Almera er kominn með sterklegan framsvip með nýju grilli.
Almera er kominn með sterklegan framsvip með nýju grilli.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stærri, laglegri og betur búinn, voru einkunnarorð sem flugu í gegnum huga Guðjóns Guðmundssonar þegar hann ók nýjum Nissan Almera í nágrenni Rómar í síðustu viku. Þetta er bíll sem skiptir Nissan afar miklu máli að verði vel tekið á markaðnum.

NISSAN hefur eiginlega veðjað á þennan bíl því hér er ekki aðeins um endurbætur eða andlitslyftingu á fyrri gerð að ræða heldur splunkunýjan bíl, þann fyrsta sem er algerlega hannaður í Evrópu og verður hann ekki til sölu á öðrum mörkuðum. Hann er með alls kyns viðbótum í búnaði sem á örugglega eftir að hugnast mörgum bílkaupandanum og kemur auk þess með nýjum vélum.

Ný fjölnota botnplata

Nýja Almeran er smíðuð á nýrri botnplötu sem kallast MS (medium-small), sem á einnig að gagnast öðrum bílum fyrirtækisins, þ.ám. litla fjölnotabílnum Tino. Bíllinn er framleiddur í verksmiðju Nissan í Sunderland á Englandi, við hlið Micra og Primera, en sú verksmiðja hefur búið við einna mestu framleiðni allra bílaverksmiðja í heiminum. John Barrow, verkefnisstjóri fyrir nýju Almeruna, sagði á blaðamannafundi í nýjum höfuðstöðvum Nissan á Ítalíu, rétt utan Rómar, að verkefni sitt og sinna manna hefði verið að hanna nýjan bíl með þarfir Evrópubúa að leiðarljósi. Brýnt væri fyrir Nissan að það tækist því Almera, sem fellur í svonefndan C-flokk í Evrópu, þarf að kljást við fjölmarga keppinauta en alls seldust á síðasta ári 4,6 milljónir bíla í þessum flokki.

Svo virðist sem Nissan þurfi ekki að kvíða framtíðinni með Almera því bíllinn er mun laglegri útlits en fyrirrennarinn, að mati þess sem hér skrifar; framendinn er sterklegur og kominn með dálítinn Primera-svip. Nýjar framlugtir með fjórum ljósum í stað tveggja áður auka birtumagn og breidd ljósgeislans um allt að 20%, að því er Nissan segir. Hliðarlínan er há og evrópsk í hönnun. Þaklínan er síðan með óvenjulegum halla sem Nissan kallar "surf-tail" sem gefur bílnum sérstætt en um leið dálítið sportlegt yfirbragð. Þó það sjáist vart í útliti bílsins þá er hann 64 mm lengri, 16 mm breiðari og 15 mm hærri en fyrri gerðin. En það finnst þeim mun betur þegar setið er inni í bílnum því það reyndist nóg fótarými fram í og aftur í þótt hávaxnir menn sætu þar og sömuleiðis var eftirtektarvert mikið höfuðrýmið.

Mikið nostrað við innanrýmið

Nissan hefur einmitt nostrað alveg sérstaklega við hönnun bílsins að innan. Þar er að finna ýmis smáatriði, sem sumum þykir jafnvel jaðra við smámunasemi, en öðrum þykir til marks um hugvitssamlega nytjahönnun. Lítill krókur hægra megin í millistokknum gegnir þannig hlutverki snaga fyrir smáskjatta, allt að 5 kg að þyngd, og neðst á aftursætum eru ólar til að festa regnhlífar í. Þar er líka önnur ól sérstaklega hugsuð til að festa skjalatösku. Þetta er auðvitað sniðugt en nennir einhver að nota þetta? Yfir 20 mismunandi skúffur, vasar, hillur og glasahöldur eru í bílnum.

Byltingarkenndur hnakkapúði

Athygli vakti líka ræktarsemi sem lögð hefur verið við hönnun ljósa inni í bílnum. Auk ljósa fyrir framsætisfarþega eru sérstakir leslampar fyrir aftursætisfarþega. Þá er hægt að draga út innfelldan armpúða úr miðju aftursætis og í honum er að finna hirslur þar sem börnin geta geymt sína hluti, eins og leikjatölvur eða liti og bækur. Hljómtækin eru innbyggð og fáanleg jafnt með kassettutæki sem geislaspilara. Fjarstýring fyrir hljómtæki er í stýri.

Á hinn bóginn hefur Nissan lyft Almera á ögn hærri stall með búnaði sem ekki hefur áður verið boðinn í bíl í þessum stærðarflokki. Þar er átt við höfuðpúða á framsætum sem draga úr hættu á hálshnykkjum. Búnaðurinn var hannaður út frá þeim lögmálum að þegar ekið er aftan á bíl rykkist líkami farþega aftur á bak en höfuðið fylgir síðan eftir örskotsstundu síðar. Þungi líkamans gangsetur fjöður í sætinu sem þrýstir hnakkapúðanum fram og upp á við. Hann grípur því um höfuðið á miðri leið og dregur úr hættu á hálshnykk. Einnig verður boðið upp á 13,5 lítra hliðarbelgi fyrir framsætisfarþega í þessum bíl sem aukabúnað, en þeim er ætlað að verja jafnt höfuð og brjóstkassa við hliðarárekstur.

1,5 l, 1,8 l og 2,2 l dísilvél

Við prófuðum Almeru jafnt með 1,8 lítra bensínvél og 2,2 lítra dísilvél með forþjöppu en hins vegar höfðu Nissan menn enga bíla með 1,5 lítra vélinni nýju sem væntanlega verður álitlegur kostur fyrir bílkaupendur á Íslandi. Helgi Ingvarsson, framkvæmdastjóri hjá Ingvari Helgasyni hf., umboðsaðila Nissan, sagði að fyrirtækið myndi eigi að síður leggja einna mesta áherslu á 1,8 l bílinn með sjálfskiptingu. Fyrst um sinn verður bíllinn einvörðungu fáanlegur sem þrennra og fimm dyra hlaðbakar en seinna á árinu verður fjórdyrður stallbakur einnig framleiddur í Japan fyrir Evrópumarkað.

1,8 l vélin var prófuð með fimm gíra handskiptingunni í þriggja dyra útfærslunni. Vélin er þokkalega skemmtileg og skilar jafnri vinnslu á tiltölulega breiðu snúningssviði. Þó þurfti dálítið að sækja aflið með tíðum gírskiptingum þegar þjóðvegahraða var náð og menn óskuðu snarprar hröðunar. Dísilvélin togaði að sjálfsögðu mun meira, enda 2,2 lítrar að slagrými, og kom hún skemmtilega á óvart fyrir þýða og einstaklega hljóðláta vinnslu.

Þetta eru allt nýjar og nýlegar vélar frá Nissan. 1,8 lítra vélin var fyrst kynnt í stóra bróður Primera fyrir einu ári. Þetta var fyrsta Nissan vélin með breytilegri, tölvustýrðri ventlastýringu og skilar hún hámarkstogi, 158 Nm við 2.800 snúninga á mínútu en hámarkshestöflum, 114, við 5.600 snúninga. Blönduð eyðsla samkvæmt Evrópustöðlum er 7,5 lítrar og með 60 lítra bensíntank á að vera hægt að komast 800 km á þessum bíl með einni áfyllingu. 1,5 lítra vélin, sem við fengum ekki að prófa, er kynnt í fyrsta sinn í Almera. Hún er án breytilegrar ventlastýringar og skilar 90 hestöflum við 5.600 snúninga. Eyðsla í blönduðum akstri er sögð vera aðeins 6,6 lítrar. Dísilvélin, sem framleidd er á Spáni, er hins vegar 110 hestafla en það sem meira er þá er hámarkstog 230 Nm við aðeins 2.000 snúninga á mínútu. Eyðslan er svo 5,7 lítrar í blönduðum akstri og væri þetta sá bíll sem undirritaður myndi mæla með ef íslensk skattalöggjöf væri ekki jafnvitlaus og hún er.

Skemmtilegur í akstri

Það var virkilega gaman að flengja Almera um hlykkjótta sveitavegina umhverfis Róm. Bíllinn liggur feiknavel og leggur sig nánast ekkert í beygjum. Sams konar fjöðrunarkerfi er í nýja bílnum og forveranum, með nokkrum endurbótum þó, þ.e. McPherson að framan og fjölliðafjöðrun að aftan, en hjólhafið er það sama í bílunum. Hvað sem líður fullyrðingum Nissan um að sjálf yfirbyggingin sé nú 30% stífari en í forveranum og dekkin, Bridgestone 185/65, 10% hljóðlátari, þá hefur maður þá tilfinningu að verið sé að aka í mun meiri og stærri bíl. Hins vegar kom það flatt upp á undirritaðan hve lítið bíllinn leggur á. Þetta getur verið til óþæginda þegar verið er að skaka honum inn í stæði eða þegar ætlunin er að taka u-beygjur. Beygjuhringurinn er 10,4 metrar, sem Nissan segir að sé "ákjósanlegt fyrir bíl af þessari stærð" en á það verður ekki fallist hér.

Fyrstu kynni af nýju Almerunni lofa góðu og nú er bara að sjá á hvaða verði bíllinn býðst hérlendis þegar hann kemur á markað í sumar.