Frá sýningu Macintyre hjá Íslenskri grafík, Hafnarhúsinu.
Frá sýningu Macintyre hjá Íslenskri grafík, Hafnarhúsinu.
Til 12. mars. Opið fimmtudaga til sunnudaga frá kl. 14-18.

GRAVITY Skins kallar Alistair Macintyre sýningu sína á stórum grafíkmyndum, sem hann vinnur úr ís og járni. Hann fergir pappírinn með járnbökkum fylltum ís og smám saman ryðgar málmurinn og ísinn blandast pappírnum. Hinar tilviljanakenndu afleiðingar sitja eftir á pappírnum sem prentað far, ryðbrúnt í öllum mögulegum blæbrigðum.

Macintyre, sem dvelst hér langdvölum, segist hafa notað ís um árabil vegna þeirra eiginleika hans að breytast úr þrívíðum massa í tvívíðan vökva. Eyðingarmáttur íssins í tengslum við járnið, sem brotnar smám saman niður í ryðduft, er eins konar spegilmynd þeirra náttúrulegu krafta sem eru alls staðar í kringum okkur. Tíminn og umbreytingaröflin vinna verk sitt hægt en örugglega. Pappírinn verður eins konar vitnisburður um þessa virkni, því á hann skráist öll þessi framvinda.

Um leið verður verkið eins konar tákn um það hvernig allir massar brotna niður á endanum og verða tvívíðir. Og listamaðurinn bendir einmitt á það hvernig pappírinn verður eins og sjóndeildarhringurinn þar sem allt er skráð í flötinn eins og tilviljanakenndar teikningar.

Í innra herberginu hefur Macintyre bætt bláum olíulit ofan á ísinn.

Þannig líður og bíður uns, að lokum, liturinn berst í pappírinn og litar hann. Olían drekkst ofan í pappírinn, en skærblár liturinn liggur ofan á pappírnum líkt og skærleitir flekkir af litadufti. Hér er eitthvað sem óneitanlega minnir á Yves heitinn Klein og bláa litinn hans, því svipuð, þykk og mött áferð myndast í yfirborði pappírsins í bland við ryðið. Sum þessara rismiklu verka mynda massífa heild eins og skildir, enda bera þau nafn með rentu, Aegis, sem voru skildir eða verndarvængir Seifs og Pallas Aþenu. Önnur verk hafa safnað í sig ísvatninu líkt og segl í rigningu svo að taumar liggja út um allt frá miðjunni. Þau verða eins og andstæða skjaldamyndanna, og minna einna helst á splundrandi Medúsuhöfuð.

Krafturinn og splundrandi hendingin í grafíkmyndum Alistair Macintyre er vægast sagt hrífandi. Stærð myndanna, sem hæglega ná tveim metrum, ýtir undir upplifunina. Listamanninum tekst nefnilega að færa eitthvað af óhöndlanlegum eiginleikum náttúrunnar beint inn í myndir sínar og það nýtur sín ekki síst vegna stærðar verkanna. Hversu lítið sem Macintyre ræður för í sjálfu ferlinu hefur hann einstaklega sterka tilfinningu fyrir heildaráhrifunum. Þannig er útkoman í stórum dráttum af hans völdum þótt ísinn og járnið fari með aðalhlutverkin í þessu frábæra sjónarspili.

Halldór Björn Runólfsson