HIÐ hörmulega slys, sem varð á Vesturlandsvegi í fyrrakvöld er eitt mannskæðasta umferðarslys, sem orðið hefur hér á landi. Á sekúndubroti breyttist líf fjölda fólks með óafturkallanlegum hætti.

HIÐ hörmulega slys, sem varð á Vesturlandsvegi í fyrrakvöld er eitt mannskæðasta umferðarslys, sem orðið hefur hér á landi. Á sekúndubroti breyttist líf fjölda fólks með óafturkallanlegum hætti. Þrír karlmenn létu lífið, sjö farþegar slösuðust alvarlega og tugir manna voru fluttir á sjúkrahús, þar sem þeir fengu áfallahjálp.

Eiginkonur standa eftir, sem misstu eiginmenn sína, börn eru föðurlaus. Þetta er svo átakanlegur atburður, að engin orð fá lýst. Skemmtiferð snerist skyndilega upp í eitthvert sorglegasta slys, sem hér hefur orðið í langan tíma. Atburðir sem þessir verða alltaf óskiljanlegir og óskýranlegir. Missir þeirra, sem eiga um sárt að binda svo mikill, að öðrum er um megn að skynja.

Það er ástæða til að hafa orð á því, að viðbrögð hjúkrunarfólks, lögreglu og slökkviliðs sýna að samræmd neyðaráætlun þessara aðila skilar sér með árangursríkum hætti, þegar svo alvarleg slys ber að höndum. Þarna verður fjöldaslys, þar sem tugir manna þurfa á hjálp að halda og sú hjálp var veitt.

Umferðin á þjóðvegum er orðin mikil og hraðinn sömuleiðis. Öllum, sem aka eftir þjóðvegum, er ljóst, að það er ekki lengur viðunandi á löngum vegarköflum, að ekki skuli vera um tvær akbrautir að ræða. Það á ekki sízt við um nágrenni þéttbýlis, þar sem umferð er mikil. Töluvert hefur verið rætt um tvær akreinar á Reykjanesbraut en þau sömu rök eiga einnig við um Vesturlandsveg og Suðurlandsveg. Að þessu er nauðsynlegt að hyggja í umræðum um vegamál og umferðaröryggi á næstunni.

Morgunblaðið sendir þeim, sem misstu ástvini sína í þessu sorglega slysi, innilegar samúðarkveðjur.

Framkvæmdir í uppnámi

SIV Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra, hefur með ákvörðun sinni um að fella úr gildi úrskurð skipulagsstjóra um álver í Reyðarfirði, sett öll áform um byggingu álversins og þar með Fljótsdalsvirkjunar í uppnám, ef marka má viðbrögð aðila málsins við ákvörðun ráðherrans.

Geir A. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Reyðaráls hf., sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að fara þyrfti í nýtt umhverfismat og það gæti tekið fimm mánuði, ef allir frestir væru nýttir. Þetta þýddi, að ákvörðun um hvort og hvernig yrði staðið að byggingu álvers yrði ekki tekin í júní heldur einhvern tíma næsta haust.

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, telur að ákvörðun umhverfisráðherra geti haft þau áhrif að framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun hefjist ekki í sumar.

Það er ástæða til að fagna því, að Siv Friðleifsdóttir hefur ekki látið pólitísk sjónarmið ráða afstöðu sinni heldur hefur ráðherrann tekið efnislega afstöðu til málsins, þótt hún setji flokk hennar, Framsóknarflokkinn, augljóslega í erfiða stöðu. Með þessari ákvörðun hefur umhverfisráðherra einnig breytt mjög þeirri erfiðu pólitísku stöðu, sem hún komst í sl. sumar vegna óheppilegra ummæla um Eyjabakkasvæðið og Fljótsdalsvirkjun.

En jafnframt sýnir ákvörðun umhverfisráðherra og viðbrögð forsvarsmanna fyrirhugaðs álvers og virkjunarinnar, að hér hefur verið farið fram af meira kappi en forsjá. Um leið sýna ummæli Friðriks Sophussonar að nú gefst tími til að setja virkjunina sjálfa í lögformlegt umhverfismat. Úr því sem komið er ætti ríkisstjórnin að taka slíka ákvörðun enda er hún forsenda þess, að sæmilegur friður geti orðið um hugsanlegar framkvæmdir meðal landsmanna.

Viðskipti gangi til baka

FJÁRMÁLAEFTIRLITIÐ hefur nú fylgt eftir þeirri hörðu afstöðu sem stofnunin sjálf og Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tóku fyrir nokkrum vikum til brots á verklagsreglum banka og annarra fjármálafyrirtækja. Þá þegar mátti greina þá hugsun í yfirlýsingum þessara aðila, að til greina kæmi að umrædd viðskipti yrðu látin ganga til baka.

Í yfirlýsingu frá Fjármálaeftirlitinu segir m.a.: "Fjármálaeftirlitið telur eðlilegt að verðbréfakaup, sem fela í sér brot á verklagsreglum, verði látin ganga til baka, þar sem því verður við komið... Fjármálaeftirlitið tekur sérstaklega fram, að það telur óeðlilegt að stjórnendur lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og þeir sem bera ábyrgð á framkvæmd verklagsreglna innan þeirra njóti hagnaðar af þeim viðskiptum, sem þeir kunna að hafa átt og ekki samræmist gildandi verklagsreglum."

Þessi einarða afstaða Fjármálaeftirlitsins, sem viðskiptaráðherra veitir bersýnilega öflugan stuðning, leiðir til þess, að traust manna á Fjármálaeftirlitinu stóreykst og líkurnar á því, að stofnunin muni framvegis láta meira að sér kveða, sem eftirlitsaðili verða þeim mun meiri.

Þetta er afar mikilvægt. Eftir því sem þróun fjármálamarkaðarins verður örari er bæði æskilegt og nauðsynlegt að skýrari starfsreglur verði settar um markaðinn, að viðurlögum verði beitt af fullum þunga, þegar um brot er að ræða og að markaðurinn sjálfur geri sér grein fyrir því, að hann er undir nákvæmu eftirliti.

Í öðrum löndum er fjármálamarkaðurinn undir ströngu eftirliti. Í fyrradag mátti sjá í erlendum sjónvarpsstöðvum fréttir af yfirheyrslum þingnefndar í Bandaríkjunum, yfir forstöðumönnum fjármálafyrirtækja um ákveðinn þátt verðbréfaviðskipta, svonefnd dagsviðskipti. Það er regla en ekki undantekning, að slíkt eftirlit sé mjög virkt.