Arnar Jónsson leikur Job í ljóðleiknum Jobsbók í Neskirkju í kvöld.
Arnar Jónsson leikur Job í ljóðleiknum Jobsbók í Neskirkju í kvöld.
Ljóðleikur úr Jobsbók í þýðingu Helga Hálfdanarsonar verður frumfluttur í Neskirkju í kvöld. Það eru Arnar Jónsson, Sveinn Einarsson, Áskell Másson og Helga Stephensen sem standa að sýningunni. Hávar Sigurjónsson ræddi við þau.

"ÞAÐ er nafnlaus leikhópur sem stendur að þessari sýningu," segir Sveinn Einarsson leikstjóri glaðbeittur rétt fyrir frumsýningu á Jobsbók í Neskirkju. "Kannski við ættum að kalla okkur Jobbara."

Leikbrúður og innri rödd

Hvað sem því líður þá er greinilegt að sýning Jobsbókar er talsvert "jobb" þar sem leikarinn Arnar Jónsson fer með öll hlutverk leiksins, Job sjálfan, vini hans þrjá og talar fyrir þrjár leikbrúður, auk þess sem innri rödd Jobs hljómar af segulbandi. "Það gerði ég nú bara til að þurfa ekki að læra allar fimm þúsund línur textans utan að," segir hann en Sveinn mótmælir hástöfum og segir þetta vera listræna ákvörðun. Það er greinilegt að þeir skemmta sér vel saman yfir þessum frjóa texta ásamt tónskáldinu Áskeli Mássyni og Helgu Stephensen brúðugerðarmeistara. Það er svo enginn annar en Helgi Hálfdanarson sem þýtt hefur ljóðleikinn um Job og styðst þar að nokkru leyti við erlenda fyrirmynd en að sögn Sveins hefur Helgi búið textanum þá ljóðrænu umgjörð sem um ræðir.

"Þessi hugmynd hefur blundað í okkur nokkuð lengi," segir Arnar. "Ætli það séu ekki þrjú ár síðan við fórum að velta þessu fyrir okkur. Þá vorum við báðir á starfslaunum og langaði að vinna saman," segir Sveinn.

Á kristnitökuárinu reyndist lag og Hið íslenska biblíufélag og Neskirkja ásamt kristnitökunefnd tóku hugmyndinni fagnandi og gerðu þeim kleift að vinna úr Jobsbók þá sýningu sem frumsýnd verður í dag. "Hér í Neskirkju verða þrjár sýningar en svo er allt óráðið með framhaldið. Við erum að sjálfsögðu tilbúin að fara með sýninguna hvert á land sem er, hún er þannig útbúin að það er tiltölulega auðvelt."

Þau segja að þrátt fyrir einfaldan umbúnað hafi sýningin óneitanlega undið nokkuð upp á sig. Tæknilega er hún giska flókin, ljós og hljóð eru óspart nýtt undir stjórn Lárusar Björnssonar, að ógleymdri tónlist Áskels Mássonar sem hann flytur í sýningunni ásamt Douglas Brotchie organista. "Tónlistin er mjög mikilvægur þáttur sýningarinnar og Áskell kom inn í myndina mjög snemma," segir Sveinn.

"Ég hef samið tónlistina fyrir ýmis konar klukkur, bjöllur og ásláttarhljóðfæri auk orgelsins sem er hin ókrýnda drottning hljóðfæranna," segir Áskell. "Tónlistin og textinn kallast á á ýmsa vegu í sýningunni og stundum er jafnvel samtal á milli leikarans og hljóðfæranna," bætir hann við. Það er ekki orðum aukið að alls kyns ásláttarhljóðfæri séu notuð í sýningunni því trumburnar, bjöllurnar og þrumuspjöldin mynda eins konar umgjörð um leikinn. Kirkjuklukkan sjálf tekur einnig undir þegar mest liggur við. Arnar bætir því við að til að geta leikið á sem flest blæbrigði raddarinnar þá noti þeir hljóðkerfi. "Annars hefði ég þurft að beita röddinni svona gegnum alla sýninguna til að heyrðist um alla kirkjuna," segir hann og bætir við sýnishorni af sinni þjálfuðu rödd svo undir tekur í kirkjuskipinu.

Brúður fyrir fullorðna

Helga brúðugerðarmeistari segir það spennandi tækifæri að gera brúður í sýningu fyrir fullorðna áhorfendur. "Það er alltof sjaldan sem það gerist." Hún segist jafnframt hafa verið hálfkvíðin fyrir því að láta brúðurnar í hendur leikara sem aldrei hefði stjórnað brúðum áður, en "...Arnar hefur þetta í sér. Brúðurnar lifnuðu samstundis við í höndum hans."

Hún laumar jafnframt þeim fróðleiksmola að blaðamanni að uppruna brúðuleiks megi m.a. rekja til helgileikja þar sem litlar brúður voru látnar tákna Maríu mey. "Marionette sem er heiti yfir leikbrúður þýðir bókstaflega María litla. Það er því mjög viðeigandi að nota brúður við þennan leik úr Jobsbók Gamla testamentisins."

Jobsbók hefur orðið mörgum skáldum og listamönnum uppspretta sköpunar í gegnum aldirnar. Job missir allt sitt og er síðan sleginn hræðilegum sjúkdómi og ræðir síðan við Guð um hverju sæti að saklaus, guðhræddur maður eins og hann skuli þurfa að líða svo miklar þjáningar. "Hér er spurt fjölmargra grundvallarspurninga um trúna og þjáninguna. Þetta er sígildur boðskapur og á ekkert síður við í dag," segir Sveinn.

Jobsbók telst til sígildra heimsbókmennta og stórskáld eins Dante, Goethe, og Milton hafa litið til Jobs í tjáningu sinni og einnig hefur hún verið listmálurum, tónskáldum og heimspekinga uppspretta sköpunar og tjáningar allt fram á þennan dag.