EKKI eru mörg ár síðan Kampala, höfuðborg Úganda, var vígvöllur drukkinna hermanna sem þóttu ötulli við að herja á borgarbúana og láta greipar sópa um hús þeirra en að berjast sín á milli.

EKKI eru mörg ár síðan Kampala, höfuðborg Úganda, var vígvöllur drukkinna hermanna sem þóttu ötulli við að herja á borgarbúana og láta greipar sópa um hús þeirra en að berjast sín á milli. Eftir tveggja áratuga einræði, fátækt og stríð sem lauk 1986 og kostaði allt að milljón manna lífið eru Úgandamenn nú yfirleitt ánægð þjóð, njóta ávaxta 7% hagvaxtar og meira frelsis en nokkur dæmi eru um í sögu landsins.

"Við höfum aldrei haft það svona gott," sagði Quinto Ebony, þrítugur læknir, sem leikur á rafmagnsgítar á tónlistarkrá í höfuðborginni.

"Áður hugsuðu menn um það eitt að komast héðan. Núna eru börn þeirra sem flúðu til Bandaríkjanna, Bretlands og annarra Evrópuríkja að snúa hingað aftur, til að búa hérna, ekki til að koma í heimsókn," sagði Hope Kivengere, talsmaður Yoweri Museveni forseta, sem er sagður eiga mestan heiðurinn af uppganginum í Úganda.

Flokkur forsetans, Andspyrnuhreyfing Úganda, var í fyrstu vinstrisinnuð uppreisnarhreyfing, sem aðhylltist "afrískan sósíalisma". Liðsmenn hreyfingarinnar voru þjálfaðir í Norður-Kóreu og Líbýu.

Hreyfingin tók hins vegar að hneigjast til kapítalisma þegar hún komst til valda árið 1986 eftir fimm ára baráttu gegn einræði Idi Amins og Miltons Obote.

Helmingur skuldanna afskrifaður

Vestrænir lánardrottnar hafa nú dálæti á stjórn Úganda sem hefur lagt kapp á að auka frjálsræðið í efnahagnum, selja ríkisfyrirtæki og stuðla að aukinni fjárfestingu fyrirtækja. Úganda varð fyrsta ríkið í Afríku sem náði samkomulagi við lánardrottna sína um að þeir afskrifuðu helming erlendra skulda landsins. Stjórnin hyggst nota fjármagnið, sem annars hefði farið í að greiða skuldir, til að bæta skólana, heilsugæsluna og samgöngurnar.

Kampala. AP.