SJÓVÁ-Almennar tryggingar hf. hafði mesta hlutdeild á innlendum tryggingamarkaði í lögboðnum ábyrgðartryggingum ökutækja á síðasta ári, þ.e. án lögboðinnar slysatryggingar ökumanns og eiganda.

SJÓVÁ-Almennar tryggingar hf. hafði mesta hlutdeild á innlendum tryggingamarkaði í lögboðnum ábyrgðartryggingum ökutækja á síðasta ári, þ.e. án lögboðinnar slysatryggingar ökumanns og eiganda. Félagið hafði þá 36,2% hlutdeild en Vátryggingafélag Íslands hf. 35,03%. Árið 1998 hafði VÍS hins vegar forystuna með 35,7% hlutdeild á móti 35,59% Sjóvár-Almennra.

Fimm aðilar bjóða ökutækjatryggingar hér á landi. Tryggingamiðstöðin hafði 23,79% af markaðnum á síðasta ári en hafði 25,01% árið 1998. Lloyd's of London, sem tryggir í gegnum FÍB-tryggingu, hafði aukið hlutdeild sína úr 3,5% árið 1998 í 4,46% á síðasta ári. Vörður vátryggingafélag hafði 0,52% markaðarins en hafði árið 1998 0,2%.

Kostnaður við uppgjör tjóna af völdum óþekktra eða óvátryggðra ökutækja er jafnað út á milli aðildarfélaga eftir markaðshlutdeild þeirra í lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækja í gegnum Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi, sem félögin eiga öll aðild að.