kúluskíturinn á góða daga þegar vatnið er tært. Hann er sérstaklega aðlagaður daufri birtu og getur vaxið dýpra en flestar plöntur, en er samt háður birtunni eins og aðrar plöntur.

Það var ekki fyrr en 1982 að rannsóknamenn við Mývatn áttuðu sig á að stóru kúlurnar, sem ekki virðast reka upp þótt þær hafi enga festu við botninn, eru þarna í flekkjum. Menn vissu að þær voru til en datt ekki í hug að það væri í svona flekkjum þar sem kúlurnar liggja hlið við hlið. Síðan hefur verið reynt að fylgjast með þessu og teknar loftmyndir þegar vatnið er tært.

Daglegar kúluskítsfréttir til Japans

Svo gerðist það í fyrrasumar að hingað kom óvænt japanskur plöntulífeðlisfræðingur, dr. Isamu Wakana. Hann hefur stundað rannsóknir á þessu í Japan í mörg ár, aðallega við Akanvatn á Hokkaido þar sem hann hefur m.a. rannsóknastofu. Hann gefur út metnaðarfullt tímarit um rannsóknir á kúluskít, sem heitir Marimo Research. Náttúrurannsóknastöðin er með heimasíður um Mývatn á vefnum og þar hafði Isamu séð að þessar stóru kúluskítskúlur væru til í vatninu. Hingað hafði hann með sér allan útbúnað til að kafa og gera athuganir á þessu. Á hæla hans kom svo blaðamaður frá Lundúnaskrifstofu japanska stórblaðsins Asahi Shimbun í Tókýó. Hann sendi fréttir heim jafnóðum og blaðið birti forsíðumynd af þeim Isamu og Haraldi Ingvasyni líffræðingi, sem Árni hafði fengið til að koma honum til halds og trausts við rannsóknir í Mývatni þar sem hann er kafari.

"Hann kom okkur algerlega í opna skjöldu," segir Árni, sem ekki kvaðst hafa vitað að þessar stóru kúlur væru til í Japan. En nú vísaði Japaninn honum á sínar vefsíður um kúluskítinn í Japan. "Við urðum því báðir jafnhissa. Það kom í ljós að við höfum verið að velta fyrir okkur sömu hlutunum og báðir tekið þátt í að þróa kúluskítinn sem ferðamálaefni. Við Mývatn höfðum við sett upp gestastofu fyrir Náttúruverndarráð í skólanum í Reykjahlíð, þar sem kúluskíturinn er eitt af aðalatriðunum. Má sjá hann þar í stóru keri, þar sem fólk getur komið, lyft honum upp úr vatninu, skoðað hann og þreifað á honum. Síðan höfðum við kúluskítskarl sem leiðir sýninguna á öllum leiðbeiningaspjöldum og bendir á áhugaverða hluti." Þennan karl teiknaði Sigríður Ásta dóttir Árna, sem var að læra myndlist. Mörg þúsund manns koma árlega í þessa gestastofu og kúluskíturinn hefur vakið talsverða athygli. Ekki síst hjá þeim Mývetningum sem ekki þekktu hann fyrir. Kúluskíturinn er ekki friðaður hér, en aðspurður kveður Árni ástæðu til að gera það. Eins og við sjáum þetta núna sé það næstum borðliggjandi.

Lýst sérstök náttúrugersemi

Í framhaldi af heimsókninni bauð japanski kúluskítssérfræðingurinn Árna Einarssyni í október sl. á hina árlegu kúluskítshátíð við Akanvatn á Hokkaido, þar sem hann m.a. flutti fyrirlestra. Raunar líka víðar í Japan. M.a. flutti hann fyrirlestur um Ísland og kúluskítinn í 200 manna sal við háskólann í Sapporo og þótti dálítið heimilislegt þegar fyrsta spurningin eftir þennan hátíðlega fyrirlestur, sem var eins og alltaf túlkaður jafnóðum á japönsku, var: Hvað finnst þér um Japan? Hann segir að þetta hafi allt verið mikið ævintýri.

"Vatnið Akan er í þjóðgarði og er miðpunktur hans. Að bænum Akan-kohan liggur hraðbraut sem nefnist kúluskítsvegur eða Marimo Road. En bærinn, sem er á vatnsbakkanum, lifir á ferðamennsku þar sem kúluskíturinn er kjarni málsins. Í eyju úti í Akanvatni er fræðslusetur með kúluskítssýningu og þangað koma yfir 500 þúsund gestir á ári. Frá eyjunni liggur kapall niður á vatnsbotninn þar sem kúluskíturinn er og geta gestir fylgst með honum í beinni útsendingu. Kúlurnar hafa ekki festingu við botninn, en lítil hreyfing er á þeim nema þegar stormur veltir þeim. Eitthvað rekur af þessum grænu kúlum upp í víkur en reynt er að koma í veg fyrir það með girðingum. Landverðir eru við aðalvíkina. Þetta á sér langa sögu. Árið 1921 var kúluskíturinn friðaður og þá útnefndur sem "special natural treasure", þ.e. sérstök náttúrugersemi. Þegar kúluskíturinn var friðaður tók ekki betra við. Það varð til þess að fólk fór að koma og safna þessum kúlum. Tók þær heim til að hafa sem stofuplöntur. Um það leyti voru þarna einnig vandræði vegna skógarhöggs. Trjám var fleytt á vatninu og trjábolirnir áttu það til í stormi að höggvast niður í botninn og merja kúluskítinn. Útlitið var því ekki gott. Um 1950 var svo komið að skógarhögg og vatnsborðsbreyting vegna virkjunar stefndu kúluskítnum í bráða útrýmingarhættu. Þá var gripið til þess ráðs að gera svæðið að þjóðgarði.

Sérstök kúluskítshátíð

Þá var stofnað til þessarar kúluskítshátíðar. Í raun var það í fyrstu gert til að hvetja fólk til að koma með kúluskítinn sinn og sleppa í vatnið með kæru þakklæti fyrir lánið. Þá byrjaði þessi athöfn, sem enn er haldið í heiðri, að höfðingi Ainu-fólksins sýnir gott fordæmi og fer með kúluskítinn sinn út í vatnið og skilar honum. Ainuar eru frumbyggjar og minnihlutahópur sem eins og indíánar lifði í nánu sambandi við náttúruna og siðir þeirra og þjóðsögur eru tengd dýrum og plöntum, t.d. björnum og trönum. Dansar þeirra eru tengdir því. Öldungar í samfélagi þeirra taka að sér í byrjun hátíðarinnar að sigla út á vatnið og sækja kúluskítinn og skila honum aftur í lokin með miklum seremoníum. Þá hefur bærinn verið skreyttur og næstu daga gengur á með skrúðgöngum sem allir taka þátt í, ungir sem gamlir, í skrautlegum búningum. Þegar bátur höfðingjans kemur að landi og mörg hundruð Ainuar taka á móti honum á bakkanum, er kveikt á blysum og farið í allsherjar blysför nokkurra kílómetra leið til þorps Ainuanna. Þar er hann geymdur yfir hátíðina.

"Þetta er nokkurs konar þjóðhátíð, enda búa þarna auðvitað miklu fleiri en afkomendur Ainuanna og aðkomufólk tekur þátt. Það er mjög sérkennilegt og gaman að sjá þetta," segir Árni. "Fólkið fer með sérstökum danssporum í skrúðgöngu kyrjandi kúluskítssönginn. Fyrsta daginn þegar kúluskíturinn er sóttur er gríðarleg flugeldasýning, svo flugeldarnir hjá KR-ingunum eru barnaleikur hjá því. Í lokin heldur bátur höfðingjans svo aftur í allra viðurvist með kúluskítinn út á vatnið til að skila honum. Fólk horfir á frá bakkanum. Á undan hafa Ainuarnir þá farið með kúluskítinn að styttu föður þjóðgarðsins, þess sem stofnaði hann. Athöfn fer fram við brjóstmynd af honum í almenningsgarði í bænum. Svo þramma þeir niður að vatni með kúluskítinn og sigla með hann út.

Í Akanbæ í 50 km fjarlægð er heilmikil fræðslustofnun, þar sem Isamu Wakana hefur aðstöðu og stóra rannsóknastofu og eru í læri hjá honum stúdentar að sérhæfa sig í kúluskít. Á öðrum degi hátíðarinnar var efnt til fyrstu alþjóðlegu kúluskítsráðstefnunnar, þar sem rætt var vísindalega um viðfangsefnið. Var Árni Einarsson hinn alþjóðlegi fulltrúi og flutti fyrirlestur. "Búið var að hengja upp plaköt um allan bæ með myndum af okkur Isamu Wakana. Bæjarstjórnin sat öll á fremsta bekk. Á kúluskítsráðstefnunni var mér afhentur kassi, sem ég var látinn opna fyrir framan alla. Og upp úr honum kom alls kyns dót sem hefur verið búið til fyrir ferðamenn, m.a. þessi stóra græna flauelskúla í líki gæludýrs, alls konar kúluskítsmerktir bollar, bakpoki í kúluskítslíki og fleira slíkt," segir Árni og hlær. Þetta tilstand allt kom honum á óvart. Kveðst hann hafa skemmt sér konunglega og oft hlegið dátt. Þetta var svo langt fyrir ofan allt sem hann hafði getað ímyndað sér fyrirfram.

"Kúluskíturinn á í rauninni engan fornan sess í hugum þessa fólks, heldur var ákveðið um 1950 að gera þetta svona. En núna er þetta mikið mál. Íbúarnir hafa tekið þetta upp á sína arma og þetta er þeirra hátíð, tilefni til að hittast og skemmta sér saman. Í bænum eru þá hátíðir og sýningar af ýmsu tagi og allt undirlagt. Þar er markaður eins og í ferðamannabæjum og víða má sjá myndir af kúluskít, t.d. á símaklefum og víðar. Þeir framleiða mikið af alls konar söluvarningi, kveikjurum með grænum kúlum í vökva, sápustykkjum í hans mynd, böngsum með kúluskít í fanginu, krukkum með litlum kúluskít í. Sá kúluskítur er raunar tilbúinn, tekinn úr öðru vatni þar sem hann vex sem ló og fólk vinnur við að hnoða henni saman í litlar kúlur, sem svo eru seldar í krukkum til að taka með sér heim. Þetta tekur á sig ótrúlegustu myndir. Árni sýnir mér símakort með mynd af kúluskít og annað með tveimur stúlkum með kúluskít á milli sín, sem var gefið út í tilefni þess að 50 ár voru frá stofnun þjóðgarðsins. En safnarar sækjast eftir slíkum símakortum. Mikið safn er orðið til af fallegum, listrænum plakötum með kúluskít, sem eru til sýnis og orðin safngripir en ófáanleg lengur. Í bænum er skúlptúr þar sem kúluskíturinn er settur í hnattrænt samhengi og á að tákna hve mikilvægur hann er á alþjóðavísu.

Á þessari hátíð gekk kynningin ekki í eina átt, þar sem fulltrúi var kominn frá vatninu hinum megin á hnettinum, sem líka á sér sinn kúluskít. Var Árni beðinn um að halda fyrirlestur um Ísland í grunnskólanum á staðnum. Þetta reyndist vera í íþróttasal skólans og fullur salur af fólki. Allir nemendur skólans voru þar mættir í skólabúningum sínum með kennurunum. Til hliðar sat öll skólastjórnin sparibúin svo og fulltrúar Kúluskítsfélagsins á staðnum, þar á meðal stúlkurnar tvær á myndinni á símakortinu og móðir þeirra. Sjónvarpsmenn voru mættir og tóku þetta upp. Árni sýndi myndir frá Íslandi og sérstaklega Mývatni og það gerði mikla lukku er hann greip til þess ráðs að varpa upp myndum heiman frá sér og af fjölskyldunni, til að sýna hvernig fólk byggi á Íslandi þegar um það var spurt. Búið var að vara hann við að japanskir krakkar spyrðu aldrei neins þó boðið væri upp á það. "En svo stóð upp einn af eldri nemendunum. Hann kvaðst stefna að því að verða tónlistarmaður að atvinnu og langi til að heyra íslenskt þjóðlag," segir Árni. "Ég var ekki með neitt slíkt, en Isamu hnippti í mig og sagði að ég yrði að syngja. Svo ég setti undir mig hausinn og söng Afi minn fór á honum Rauð og slíkt í íslenskum kvæðastíl. Þá var ísinn brotinn, hátíðleikinn hvarf og andrúmsloftið gerbreyttist. Þeim hafði tekist að gera mig að fífli, en um leið var ég orðinn einn úr þeirra hópi. Annars má geta þess að japönsk gestrisni er í sérflokki

Japaninn dr. Isanu Wakana hyggur á aðra ferð til Íslands og í Mývatnssveit. Og áformað er að þá komi líka sjónvarpsmenn, því stöð þeirra áformar að gera mynd um Mývatn með sérstakri áherslu á kúluskítinn í vatninu og þessar stóru grænu kúlur, svo sjaldgæfar á heimsvísu. Eins gott fyrir okkur að láta þær ekki glutrast niður þegar umheimurinn hefur áttað sig á að þær eru hér. Enda ekki í kot vísað þegar hægt er að nýta þær svona vel í ferðamennskunni ef rétt er að staðið, eins og dæmið í Japan sýnir.