Sumar ferðaskrifstofur selja forfallatryggingu á gjaldi sem nemur 3,5% af verðmæti farseðilsins en aðrar eru með fast gjald.
Sumar ferðaskrifstofur selja forfallatryggingu á gjaldi sem nemur 3,5% af verðmæti farseðilsins en aðrar eru með fast gjald.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eitt af því sem þarf að huga að þegar farseðill er keyptur er forfallatrygging. Hrönn Indriðadóttir skoðaði hvaða tryggingar tryggingafélög, kortafyrirtæki og ferðaskrifstofur bjóða upp á og komst að því að ýmsir eru að tvítryggja sig.

Tryggingafélögin Sjóvá-Almennar hf. og Tryggingamiðstöðin hf. bjóða til dæmis upp á forfallatryggingu þar sem iðgjald er 3,5% af verðmæti farmiðans og þar er engin sjálfsábyrgð. Kortafyrirtækin, VISA og Europay, eru með mismunandi forfallatryggingu eftir kortategundum. Ef helmingur ferðarinnar er greiddur með korti þá er tryggingin innifalin, það er að segja enginn útlagður kostnaður af hálfu korthafans en sjálfsábyrgðin er 100 bandaríkjadollarar á mann. Flugleiðir og Terra Nova bjóða upp á forfallatryggingu þar sem iðgjaldið er 3,5% af verðmæti farmiðans og þar er engin sjálfsábyrgð. Samvinnuferðir-Landsýn og Heimsferðir eru með fast gjald sem er 1.800 krónur á mann og síðan er 2.000 króna sjálfsábyrgð á mann.

Forfallagjald ekki innifalið

Hjá Flugleiðum, Samvinnuferðum-Landsýn, Heimsferðum og Terra Nova er forfallagjald ekki innifalið í raunverði ferðarinnar. Samkvæmt lögum um alferðir ber ferðasölumanni skylda að kynna kaupanda þær ferðatryggingar sem í boði eru. Að sögn Kristínar Sillu Þórðardóttur, vátryggingarráðgjafa hjá Tryggingamiðstöðinni hf., kemur það fyrir að ferðalangar séu að fljúga tvítryggðir. "Í ferðatryggingu korthafa er boðið upp á forfallatryggingu en hún er misjöfn eftir því hvaða kortategund fólk notar," segir Kristín Silla. "Tryggingin nægir yfirleitt þegar bæturnar eru 1.000 bandaríkjadollarar á mann, eins og sum kort bjóða upp á, en ekki alltaf þegar bæturnar eru 750 bandaríkjadollarar á mann. Þá þarf að kaupa viðbótartryggingu en þetta þarf allt að skoða vel. Í ferðatryggingum korthafa er sjálfsábyrgðin 100 bandaríkjadollarar á mann. Forfallatrygging Tryggingamiðstöðvarinnar ber hins vegar enga sjálfsábyrgð," segir Kristín Silla.

"Nokkrar ferðaskrifstofur eru að selja í gegnum okkur eins og til dæmis Flugleiðir, Terra Nova og Úrval-Útsýn. Forfallatrygging fram að brottför er ekki innifalin í heimilistryggingu Tryggingamiðstöðvarinnar heldur verður fólk að kaupa hana alveg sér. Aftur á móti í víðtækri fjölskyldutryggingu Tryggingamiðstöðvarinnar er innifalinn sjúkrakostnaður og ferðarofstrygging erlendis," segir Sigmar Scheving, vátryggingaráðgjafi hjá Tryggingamiðstöðinni.

Ekki greiddar tvöfaldar bætur

Að sögn Kristínar Sillu borga ferðalangar oft ferðir sínar með kreditkortum og forfallatryggja sig síðan hjá ferðaskrifstofu eða tryggingafélagi og eru þá komnir með tvítryggingu. Þá fær viðkomandi einungis greiddar tryggingabætur einu sinni. "Í okkar tryggingum er engin sjálfsábyrgð þannig að viðkomandi myndi fá hana alveg að fullu. Það er val viðskiptamanns hvaðan hann fær trygginguna. Það þarf líka að gæta þess að forfallatryggingu þarf að kaupa um leið og viðkomandi greiðir farmiðann en ekki eftir á," segir Kristín Silla.

"Fyrir forfallatryggingu sem Flugleiðir selja á söluskrifstofum sínum er greitt sem nemur 3,5% af fargjaldi, sem er hagstætt fyrir þá sem greiða lág fargjöld," segir Þórmundur Jónatansson hjá Flugleiðum. "Iðgjaldsprósentan er sú sama af öllum sér- og tilboðsfargjöldum. Ekki þarf að greiða önnur þjónustugjöld og sjálfsábyrgðin er engin en forfallatrygging er auðvitað val. Ferðist menn hins vegar á Saga Business Class geta viðskiptavinir breytt miðum sínum og þau fargjöld eru að fullu endurgreiðanleg, utan Saga II fargjalda sem eru endurgreiðanleg um 80%," segir Þórmundur.

Greiddar eru bætur komi til forfalla í ferð af eftirtöldum orsökum: dauðsfalls, skyndilegs alvarlegs sjúkdóms eða slyss sem krefst sjúkravistar hins tryggða, maka hans, sambýlismaka, barna eða barnabarna, foreldra hans, tengdaforeldra, afa, ömmu eða systkina.

Einnig eru greiddar bætur vegna verulegs eignatjóns á heimili hins tryggða eða í einkafyrirtæki sem gerir nærveru hans nauðsynlega en þá þarf lögregluskýrsla að liggja fyrir.