NÝVERIÐ var lokið við að dreifa nýrri og yfirgripsmikilli handbók Kópavogsbæjar - Handbók Kópavogs. Bókin hefur að geyma ýmsar nytsamlegar upplýsingar um þá þjónustu sem bærinn veitir íbúum, fyrirtækjum og stofnunum í bæjarfélaginu.

NÝVERIÐ var lokið við að dreifa nýrri og yfirgripsmikilli handbók Kópavogsbæjar - Handbók Kópavogs. Bókin hefur að geyma ýmsar nytsamlegar upplýsingar um þá þjónustu sem bærinn veitir íbúum, fyrirtækjum og stofnunum í bæjarfélaginu. Bókinni er skipt upp í átta meginkafla sem eru: Saga Kópavogs, stjórn bæjarins, fjármála- og stjórnsýslusvið, framkvæmda- og tæknisvið, félagsmál, fræðslu- og menningarmál, ýmis þjónusta og kirkjumál. Aftast er nákvæm atriðisorðaskrá. Bókina prýðir á annað hundrað litmyndir.

Bókin miðar að því að gera íbúum og stjórnendum fyrirtækja auðveldara að nálgast upplýsingar um þá þjónustu sem bærinn veitir. Hún greiðir allan aðgang að t.d. starfsmönnum bæjarins, hverjir fara með tiltekna málaflokka, hvar hverfamörk grunn- og leikskóla liggja. Hún greinir frá málefnum eldri borgara og fatlaðra, íþrótta- og æskulýðsmálum, söfnum, heilbrigðismálum og ýmsu fleiru.

Bókin er 96 bls., gormbundin og prentuð á umhverfisvænan pappír í brotinu 21x21 cm. Kópavogsbær gefur bókina út en ritstjórn, umsjón og hönnun önnuðust Önundur Björnsson og Sveinn Þórðarson.