SAMKEPPNISRÁÐ hefur ákvarðað að ekki sé ástæða til að hafast frekar að vegna erindis Landssíma Íslands hf. vegna meintrar misnotkunar Íslenska útvarpsfélagsins hf. og Sýnar hf. á markaðsráðandi stöðu sinni.

SAMKEPPNISRÁÐ hefur ákvarðað að ekki sé ástæða til að hafast frekar að vegna erindis Landssíma Íslands hf. vegna meintrar misnotkunar Íslenska útvarpsfélagsins hf. og Sýnar hf. á markaðsráðandi stöðu sinni.

Í erindi Landssímans, sem barst Samkeppnisstofnun 30. nóvember 1998, var farið fram á könnun á því hvort heimilt væri að tengja verðlagningu áskriftar á mismunandi stöðvum, hvort ekki sé eðlilegt að aðskilja rekstur Fjölvarpsins frá öðrum rekstri og að samkeppnisráð banni að áskriftargjöld að Fjölvarpi séu niðurgreidd af rekstri annarrar sjónvarpsstarfsemi Íslenska útvarpsfélagsins.

Breiðvarpið í samkeppni við Fjölvarpið

Í erindi Landssímans er á það bent að Breiðvarpið hafi um nokkurt skeið boðið upp á áskrift að erlendum sjónvarpsstöðvum, í samkeppni við áskriftarsjónvarp Íslenska útvarpsfélagsins hf., einkum Fjölvarpið. Eftir að Breiðvarpið hóf starfsemi sína hafi verðlagningu á Fjölvarpinu verið háttað þannig að í mörgum tilvikum hafi verið um niðurgreiðslu að ræða. Í því sambandi er á það bent að veittur sé afsláttur af áskrif að Fjölvarpinu ef viðkomandi sé einnig áskrifandi að Stöð 2 eða Sýn. Niðurgreiðsla af hálfu Íslenska útvarpsfélagsins/Sýnar hafi að þessu leyti skaðleg áhrif á samkeppni, því þar með séu samkeppnismöguleikar Breiðbandsins verulega skertir og jafnframt valkostir neytenda til framtíðar. Í umsögn Íslenska útvarpsfélagsins um málið var því mótmælt að félagið eða Sýn niðurgreiði áskrift að Fjölvarpinu þegar það er selt með dagskrárrásum sjónvarpsstöðvanna. Af hálfu Íslenska útvarpsfélagsins og Sýnar var því einnig mótmælt að fyrirtækin hefðu markaðsráðandi stöðu og að fyrirtækin hefði raskað samkeppni.

Tap á rekstri Sýnar 1997 og 1998

Það var mat samkeppnisráðs að Íslenska útvarpsfélagið hefði ekki markaðsráðandi stöðu á almennum sjónvarpsmarkaði. Samkeppnisráð horfði til rekstrar Sýnar í því skyni að meta hvort fyrirtækið hefði þann efnahagslega styrkleika sem gerði því kleift að beina fjármagni til Íslenska útvarpsfélagsins til þess að standa fyrir undirverðlagningu á Fjölvarpi, sem er í samkeppni við Breiðvarp Landssímans. Athugunin leiddi í ljós að umfang rekstrar Sýnar er tiltölulega lítið. Samkvæmt ársreikningum 1998 var tap á rekstri félagsins og árið áður hafði félagið einnig verið rekið með miklu tapi. Samkeppnisráð dregur þá ályktun af athugun á afkomu og fjárhagsstöðu Íslenska útvarpsfélagsins að félagið hafi ekki þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni á almennum sjónvarpsmarkaði. Samkeppnisráð lítur svo á að ekki sé lagaheimild til staðar til að kveða á um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri Íslenska útvarpsfélagsins.