Þegar er uppselt í margar ferðir í sumar
Þegar er uppselt í margar ferðir í sumar
FERÐASKRIFSTOFUM sem selja sólarlandaferðir ber saman um að aukning sé í sölu slíkra ferða í sumar, þrátt fyrir framboð á ódýrum flugfargjöldum til Evrópu.

FERÐASKRIFSTOFUM sem selja sólarlandaferðir ber saman um að aukning sé í sölu slíkra ferða í sumar, þrátt fyrir framboð á ódýrum flugfargjöldum til Evrópu.

"Það er greinilegt að margir ætla í sólina," segir Helgi Jóhannsson forstjóri hjá Samvinnuferðum-Landsýn, sem segir að flugfrelsi sem SL bjóða upp á til ýmissa borga, virðist ekki hafa áhrif á sölu sólarlandaferða. "Við erum með 20% aukningu á bókunum í sólina ef miðað er við sama tíma í fyrra.

Mest hefur verið bókað í ferðir til Mallorca en einnig hefur verið spurt töluvert um ferðir til Rimini á Ítalíu og Benidorm á Spáni."

Þá segir Helgi að stéttarfélagsfargjöld í sólarlandaferðir til Portúgal hafi vakið athygli og bókanir hafa farið mjög vel af stað.

Uppselt í fyrstu 5 ferðirnar til Krítar

Að sögn Guðrúnar Sigurgeirsdóttir framleiðslustjóra hjá Ferðaskrifstofu Íslands - Úrvali Útsýn tóku Íslendingar því vel að fá nýjan áfangastað á sólarströnd en fyrstu tvær ferðirnar til Krítar seldust upp á nokkrum klukkustundum og nú er uppselt í fyrstu fimm ferðirnar fram í miðjan júní. "Við erum búin að bóka um 2.000 manns þangað."

Guðrún segir að á næstu vikum séu að fara 1.200 farþegar í sex sérferðir til mismunandi áfangastaða, Rómar, Jerúsalem, Prag og Barcelona.

Stærsti áfangastaður ferðaskrifstofunnar í sumar er hinsvegar Portúgal og þangað er uppselt um páskana og þegar búið að bóka 5.000 farþega þangað í sumar. Á sama tíma í fyrra segir hún að um 2.000 bókanir hafi verið komnar til Portúgal. Hún segir einnig aukningu á farþegum til Mallorka í sumar en þegar er búið að bóka 3.500 farþega en á sama tíma í fyrra var búið að bóka þangað um 2.000. farþega

Guðrún segir að sumarleyfisferð á heitar slóðir sé orðinn ríkur þáttur hjá fjölskyldufólki á Íslandi en telur einnig að harður vetur hér á landi ýti undir ferðagleði landans.

30% aukning á bókunum

Andri Már Ingólfsson forstjóri Heimsferða segir að viðbrögðin frá því ferðir sumarsins hafi verið kynntar hafi verið mjög góð og að um sé að ræða 30% aukningu á bókunum frá því í fyrra. "Um 6.000 farþegar hafa þegar bókað sig í sólarlandaferð með Heimsferðum í sumar og ber þar hæst Costa del Sol og uppselt er í 12 ferðir þangað af 36. Þá er uppselt í átta ferðir af tuttugu í sumar til Benidorm."

Andri Már segir að verðið á sólarlandaferðum sé svipað og í fyrra eða hafi lækkað og nú sé boðið upp á beint flug á alla áfangastaði Heimsferða.