Shiro Nakamura, nýr yfirmaður hönnunardeildar Nissan í Japan.
Shiro Nakamura, nýr yfirmaður hönnunardeildar Nissan í Japan.
ÞAÐ þótti tíðindum sæta þegar Shiro Nakamura, yfirmaður hönnunardeildar Isuzu í Japan, sagði starfi sínu lausu í október síðastliðnum og hóf störf sem yfirhönnuður Nissan.

ÞAÐ þótti tíðindum sæta þegar Shiro Nakamura, yfirmaður hönnunardeildar Isuzu í Japan, sagði starfi sínu lausu í október síðastliðnum og hóf störf sem yfirhönnuður Nissan. Nakamura, sem vakið hefur mikla athygli að undanförnu fyrir djarfhuga hönnun á hugmyndajeppum Isuzu, segir í viðtali sem birtist í Automotive News Europe, að nýr yfirmaður Nissan, Carlos Ghosn, og yfirmaður framleiðsludeildarinnar, Patrick Pelata, hafi heitið því að veita sér frelsi í nýja starfinu. Velvildarmenn Nissan líta fram á bjartari tíma með Nakamura innanborðs því Nissan hefur liðið fyrir íhaldssama hönnun.

Tíðkast ekki í Japan

Nakamura segir að hann hafi í fyrstu verið orðlaus þegar það barst í tal að hann hæfi störf hjá Nissan vegna þess að það tíðkist ekki í Japan að flytja sig um set á þennan hátt. Hann ræddi við Ghosn og Pelata og kveðst hafa skilið hvað vakti fyrir þeim. Nissan vilji framleiða góða vöru og þurfi nauðsynlega að stækka markað sinn. Til þess að gera það þurfi fyrirtækið að bæta hönnunina. "Ég sá að þarna var upplagt tækifæri fyrir mig vegna þess að þeir sögðu mér að hönnunin hefði forgang hjá fyrirtækinu. Það er afar fátítt - flest japönsk fyrirtæki huga fyrst og síðast að véltæknihliðinni."

Hið formræna vekur upp tilfinningar

Nakamura segir að Nissan skorti fyrst og fremst stöðugleika og stefnufestu á japanska markaðnum. Nissan-bílar hafi státað af góðri hönnun en hún hafi ekki fylgt fyrirtækinu inn í nútíðina. Stefnumiðin hafi verið skýrari í Bandaríkjunum en þar hafi komið í ljós að bílana hafi skort karakter - verkfræðileg ástríða, sem jafnan hafi verið mikil innan fyrirtækisins, hafi ekki skilað sér inn í formræna hlið framleiðslunnar.

Nakamura segir að sín heimspeki sé sú að hið formræna veki upp tilfinningar. Það eigi ekki einvörðungu við um sjónræna skynjun heldur einnig snertingu, tilfinningu og heyrn. Þannig tengist jafnframt notagildið hönnuninni. Nakamura vill að hönnun Nissan verði hnattrænni eða alþjóðlegri. Hann vill nánara samstarf við deildir Nissan í Bandaríkjunum og Evrópu og veita alþjóðlegum straumum inn til Japan. Hann vill umbylta hönnunarstofum Nissan í Japan, þar sem eingöngu starfa japanskir hönnuðir, og ljá þeim yfirbragð fjölþjóðlegs vinnustaðar.

Nakamura segir að Nissan og Renault fari ólíkar leiðir í hönnun en gagnkvæm virðing ríki fyrir hönnunarstefnu hvors annars.