Við Námaskarð. Greinarhöfundur hreifst af Íslandi og segir meðal annars: Hugur okkar allra snýst um nútíð og fortíð þessarar þjóðar - sögur þessarar þjóðar, sem sjá má í mörgum sögusöfnum víðs vegar um landið. Sögum af sjómönnum á þess norðlægu slóðum. Og
Við Námaskarð. Greinarhöfundur hreifst af Íslandi og segir meðal annars: Hugur okkar allra snýst um nútíð og fortíð þessarar þjóðar - sögur þessarar þjóðar, sem sjá má í mörgum sögusöfnum víðs vegar um landið. Sögum af sjómönnum á þess norðlægu slóðum. Og
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísland grípur ferðamanninn sterkum tökum, segir í ferðalýsingu Carolyn Eklin og hún veltir því fyrir sér hvort það sé vegna hins óvænta krafts og sköpunar-hæfni þjóðarinnar, eða þá vegna hins dulúðuga og óútreiknanlega landslags með forneskju sína og þúsund ára sögu, eða ef til vill blöndu af þessu öllu.

ÍSLAND er lítið og framandlegt land og áreiðanlega ekki efst á óskalista þeirra sem leita framandi landa. En Ísland grípur ferðamanninn sterkum tökum. Má vera að það sé vegna þessa óvænta krafts og sköpunarhæfni þessarar þjóðar, eða þá landslagið, dulúðugt og óútreiknanlegt, með sína forneskju og þúsund ára sögu, eða e.t.v. blanda af þessu öllu. En Ísland er gert úr hrauni, það erþað fyrsta sem ferðamaðurinn skynjar. Jarðvegurinn er ekki frjór eins og Rauðárdalurinn okkar. Svart hraunið er það fyrsta sem á vegi okkar verður á leið okkar frá flugvellinum og til Reykjavíkur, höfuðborgar landsins. Nafn borgarinnar, Reykjavík, útleggst á ensku nokkurn veginn sem "Bay of Smoke". Leiðsögumaðurinn skýrir fyrir okkur að hraunbungurnar hafi myndast við gufuuppstreymi úr iðrum jarðar, þegar hraunið var enn fljótandi. Við veitum því athygli, að mosinn og grösin sem vaxa innan um hraunbungurnar einkennast af dempuðum litum, úr grænu yfir í grátt, missterkum þó.

Við erum 20 saman í hóp og flest okkar þekkjast í gegnum íslensk hjón sem skipulögðu þessa ferð. Þessi hjón hafa búið í Bandaríkjunum undanfarin 20 ár en ferðast til Íslands á hverju ári. Það eru forréttindi að ferðast með fólki, sem hefur haldið svona sterkum tengslum við ættjörð sína. Fyrstu tvo dagana, sem við dvöldum í Reykjavík, vorum við kynnt fyrir ættingjum þeirra og vinum, sem buðu okkur svo inn á heimili sín.

Sjö heimili (sem við kynntumst) urðu okkur ógleymanleg. Það fyrsta (hugsið ykkur) reyndist vera gróðurhús í útjaðri bæjarins. Já, raunverulegt gróðurhús, þegar inn er komið verður fyrst fyrir stórt svæði með ótrúlegu safni af ýmsum jurtum, bæði skrautjurtum og nytjajurtum. Á þessu ytra svæði er einnig innra rými, setustofa með borði og stólum. Hálfskilrúm aðskilur það frá því innra, íverusvæðinu - sem er nýtískulegt, listrænt, nútímalegt og áhrifaríkt. Þar eru veggteppi, olíu- og vatnslitamyndir, skúlptúrar, áhrifamiklir munir og uppstillingar. Þetta er heimili arkitekts, sem teiknaði hið nýja og frábæra leikhús Reykjavíkur. Hvert hinna húsanna (sem við komum í) er einstakt á sinn hátt. Þau eru ekki afar stór, en flest með nútímalegu yfirbragði og gnægð fagurra og athyglisverðra listaverka, sem eru sett upp á skapandi hátt. Leiðsögumaðurinn okkar er afar aðlaðandi og margfróður, læknir á eftirlaunum, sem hefur búið árum saman í Minnesota. Hann fræddi okkur m.a. á því, að jafnvel fátækustu fjölskyldur ættu a.m.k. eitt "original" listaverk á heimilinu, auk bóka, því bókhneigðir eru flestir. Sú spurning vaknar hvort samband sé á milli þessa mikla áhuga á bókmenntum og listum og þess harða umhverfis sem fólkið býr í. Hvort eitt bæti annað upp, hvort hugur og hugmyndaflug gefi þessu harða umhverfi líf og lit eða hvort náttúruöflin séu þeim uppspretta lista og bókmennta.

Leiðsögumaður okkar segir okkur að (fyrstu) landnemarnir hafi komið til Íslands árið 874 e.K. Í dag eru 60 prósent þjóðarinnar af norrænum stofni og 40 prósent af keltneskum stofni. En kímnigáfa Íslendinga er greinilega af írsk/skoskum toga, en ekki norrænum. Hann (leiðsögumaðurinn) lýsir henni svo, að hún sé "ögn rætin, en mjög fyndin". Það sem okkur var sagt um íslenska tungumálið var athyglisvert. Allt til þessa dags hafa Íslendingar leitast við að skapa ný orð og orðtök í stað þess að taka erlend orð inn í málið. Þannig hefur málið varðveist (hreint) öld eftir öld svo að þeir geta enn lesið fornsögurnar, sem skrifaðar voru fyrir þúsund árum, sem telja má ótrúlegt og einstakt afrek. En það eru ekki aðeins fornsögurnar, sem eiga sér þúsund ára sögu. Alþingi Íslendinga, sem stofnað var árið 930, hefur heiðurinn af því að vera eitt af elstu þjóðþingum heims. Á leið að skoða 18. aldar set Alþingis skulum við minnast þess að við erum ekki stödd í Norður-Ameríku heldur Evrópu. Risastór sprunga markar skilin milli hinna tveggja meginlanda, sem fjarlægjast hvort annað. Sprunga þessi er næstum því 24 mílna (40 km) löng og yfir 600 feta (180 m) djúp á kafla.

Við spyrjum um þessi fáu tré, sem á vegi okkar verða, því við höldum að skógleysið standi í sambandi við jarðveginn og hina hörðu vetrarveðráttu. Fylgdarmaður okkar segir það ekki ástæðuna. Staðvindar varni því að vísu að tré nái eðlilegri hæð. Hálendi Íslands er snævi þakið mikinn hluta ársins. Það nær sums staðar allt að 12 þúsund feta hæð yfir sjó og er skóglaust með öllu, ólíkt því sem þekkist í Noregi. Íslendingar segja ekki "ég svaf eins og trjádrumbur" (I slept like a log) heldur "ég svaf eins og steinn".

Um það bil 25 mílur (40 km) í austur frá Reykjavík stendur nútímalegt orkuver, sem sér íbúum svæðisins fyrir heitu vatni. Það er staðsett á jarðhitasvæði, sem er eitt af 28 slíkum svæðum á Íslandi. Einn af samferðamönnum okkar, sem er verkfræðingur, segist aldrei hafa séð afkastameiri hitakerfi. Notuð er gufa úr borholum, sem sumar eru meira en mílu djúpar (1,6 km) og nýta vatn úr nálægu stöðuvatni svo úr verður tvöföld orkunýting, sem skilar bæði hita og raforku.

Það er sólskin og heiður himinn. Við erum á ferð um þetta undarlega land jarðhita og gufuorku. Fararstjórinn, sem er verkfræðingur, skríður ofan í sprungu og nær í sjóðheitt vatn til að blanda rommið okkar - svo við fengum morguntoddý. (Við heimsóttum líka gróðurhús og fengum þar morgun-"apertiv" skenkt í holum gúrkum, sem voru fylltar af íslensku brennivíni, eða "black death", sem er þjóðardrykkur Íslendinga og stundum kallað "víkinga-popp".

Við komum á svæði, sem minnti á Yellowstone-svæðið okkar, en miklu hrárra og úfnara. Goshverinn Geysir (Stóri-Geysir) gýs ekki lengur og heitir nú Gamli-Geysir. En það eru aðrir goshverir sem ennþá gjósa á þessu svæði. Jörðin er alsett hvæsandi gufuhverum og bullandi leirhverum. Landið er ein orkulind, þar sem við fáum að sjá bæði jökulár og ferskvatnsár, stórfenglega eldgíga og tignarlega fossa. Goðafoss (Waterfall of the Gods) er sérlega fagur þar sem hann fellur í þremur hlutum. Leiðsögumaðurinn segir okkur sögu af vitrum manni sem bjó á þessu svæði. Honum var falið að ákveða hvort þjóðin ætti að taka kristna trú. Hann hugleiddi málið í þrjá daga og að þeim tíma liðnum snerist hann á sveif með kristnum og kastaði heiðnum goðalíkneskjum sínum í fossinn, sem skýrir nafn hans.

Þegar ferðast er austur eftir Suðurlandi gerist landslagið dulúðugra, því austar sem dregur. Svartir sandar og víðáttumikil hraun mynduðust í eldsumbrotum árið 1783, það eldgos stóð í næstum því ár, skildi eftir sig stærsta hraunflóð frá sögulegum tíma og olli landsmönnum ótöldum hörmungum, hungursneyð og dauða. Árið 1996 gaus undir jökli og orsakaði mikið jökulhlaup sem flutti ísjaka á stærð við íbúðarblokkir til sjávar.

Á Íslandi er að finna suma af stærstu jöklum, þar á meðal stærsta jökul í Evrópu, eins og við áttum eftir að reyna seinna. Við tókum daginn snemma og rútan okkar flutti okkur að jökulrótum. Þaðan fórum við með tveimur Mercedes-jöklabílum með drif á öllum hjólum. Við komumst hærra og hærra, og komum loks að skála, hátt upp á fjalli. Þar vorum við klædd í kuldagalla, kuldaskó og með hjálm á höfði var okkur skipt á vélsleða, til að flytja okkur enn hærra upp á jökulinn, þaðan sem útsýnið var gott til allra átta. Þar, mitt í snjóbreiðu jökulsins og ægifjalla var okkur boðið að setjast til borðs og njóta hressingar af sjávarréttum. Tveir ungir þjónar, hvor við sinn enda borðsins, gengu um beina. Klæddir sem þjónar og skjálfandi úr kulda, báru þeir fyrir okkur 3 tegundir af graflaxi, heilan soðinn lax og lúðu, ýmsa fiskrétti úr laxi, humar og rækju, smokkfisk, salat, brauðbollur með smjöri, vín, bjór og hvað eina. "Snjókettir", ungir menn á vélsleðum, höfðu flutt þessi veisluföng upp á jökulinn, ásamt borðbúnaði og öllu tilheyrandi fyrir komu okkar. Ég sé fyrir mér 20 ferðalanga í gulum kuldagöllum að hraða sér til háfjallaveislu.

Höfn í Hornafirði er einn af þeim stöðum sem veita mér yndi og þokka. En nú þurfum við að búa okkur undir eina "safari"-ferð um hálendið, sem virðist heillandi. Við búum okkur til ferðar í tveimur Ford Econoline-bílum, annar er rauður en hinn er gulur. Þeim hefur verið breytt til að aka um óbyggðir, sérbúnir hvað varðar fjöðrun, bremsur og gírkassa. Við höldum hærra og hærra, yfir vegleysur og jökulár, eftir hættulegum fjallvegum, hlykkjóttum beygjum, sneiðum og hættulegum slóðum. Einn úr hópnum líkti þessu við að hossast á tréhestum í verslunarmiðstöð. Annar bætti því við, að hestinum ætti að vera stillt upp við brún háhýsis. Hvað um það, þótt okkur svimaði við gljúfrum og gígum, komum við öll saman á fögrum stað, þar sem sjá mátti klettaborgir í öllum litum, bláar, grænar, kopargrænar. Síðar, eftir að við höfðum matast, héldum við til baka. Þar sáum við hreindýr, ásamt öðrum heimskautadýrum, og öll önduðum við léttara að vera komin niður af hálendinu.

Á norðurströnd Íslands liggur smábær, sem heitir Húsavík. Þaðan má fara til að skoða hvali. Veðrið er milt, en við vitum að úti á sjó, norður undir íshafsbaug verður kaldara.

Við bætum á okkur flíkum, síðum nærbuxum, blússu, peysum, í viðbót við fullan klæðnað. En vetrarklæðnaður okkar reynist næstum of hlýr í þessum undarlegu veðrabrigðum. Hafrót reyndist fremur lítið og aðeins sást til hrefnu. Það voru okkur vonbrigði, en kvöldið var minnisstætt og unun var að horfa á lundana að leik á haffletinum.

Á norð-vestanverðu Íslandi er smábær sem heitir Flateyri, sem er fögur byggð með mislitum húsum, skýlt af háum fjöllum á alla vegu. Fyrir fáeinum árum varð snjóflóð til þess að þurrka út hluta af þessu sjávarþorpi. Reynum að ímynda okkur vetur á þessum norðlægu slóðum, sól nær ekki að skína marga mánuði ársins. Einn sólbjartan dag siglum við frá Ísafirði inn með Djúpinu að eyju þar sem búa aðeins 11 manneskjur. Forfeður þeirra hafa búið þar árum saman. Aðalbúgrein þeirra er að safna og hreinsa æðardún, enda er eyjan kjörland fyrir æðarkollur og lunda. Við fræðumst um það hvar og hvernig lundar verpa og koma upp ungum sínum. Að þeir grafi sér holur neðanjarðar og jafnvel að þar sé "kamar" fyrir fugla. Við fræðumst um það, hvernig æðardúni er safnað og hann unninn, í þessum fjarlæga landshluta. Við minnumst bestu súpu í heimi og förum enn og aftur í ferð við síðdegissiglingu með þessa ótrúlegu fegurð, sæ, fjöll og himin.

Til að fullkomna þessa ferð okkar um Ísland var okkur boðið í veislu á fínasta veitingahúsi landsins, Perlunni. Hver getur gleymt reykta lambinu, "smoked lamb" fallega skreyttri lúðu og laxi, anístertu með rifsberjasósu og rjómaís.

Hugur okkar allra snýst um nútíð og fortíð þessarar þjóðar - sögur þessarar þjóðar, sem sjá má í mörgum sögusöfnum víðs vegar um landið. Sögum af sjómönnum á þess norðlægu slóðum. Og ekki síst þá ótrúlegu baráttu sem þjóðin öll hefur háð frá 1944 er henni tókst að verða sjálfstæð þjóð. Hér erum við, ferðalangar frá Ameríku. Við sjáum sólina lækka á lofti en ekki dvína eða setjast fyrir neðan sjóndeildarhring. Við smellum okkar "snap shots" af landi og þjóð, sannfærð um að við munum aldrei gleyma Íslandi.

Höfundur er bandarískur ferðalangur. Snorri Helgason snaraði frásögninni.