[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FLUGLEIÐIR gera ráð fyrir að í ár verði um 7% farseðla í millilandaflugi keyptir hjá þeim á Netinu.

FLUGLEIÐIR gera ráð fyrir að í ár verði um 7% farseðla í millilandaflugi keyptir hjá þeim á Netinu.

Árið 1997 hófu Flugleiðir að bjóða farþegum að kaupa farseðla beint á Netinu og að sögn Sigmundar Halldórssonar vefstjóra Flugleiða voru Flugleiðir með fyrstu evrópsku áætlunarflugfélögunum sem buðu farmiðameð þessum hætti.

Árið 1998 seldu Flugleiðir sem nemur 1% flugfarseðla í millilandaflugi á Netinu og í fyrra fór sú tala upp í 3%. "Í ár gerum við ráð fyrir að sú tala geti hækkað upp í 7%. Þetta er mjög góður árangur þegar litið er til þess að aðalsalan í farseðlasölu á Netinu hefur verið í innanlandsflugi, t.d. í Bandaríkjunum, og stór flugfélög eins og SAS og British Airways hafa verið að selja um 1% af farmiðum í millilandaflugi með þessum hætti.

Við erum að bjóða viðskiptavinum á öllum okkar markaðssvæðum að kaupa miða á Netinu og það eru flestir sem nýta sér þann möguleika í Bandaríkjunum en Íslendingar koma þar fast á eftir." Sigmundur segir að í fyrra hafi á bilinu 5.000-6.000 manns nýtt sér tilboð í Netklúbbi Flugleiða og hann segir ekki óvarlegt að álykta að það sé heimsmet miðað við höfðatölu.

En þó salan hafi verið mikil í Netklúbbnum segir hann að aukning sé einnig í sölu dýrari fargjalda á Netinu eins og t.d. viðskiptafargjalda.

Ennfremur segir hann að fólk sé í auknum mæli farið að nýta sér þá þjónustu að bóka um leið bílaleigubíl og hótel. "Við hófum að bjóða fólki upp á þann möguleika að panta sér hótel og bílaleigubíl síðla árs 1998 og æ fleiri nýta sér þann möguleika. Við erum í raun með ferðaskrifstofu á Netinu því viðskiptavinir geta lokið öllum sínum ferðakaupum heima í stofu."