Gunnar  Kjartansson
Gunnar Kjartansson
"ÉG á enn blaðamannaskírteini frá 1959, undirritað af Bjarna Benediktssyni, sem var þá ritstjóri Morgunblaðsins," rifjar Gunnar Kjartansson fiðluleikari upp, þegar Morgunblaðið ber á góma.

"ÉG á enn blaðamannaskírteini frá 1959, undirritað af Bjarna Benediktssyni, sem var þá ritstjóri Morgunblaðsins," rifjar Gunnar Kjartansson fiðluleikari upp, þegar Morgunblaðið ber á góma. Það varð þó tónlistin og ekki blaðamennskan, sem Gunnar lagði fyrir sig, þótt hann spreytti sig lítillega á því síðarnefnda. Meðal annars fór hann á Edinborgarhátíðina og skrifaði um hana.

Síðan 1970 hefur Gunnar leikið með dönsku útvarpshljómsveitinni og segist kunna firna vel við sig þar. "Ég er líka hálfur Dani, mamma var dönsk," bætir hann við og segist því vera á heimaslóðum í Danmörku, þar sem hann ólst að hluta upp. Faðir hans er Kjartan Sigurðsson arkitekt, sem á sínum tíma rak teiknistofu með arkitektunum Sigvalda Thordarson og Gísla Halldórssyni.

Það voru ýmsir tónlistarmenn með Gunnari í Menntaskólanum í Reykjavík á sínum tíma, meðal annars tónskáldin Atli Heimir Sveinsson og Þorkell Sigurbjörnsson, en einnig Halldór Haraldsson píanóleikari. "Ég flutti reyndar fyrstu verk þeirra Atla Heimis og Þorkels á menntaskólaárunum, hvort tveggja fiðlusónötur, þar sem þeir spiluðu sjálfir undir á píanó," segir Gunnar og bætir við að það sé skemmtilegt að hugsa til þessa frumflutnings.

Síðasta árið í menntó las Gunnar utanskóla til að geta spilað með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Á þeim árum var Bohdan Wodiczko aðalhljómsveitarstjóri og Björn Ólafsson var konsertmeistari. "Björn var viðkvæmur en afar góður maður," minnist Gunnar. Veturinn eftir hélt Gunnar utan til framhaldsnáms, var fyrst í Köln og síðan í Prag.

Gunnar segir að það sé góður andi í hljómsveitinni, sem sé eins og oft með útvarpshljómsveitir með fastan og áþreifanlegan hljóm, því yfirferðin sé mikil. "Við spilum svo mikið, svo það gildir að lesa í gegn, klára verkefni og taka til við það næsta. Í óperuhljómsveitum er það sama spilað aftur og aftur og hægt að liggja yfir og fága. Það má segja að við plægjum okkur í gegnum efnisskrána," segir Gunnar með glettnisglampa í augum.

Gunnar er á því að Danir séu músíkalskir, þótt honum hafi ekki þótt svo í fyrstu. "Það eru danskir söngvarar að syngja í óperuhúsum um allan heim, þó danskan virðist ekki músíkölsk, svo eitthvað hlýtur að liggja í þeim," segir hann.

Hljómsveitin fer í tvær til þrjár tónleikaferðir á ári og ferðin nú er þriðja Bandaríkjaferðin. Gunnar segir að ferðalögin séu nokkuð álag og spennan kannski ekki sú sama og áður, þegar fólk ferðaðist almennt minna. Hluti af ferðalögum hljómsveitarinnar eru ferðir, sem farnar eru til að kynna danskan iðnað og afurðir og þá er Margrét Þórhildur Danadrottning oft með í för.

Á efnisskránni í Reykjavík verður á efnisskránni 2. sinfónía Sibeliusar og 4. sinfónía Carl Nielsens, en einnig verk eftir danska tónskáldið Poul Ruders, sem er eitt þekktasta núlifandi tónskáld Dana. Í byrjun mars verður frumflutt eftir hann ópera í Konunglega leikshúsinu, byggð á sögu eftir Margaret Atwood.