[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FORD-verksmiðjurnar hafa undanfarin ár haldið áfram að breyta einum af minnstu bílum sínum, Fiesta, og bæta hann smám saman en þetta er í dag orðinn nokkuð snaggaralegur og knár bíll.

FORD-verksmiðjurnar hafa undanfarin ár haldið áfram að breyta einum af minnstu bílum sínum, Fiesta, og bæta hann smám saman en þetta er í dag orðinn nokkuð snaggaralegur og knár bíll. Hann er að vísu fremur þröngur að innan og því kannski helst heppilegur sem snúningabíll í þéttbýlinu. Hann er boðinn með tveimur vélarstærðum og kostar frá rúmri einni milljón króna og uppí 1.190 þúsund krónur. Tekið var á dögunum í gerðina með stærri vélinni en hún er líka heldur meira búinn.

Útlit Ford Fiesta sker sig ekki mikið úr fjöldanum í þessari miklu smábílaflóru sem fáanleg er, þetta er stuttur bíll og er fremur sléttur og felldur og fremur með köntuð horn en ávöl. Fáanleg er bæði þriggja og fimm dyra gerð. Rúður eru stórar og góðar og framendanum svipar dálítið til stóra bróður, Ford Focus en bíllinn er allur hinn snyrtilegasti útlits. Í slagorði framleiðanda segir að hér sé í boði bíll með þægindum stórra bíla en hagkvæmni þeirra litlu.

Fátt sem kemur á óvart

Að innan er sama snyrtimennskan á ferðinni, hvergi íburður, enda ekki eðlilegt í smábíl, og fátt sem kemur þar á óvart. Mælaborðið er þó allt að því voldugt og framsætin eru góð á alla kanta. Ekki síst er góður kostur að geta stillt hæð ökumannssætis sem er nauðsynlegt í öllum bílum. Engir tveir ökumenn sitja nefnilega eins undir stýri og því er það sjálfsagður búnaður að geta stillt hæð setunnar. Heldur minna spennandi er í aftursætum en þó meira rými en halda mætti og því skyldu menn ekki fælast Fiesta þess vegna. Fer furðu vel um tvo fullorðna þar.

Meðal staðalbúnaðar í Ambiente má nefna samlæsingar, rafdrifnar rúður að framan, líknarbelg fyrir ökumann og útvarp með segulbandi.

Vantar staðal?

Stjórntækin eru að mestu hefðbundin og rofar allir en eins og kunnugt er hefur hver framleiðandi sinn hátt á staðsetningu. Ekki síður er breytilegt milli framleiðenda hvernig háttar til dæmis með rofa fyrir rúðuþurrkur.

Oftast er það armur við stýrið. Honum er ýtt til um nokkur þrep til að gangsetja, eitt, tvö eða þrjú, þ.e. letingi, hægt og hratt. Stundum á að ýta arminum upp og stundum niður til að gangsetja. Til að virkja rúðupiss er armurinn dreginn að ökumanni nema hvað stundum þarf að ýta á endann, í átt að stýrinu sjálfu, og stundum er arminum ýtt frá. Þessi að og frá hreyfing er líka stundum til þess að virkja þurrku á afturrúðu. Þetta er með öðrum orðum sjaldnast eins á nokkrum bílum. Má enn benda á að það er með næsta miklum ólíkindum að Evrópusambandið skuli ekki hafa gefið út staðla til að samræma þessa virkni. Annað eins er nú sett í staðla! En þetta var nú útúrdúr.

Góð fjöðrun

Vélar í Ford Fiesta eru annars vegar 1,3 lítra og 60 hestafla vél og hins vegar 1.250 rúmsentimetra og 16 ventla vél sem er 75 hestöfl og var prófaður bíll með þeirri síðarnefndu. Hún er vel rösk og fer létt með bílinn í öllu þéttbýlissnatti. Hún er hins vegar tæplega nógu skemmtileg til langferða og skortir aðeins á vinnsluna sjálfa, sem mætti vera snarpari. Verður því ekki mælt með bílnum til mikillar notkunar í þjóðvegaakstri vilji menn fá skemmtilegan bíl í slíkt hlutverk.

Fjöðrunin er hins vegar mjúk og ekki þarf að hræðast holótta malarvegi hennar vegna. Ef bíllinn verður notaður til ferðalaga er spurning um rými fyrir farangur sem er í lagi fyrir tvo til þrjá ef hluti aftursætis er einnig nýttur.

Þokkaleg kaup

Verðið á Ford Fiesta byrjar í 1.060 þúsund krónum, þ.e. fyrir þriggja dyra bílinn með aflminni vélinni. Þriggja dyra bíll með þeirri stærri kostar 1.160 þúsund og síðan 1.190 þúsund sé hann tekinn fimm dyra sem er eiginlega engin spurning um. Það er því hægt að gera nokkurn veginn ágæt kaup í þessum bíl, hann hefur uppá þokkalegan búnað að bjóða og dugar til ýmissa nota svo langt sem hann nær.

Jóhannes Tómasson