Frá fundi Bill Clintons Bandaríkjaforseta og forystumanna bandaríska hátækniiðnaðarins 15. febrúar sl., þar sem árásir tölvuþrjóta á vefsetur ýmissa öflugustu fyrirtækjanna á sviði netverslunar voru á dagskrá. Með forsetanum á myndinni sjást Micheal McConn
Frá fundi Bill Clintons Bandaríkjaforseta og forystumanna bandaríska hátækniiðnaðarins 15. febrúar sl., þar sem árásir tölvuþrjóta á vefsetur ýmissa öflugustu fyrirtækjanna á sviði netverslunar voru á dagskrá. Með forsetanum á myndinni sjást Micheal McConn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um leið og Netið býður löghlýðnu fólki upp á óteljandi möguleika til fræðslu og afþreyingar reynist það öflugt vopn í höndum tæknisinnaðra skúrka. Ragnhildur Sverrisdóttir segir að lögregluyfirvöld um allan heim leggi æ meiri áherslu á að þjálfa lögreglumenn til rannsókna á Netinu.

SKÝRT var frá því í Morgunblaðinu hinn 19. janúar sl. að bandarísk og íslensk yfirvöld hefðu rætt um möguleikann á því að íslenskir lögreglumenn tækju þátt í sérstökum námskeiðum og fengju þjálfun á vegum bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, um nýjustu aðferðir við rannsókn tölvubrota og brota sem tengd eru alþjóðlegri glæpastarfsemi svo sem peningaþvætti. Ef þetta gengur eftir er íslenskum lögreglumönnum ekki í kot vísað, því bandarískir starfsbræður þeirra hafa lagt mikla áherslu á að byggja upp öflugt net lögreglumanna með sérþekkingu á tölvuheiminum, og notið til þess eindregins stuðnings yfirvalda. Janet Reno dómsmálaráðherra kemur t.d. vart svo fram opinberlega, að hún leggi ekki mikla áherslu á nauðsyn þess að löggæsla fylgi tækniframförum stíft eftir og gæti þess að elta uppi afbrotamenn, sem nú hafa tekið nýja tækni í þjónustu sína. Dómsmálaráðherrann hefur jafnframt lagt mikla áherslu á víðtækt samstarf við aðrar þjóðir.

Internetið, eða Netið, er stærsta tölvukerfi heims og það lifir sjálfstæðu, frjálsu lífi. Enginn á Netið og þar eru engin landamæri. Helstu kostir Netsins eru hins vegar jafnframt mestu gallar þess. Alls konar skúrkar hafa tekið tækninni fegins hendi og nýta hana til fjársvika, þjófnaðar, peningaþvættis og dreifingar á klámi. Lögregluyfirvöld um allan heim mæta nýjum vanda í þessum landamæralausa heimi. Sá sem skoðar t.d. ólöglegt barnaklám í miðjum Bandaríkjunum eða uppi á Íslandi getur hæglega hafa nálgast það efni frá Rússlandi eða Ástralíu. Tölvusérfræðingar FBI telja að tölvuþrjótinn, sem í byrjun febrúar gerði atlögu að og lamaði um stund nokkur kunn vefsetur, þar á meðal Amazon, eBay, E-Trade og CNN, sé að finna í Þýskalandi. Hann nýtti sér hins vegar tugi eða hundruð fyrirtækjatölva annars staðar í heiminum, t.d. í Kaliforníu, við verknaðinn.

Í desember árið 1997 hittust dómsmálaráðherrar átta stærstu iðnríkja heims á fundi í Washington í Bandaríkjunum, þar sem þeir stilltu saman strengi sína í baráttunni gegn glæpum á Netinu. Þetta voru fulltrúar Bandaríkjanna, Bretlands, Þýskalands, Japans, Ítalíu, Kanada, Frakklands og Rússlands. Ráðherrarnir átta héldu af fundinum með framkvæmdaáætlun í farteskinu, þar sem þeir skuldbundu sig m.a. til að tryggja að ríki þeirra hefðu yfir að ráða þjálfuðum og vel útbúnum lögreglumönnum sem einbeittu sér að baráttunni gegn netglæpum, auk þess sem lögreglan hefði aðgang að tæknimenntuðum sérfræðingum allan sólarhringinn. Þá voru ráðherrarnir sammála um að tryggja, að hver sá sem flýði undan lögsókn vegna netglæpa í einu ríkjanna átta skyldi verða lögsóttur í hinum sjö, eða framseldur ef lög leyfðu. Þá myndu ríkin átta leggja áherslu á að vista og geyma rafrænar upplýsingar áður en netskúrkar næðu að eyða þeim. Loks sögðu svo ráðherrarnir að þeir myndu yfirfara lög í heimalandinu, til að tryggja að skýr viðurlög væri að finna þar gegn netglæpum, auk þess sem þeir myndu leggja áherslu á samstarf við tölvufyrirtæki, með það fyrir augum að koma í veg fyrir netglæpi, finna þá sem brytu af sér á Netinu og draga til ábyrgðar.

Einn netheimur, mörg lög

Þessi fyrstu skref dómsmálaráðherra iðnríkjanna átta eru dæmigerð fyrir þau skref, sem yfirvöld lögreglu- og dómsmála um allan heim hafa tekið á síðustu árum. Bandaríkjamenn fylgdu málinu eftir í fyrra með því að stofna nýtt svið innan FBI, sem fæst eingöngu við rannsókn netglæpa og einbeitir sér m.a. að þeirri ógn, sem stafar frá netskúrkum sem brjótast inn í tölvukerfi opinberra stofnana og fjármálastofnana, svo dæmi séu tekin. Á síðasta ári var jafnframt tilkynnt um samstarf FBI og ýmissa einkaaðila um fjársvikaeftirlit, þar sem einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir geta komið á framfæri kvörtunum sínum um fjársvik á Netinu. Loks má svo nefna, að Bandaríkjamenn hafa lagt áherslu á að fræða börn og ungmenni um þær siðferðilegu reglur sem beri að hafa í heiðri við netnotkun. Janet Reno vísaði m.a. til þess í fjölmiðlum í mars í fyrra, að öll börn gerðu sér grein fyrir að það væri bannað að brjótast inn í hús nágrannans, eða lesa dagbækur vinar, en fæst vissu þau að innbrot í tölvu nágrannans væri ekki minni glæpur, hvað þá innbrot unglinga í tölvur varnarmálaráðuneytisins, eins og dæmi eru um.

Nýjasta dæmið af þeirri áherslu, sem Janet Reno hefur lagt á baráttuna gegn netglæpum, var ræða hennar á fundi bandarískra saksóknara í Stanford-háskóla í Kaliforníu hinn 10. janúar sl. Þar lýsti hún þeirri framtíðarsýn sinni, að komið yrði á víðtæku tölvuneti löggæslu, sem næði til hvers löggæslumanns, hvort sem hann væri í lögregluliði smábæjar eða stórborgar, rannsóknarlögreglumaður hjá FBI eða í löggæsluliði annarra landa.

Í fréttafrásögnum af fundi Reno og bandarískra saksóknara kom fram í hnotskurn hvaða vanda löggæsla um heim allan á við að stríða. Rétt eins og ólík lög gilda á milli hinna ýmsu landa, gilda ólík lög í hinum ýmsu ríkjum Bandaríkjanna. Reno vill tryggja, að hægt sé að handtaka menn í einu ríki fyrir netglæpi sem þeir fremja í öðru. Á fundinum kom hins vegar fram, að skoðanir eru mjög skiptar um þetta. Það myndi til dæmis koma fyrirtækjum best ef þau gætu treyst á að þau væru eingöngu bundin af lögum í því ríki þar sem þau eru staðsett, en frá sjónarhóli neytenda væri eðlilegt að þeir gætu treyst á að lög í heimaríki þeirra giltu um viðskiptin. Netið hefur umturnað þessu, því nú geta neytendur verslað hjá fyrirtækjum um allan heim í gegnum tölvuna sína. Sú verslun er í örum vexti og hvergi hefur þróunin verið örari en í Bandaríkjunum. Verslun almennings á Netinu meira en tvöfaldaðist milli 1998 og 1999 og að sögn tímaritsins Time keyptu Bandaríkjamenn neysluvörur fyrir 15 milljarða bandaríkjadala, 10.830 milljarða króna, á Netinu í fyrra Viðskipti milli fyrirtækja á Netinu námu 109 milljörðum bandaríkjadala, hátt í 8 þúsund milljarða króna. Þessi viðskipti kalla á athygli tölvuþrjóta og nýjasta dæmið er þjófnaður á greiðslukortanúmerum af vefsetri CD Universe í janúar sl. Tölvuþrjóturinn, sem kallaði sig Maxus, krafðist um 7 milljóna króna, en þegar CD Universe neitaði að greiða birti þrjóturinn þúsundir greiðslukortanúmera á Netinu, þar sem aðrir þrjótar hefðu getað nálgast þau og nýtt. Vefsíðunni með númerunum var lokað um leið og upp komst.

Eitt dæmi af viðskiptum á Netinu landa á milli kom upp skömmu fyrir síðustu áramót, þar sem seljandi vöru braut engin lög, en móttakandi hennar braut hins vegar lög síns heimaríkis. Tvær stærstu bókabúðir á Netinu, Amazon.com og Barnesandnoble.com, höfðu báðar til sölu bók Adolfs Hitlers, Mein Kampf. Viðskiptavinir um allan heim gátu farið inn á heimasíður bókabúðanna, pantað bókina og fengið hana senda heim. Þar var sá hængur á, að í Þýskalandi er nasistaáróður af öllu tagi bannaður og yfirvöld voru mjög ósátt við að bók Hitlers skyldi rata þessa leið inn í landið. Bókabúðirnar, sem eru báðar með höfuðstöðvar í Bandaríkjunum, hefðu að öllum líkindum getað haldið sölunni áfram, enda ekkert í lögum þar sem bannar sölu hennar, en ákváðu að verða við tilmælum þýskra yfirvalda og hætta að selja bókina þarlendum. Þýsk útgáfa Amazon.com, sem heitir Amazon.de, hefur aldrei haft bók Hitlers til sölu og ekki heldur bókabúðir þýska útgáfufyrirtækisins Bertelsmann AG, sem á 40% hlut í Barnesandnoble.com.

Erfiðleikar við löggæslu

Árið 1998 brugðust yfirvöld í Bandaríkjunum hart við, þegar þau komust að því að nokkrar heimasíður á Netinu, þar sem hægt var að veðja á úrslit íþróttaleikja, hefðu tekið við fé frá fólki í Bandaríkjunum. Í flestum ríkjum Bandaríkjanna eru veðmál og fjárhættuspil bönnuð, en þeir sem ráku heimasíðurnar töldu sig lausa undan löngum armi löggæslunnar með því að koma sér fyrir á eyjum í Karíbahafinu eða í ríkjum í Suður-Ameríku, þar sem starfsemi af þessu tagi er lögleg. Bandarísk stjórnvöld litu hins vegar ekki svo á, heldur töldu sig hafa lögsögu þar sem ríkisborgarar þeirra hefðu tekið þátt í starfseminni, en neyddust til að styðjast við heldur úreltar lagagreinar, sem banna veðmál yfir símalínur. Þau lög eru nú í endurskoðun, enda telja heimamenn hæpið að hægt verði að teygja þau svo að þau nái yfir símasamband um gervihnetti.

Í nýju, bandarísku lagafrumvarpi er lagt blátt bann við að fólk noti tölvurnar sínar til veðmála eða fjárhættuspila, en fréttaskýrendur telja frumvarpið ganga of langt; það sé alla vega hæpið að banna fólki í þeim ríkjum þar sem veðmál og fjárhættuspil eru þegar leyfð, til dæmis í Nevada, að nota tölvurnar sínar frekar en að rölta út í næsta spilavíti. Það er a.m.k. vandséð hvernig á að framfylgja lögum af þessu tagi. Og ekki má gleyma því að víða í Bandaríkjunum eru hrossaveðhlaup leyfileg, þótt ekki megi veðja á íþróttamenn, og veðbrautirnar eru ósáttar við að nú eigi að koma í veg fyrir framþróun með því að banna fólki að nota tölvurnar til að veðja á hrossin. Öldungadeild bandaríska þingsins hefur þegar afgreitt frumvarpið, sem nú er til meðferðar hjá fulltrúadeildinni.

Á síðasta ári komu upp allnokkur mál í Bandaríkjunum, þar sem fyrirtæki freistuðu þess að fá róg um starfsemi sína fellda út af vefsetrum. Í einu tilviki fullyrti einhver tölvuþrjótur, sem faldi sig á bak við dulnefni, að forstjóri tiltekins fyrirtækis í Seattle sæti í fangelsi vegna fjársvika. Ýmsir aðrir, sem einnig rituðu undir dulnefni, tjáðu sig um þennan meinta forstjóraskúrk, en þegar fyrirtækið hafði samband við vefsetrið, Yahoo, neitaði það að fjarlægja ummælin, sem áttu sér enga stoð í raunveruleikanum. Fyrirtækið kærði hina orðljótu og nafnlausu fyrir róg, en í tilvikum sem þessum þarf að fá úrskurð dómara til þess að vefsetrin grafist fyrir um tölvupóstfang sendanda rógsins og í framhaldinu þarf að fá upplýsingar hjá vefþjónustufyrirtækjum um hver standi að baki tölvupóstfanginu.

Í ofangreindum málum voru vefþjónustufyrirtækin ekki talin ábyrg á því efni, sem dreift var á Netinu. Þjóðverjar reyndu að fara þá leið, þegar undirréttur í München dæmdi forstjóra netþjónustufyrirtækisins CompuServe í tveggja ára fangelsi, skilorðsbundið, og til greiðslu nær 4 milljóna króna sektar vegna klámefnis sem fannst á síðum á vegum fyrirtækisins árið 1995. Áfrýjunardómstóll komst hins vegar að þeirri niðurstöðu, að vefþjónustufyrirtækið bæri ekki lagalega ábyrgð á því efni sem viðskiptavinir þess settu á Netið. Þeim dómi var ákaft fagnað af þýskum netþjónustufyrirtækjum, sem töldu ákæruna og fyrri dóminn ekki eiga sér nokkra stoð í þýskum lögum, auk þess sem dómurinn, hefði hann staðið óbreyttur, hefði kippt fótunum undan þýsku fyrirtækjunum.

Vill skráningu allra netverja

Þar sem yfirvöld eiga oft fullt í fangi með að rekja sig að tölvuþrjótum hefur sá möguleiki verið nefndur, að hver sá sem fær aðgang að Netinu eigi að vera skráður. Í nóvember á síðasta ári hafði fréttaþjónustan ZDNet eftir Robert Cailliau, belgíska hugbúnaðarfræðingnum sem var upphafsmaður veraldarvefsins ásamt Bretanum Tim Berners-Lee, að hann teldi sjálfsagt að skrá alla þá sem ferðuðust um á upplýsingahraðbrautinni, rétt eins og ökumenn þyrftu að hafa tilskilin réttindi og skráningarvottorð fyrir sig og bíla sína. Skráning af því tagi myndi til dæmis auðvelda mönnum að rekja barnaklámefni eða netsíður sem dreifa kynþáttaáróðri til upphafsmannanna, auk þess sem hún myndi gera notendur Netsins meðvitaðri um rétt sinn og skyldur. "Netið er annar heimur, sem getur verið hættulegur. Þú getur skaðað aðra og þeir geta skaðað þig, rétt eins og í umferðinni á vegum úti," sagði Cailliau, sem bætti því við að Netið og veraldarvefurinn stæðu algjörlega utan við öll landamæri. Heimasíður með móðgandi eða særandi efni og "ruslpóstur" af ýmsu tagi menguðu Netið, rétt eins og loftmegnun eins lands skilaði sér í verra lofti hjá því næsta. Hann benti á, að ríki heims hefðu lagt áherslu á að komast að samkomulagi um hvernig draga bæri úr mengun, sem snerti alla, og á sama hátt ættu þau að geta komið sér saman um grundvallarreglur um Netið. Cailliau lagði þó mikla áherslu á að yfirvöld gætu aldrei sett reglur um hvernig uppbyggingu Netsins skyldi háttað, en ef það kæmi í ljós að þar leyndist til dæmis efni á borð við barnaklám, þá ætti að vera hægt að rekja það til upphafsmannsins.

Hugmyndir Cailliaus eiga sér hljómgrunn hjá mörgum, en aðrir segja fráleitt að ætla að skrá alla þá sem ferðast um upplýsingahraðbrautina, enda sé helsti kostur hennar að hún hafi byggst upp án nokkurra tilskipana eða afskipta stjórnvalda. Kostir frjálsræðisins séu svo yfirgnæfandi, að gallarnir sem felist í hugsanlegri misnotkun séu engan veginn nægir til að kollvarpa núverandi fyrirkomulagi.

Saklausar ímyndir FBI

Sú netlöggæsla, sem einna mesta umfjöllun hefur fengið í fjölmiðlum í Bandaríkjunum, á rætur sínar að rekja allt aftur til 1993 og kallast Innocent Images, eða Saklausar ímyndir. Deildin var stofnuð innan alríkislögreglunnar FBI eftir að tíu ára drengur hvarf frá heimili sínu í Baltimore og rannsókn málsins leiddi lögreglu að fólki, sem hafði notað Netið til að tæla til sín börn og unglinga og til að dreifa klámefni. Við nánari rannsókn sá FBI skýr dæmi um að barnaníðingar væru ötulir notendur Netsins og deildin var stofnuð til að bregðast við því. Höfuðstöðvarnar eru í Baltimore, en á hverri af alls 56 skrifstofum alríkislögreglunnar um gjörvöll Bandaríkin eru starfsmenn, sem eru sérþjálfaðir í rannsóknum á Netinu. Þá njóta lögreglumennirnir samstarfs við netþjónustufyrirtæki, sem flest leggja mikla áherslu á að loka netaðgangi þeirra sem uppvísir verða að ólöglegu athæfi. Undanfarin tvö ár hefur starfsemi Innocent Images verið efld mjög, til dæmis var fjöldi starfsmanna tvöfaldaður árið 1998 og 700 milljónum króna er nú varið til þessa verkefnis árlega.

Alríkislögreglumenn og aðrir starfsmenn stofnunarinnar leita uppi barnaklám á Netinu og rekja sig til upphafsmanna þess, auk þess sem stór þáttur í starfseminni er að fylgjast með umræðum á spjallrásum Netsins, en þar leita barnaníðingar sér fórnarlamba. Alríkislögreglumenn taka þátt í umræðunum með því að villa á sér heimildir. Þeir þykjast t.d. vera 13, 14 ára unglingar og fjölmörg dæmi eru um að barnaníðingar hafi gengið í gildruna, leitað eftir að fá að hitta viðmælandann, með kynferðislegt samband í huga, en hitt fyrir alríkislögregluna. Lögreglumennirnir eru sérstaklega þjálfaðir í að láta viðmælandann ávallt eiga upptökin að kynferðislegum samskiptum, rituðum eða töluðum, til að forðast að sakborningar geti síðar haldið því fram að þeir hafi verið leiddir í gildru á ólöglegan hátt.

FBI einbeitir sér að svokölluðum "ferðalöngum", þ.e. mönnum sem eru tilbúnir að ferðast ríkja á milli til að hafa kynferðissamband við börn eða unglinga, því um leið og ferðalangurinn fer yfir ríkjamörkin fellur afbrot hans undir lögsögu alríkislöreglunnar. Langflestir ferðalanga eru hvítir karlmenn á aldrinum 25-45 ára, ágætlega menntaðir og með þokkalegar tekjur, a.m.k. svo góðar að þeir víla ekki fyrir sér að leggjast í ferðalög. Margir ferðalanganna eru kvæntir og eiga sjálfir börn.

Eitt umtalaðasta mál þessa tegundar í Bandaríkjunum er handtaka Patrick Naughtons, fyrrverandi yfirmanns hjá Disney-fyrirtækinu Go.com. Hann var handtekinn í Los Angeles sl. haust þar sem hann hafði mælt sér mót við viðmælanda á Netinu, sem sagðist vera 13 ára stúlka, en reyndist vera starfsmaður FBI. Í desember var Naughton dæmdur fyrir að hafa barnaklám í fórum sínum, sem er ólöglegt í Bandaríkjunum líkt og á Íslandi, en kviðdómur klofnaði í afstöðu sinni til þess hvort hann hefði í raun talið að viðmælandinn væri 13 ára stúlka, eða hvort hann hefði talið hann fullorðna konu í hlutverkaleik, eins og hann hélt sjálfur fram. Þar sem niðurstaða fékkst ekki í málinu verður réttað í því á ný á næstunni.

FBI ósátt við væga dóma

Frá árinu 1995 hefur starf Innocent Images-deildarinnar innan FBI leitt til handtöku 487 ferðalanga og manna sem dreift hafa barnaklámi á Netinu. Af þessum 487 er þegar búið að dæma 409 fyrir brotin, en hin málin 78 bíða úrlausnar dómstóla. Árangurinn af starfinu er því umtalsverður, en FBI hefur þó lýst óánægju með hve væga dóma margir netskúrkanna fá. Dómarar vísi m.a. til þess að sakborningar séu að mörgu leyti hinir ágætustu borgarar og að um fyrsta brot þeirra sé að ræða, þótt ýmsir efist nú reyndar um að þeir séu ávallt gripnir við fyrsta brot, en það er önnur saga. Sumir dómarar vísi einnig til þess, að ekkert fórnarlamb sé til staðar, þar sem það hafi í raun verið fulltrúi FBI, en ekki barn eða unglingur, sem sakborningurinn hafði samband við.

FBI hefur gefið út leiðbeiningar til foreldra, þar sem þeim er bent á að hafa fjölskyldutölvuna ekki lokaða inni í herbergi, þar sem barnið eða unglingurinn getur farið eftirlitslaust inn á hvaða spjallarásir sem er. Þá er brýnt fyrir netnotendum að veita ekki persónulegar upplýsingar á spjallrásum, að gæta sín á öllum tilboðum viðmælenda um stefnumót og lögð áhersla á að fólk svari ekki þeim viðmælendum sem hafa óviðurkvæmileg orð uppi.

Af þeim virðist vera nóg, því fyrir hverja eina síðu sem lokað er spretta upp tíu nýjar.