Marta Einarsdóttir ásamt vallabíu, sem er smávaxin kengúrutegund. Þessi hefur verið tamin af ferðamönnum. Önnur, stærri tegund er notuð til manneldis
Marta Einarsdóttir ásamt vallabíu, sem er smávaxin kengúrutegund. Þessi hefur verið tamin af ferðamönnum. Önnur, stærri tegund er notuð til manneldis
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kengúrur eru ekki hversdagsmatur á borðum Ástrala en vinsæll réttur á ferðamannastöðum, sérstaklega í mið- og norðurhluta landsins. Þar er einnig hægt að gæða sér á emúum, kameldýrum og krókódílum. Marta Einarsdóttir bragðaði á þessum framandi réttum.

EITT af því sem mér finnst mest heillandi við ferðalög erlendis er að fá tækifæri til að bragða mat sem er öðruvísi en heima. Þegar ég á einum af mínum fyrstu dögum í Ástralíu rekst á tilboðsskilti sem auglýsir kengúrusteik, franskar og salat, á 650 krónur, er ég því ekki lengi að bregða mér inn.

Staðurinn heitir Scotty's Tavern, í Alice Springs, sem er í hinni svokölluðu ,,rauðu miðju Ástralíu". Þetta er krá sem selur mat á sanngjörnu verði.

Meðalsteikt kengúrukjöt

Ég sest við borð úti í síðdegissólinni. Þjónnninn kemur þjótandi að vörmu spori og brosir breitt. Ég bið um kengúruréttinn og hann spyr hvernig kjötið eigi að vera steikt. Ég hef auðvitað enga hugmynd um það en maðurinn útskýrir að það sé best að steikja hana eins og maður steiki venjulega nautakjöt. Ég bið um lítið, til meðalsteikta.

Steikin kemur eftir skamma stund og lítur út eins og þykkur biti af nautalund. Frönsku kartöflurnar eru óvenju stórt skornar. Ég bið um tómatsósu. ,,Tómatsósu! Og þú hefur ekki einu sinni bragðað á þessu," segir þjónninn.. ,,Ég ætlaði að nota hana á frönskurnar," segi ég. ,,Já," segir hann og hristir brosandi hausinn, ,,án þess að smakka þær fyrst." Hann er semsagt að gera að gamni sínu! Að áströlskum sið er hann líflegur og lætur eins og hann hafi þekkt mig alla ævi. Tómatsósan kemur að vörmu spori en hann hefur rétt fyrir sér, hún er alveg óþörf. Þetta eru líklega bestu frönsku kartöflur sem ég hef bragðað á ævinni. Kengúran er gómsæt. Kjötið er safaríkt og bráðnar uppi í mér. Það er framreitt á einfaldan hátt, kryddað með salti og pipar og minnir helst á nautakjöt. Rétturinn er mjög vel útilátinn, enda er maturinn yfirleitt ekki sparaður á diskana í Ástralíu.

Fyrir utan kengúrusteikina býður Scotty's Tavern upp á grilldisk, þar sem hægt er að bragða kameldýra-, emúa-, krókódíla- og kengúrukjöt.

Kameldýrið næstbest

Þar sem kengúrusteikin var einstaklega gómsæt finnst mér tilvalið að koma aftur næsta kvöld og prófa hina réttina. Herlegheitin eru borin fram á fjórum grillpinnum, hver tegund á einum pinna, auk salats og franskra kartaflna. Af þessum fjórum tegundum finnst mér kengúran bragðmest og best. Síðan kameldýrið en bragðið af því er einhverstaðar á milli lamba- og nautakjöts. Krókódílakjötið er hvítt á lit og bragðdauft, líklega ekki nógu vel kryddað. Það líkist einna helst kjúklingi. Emúakjötið hefur villifuglakeim en er einnig heldur bragðlítið fyrir minn smekk.

Sumum þykir kannski villimannlegt að drepa og éta kengúrur, þetta krúttlega þjóðartákn Ástralíu, en þær eru ekki í útrýmingarhættu. Áætlað er að kengúrustofninn sé 15 til 25 milljónir dýra og árlega eru 10-15% þeirra drepin til manneldis. Þessi atvinnugrein skilar um 10 milljörðum í ástralska þjóðarbúið og skapar yfir 4000 störf. Kengúrurnar eru villtar og veiddar undir eftirliti og stór hluti kjötsins er fluttur út. Þannig að þeir sem ekki eru tilbúnir til að fara yfir hálfan hnöttinn til að smakka gætu t.d. reynt í Bretlandi eða Þýskalandi.