OLÍUFYRIRTÆKIÐ Grynberg Petroleum í Denver í Colorado í Bandaríkjunum hefur sótt um leyfi til olíuleitar á Jan Mayen-hrygg, þar sem Íslendingar eiga fjórðungs réttindi á móti Norðmönnum, og á Hatton Rockall-svæðinu.

OLÍUFYRIRTÆKIÐ Grynberg Petroleum í Denver í Colorado í Bandaríkjunum hefur sótt um leyfi til olíuleitar á Jan Mayen-hrygg, þar sem Íslendingar eiga fjórðungs réttindi á móti Norðmönnum, og á Hatton Rockall-svæðinu. Fyrirtækið sýndi þessu máli fyrst áhuga 1998 en lagði síðan fram formlega beiðni fyrr í mánuðinum.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu sl. fimmtudag telur fyrirtækið forsendu fyrir frekari athugunum hér við land að sett verði lög um leit að olíuefnum og vinnslu þeirra, ásamt reglum um veitingu leitar- og vinnsluleyfa. Jack Reiber, talsmaður Grynberg Petroleum, sagði í samtali við Morgunblaðið að fyrirtækið hefði einkum áhuga á hafsvæðinu suðaustur af Íslandi, þ.e. Hatton Rockall-svæðinu. Fulltrúar fyrirtækisins hefðu komið til landsins á síðasta ári og átt viðræður við íslensk stjórnvöld en hann sagði að málið væri á frumstigi og fátt um það að segja á þessu stigi. Enn væru menn að meta líkurnar á því að olíu væri þar að finna. Hann sagði að framundan væru enn frekari rannsóknir og viðræðum yrði haldið áfram við íslensk stjórnvöld. Vænta mætti frekari tíðinda af þessu máli í sumar.

Mestar líkur á Hatton Rockall

Sveinbjörn Björnsson, sem á sæti í samráðsnefnd iðnaðarráðherra um landgrunns- og olíuleitarmál, segir að sterk von sé um að olíu sé að finna á Jan Mayen-hryggnum og svo geti farið að olíufélög hefji boranir þar eftir u.þ.b. einn áratug. Íslendingar gera kröfu til hafsvæðisins við Hatton Rockall en þurfa að rökstyðja þá kröfu á alþjóðlegum vettvangi og segir Sveinbjörn að lítið hafi verið aðhafst í því máli. Hann segir að þar séu mestar líkur á því að finna olíu og þar séu þegar hafnar tilraunaboranir.

Sveinbjörn segir að veittar hafi verið tvær milljónir króna á ári undanfarin ár til rannsókna á setlögum úti fyrir Norðurlandi þar sem hugsanlegt er talið að olíu geti verið að finna. Teiknað hafi verið kort af hafsbotninum fyrir austanverðu Norðurlandi, frá Eyjafjarðarál og austur undir Melrakkasléttu. Sjómælingar hafi unnið að þessum mælingum á tíu ára tímabili en það hafi ekki verið unnið úr þeim og gert kort fyrr en nú. Sveinbjörn segir að nú megi sjá ýmsar misfellur á botninum sem ekki sáust áður. "Vonir standa til að hægt verði að sjá þarna misgengi sem hafi orðið til í skjálftum. Ef það hefur myndast í þessum setlögum, sem eru 4 km þykk þar sem þau eru þykkust, olía eða gas mætti hugsa sér að hægt verði að ná sýnum með skynjurum og sjá þannig hvort þarna smitist út olía eða gas. Með kortinu er orðið auðveldara að vinna markvisst starf fyrir minni peninga," segir Sveinbjörn.

Hann segir að tillögur séu uppi um að bora í Tjörneslögin svonefndu og ná þaðan sýnum af surtarbrandi sem í þeim eru. Sýnin yrðu send út til rannsókna þar sem fengist úr því skorið hvort hugsanlegt sé að surtarbrandurinn framleiði olíu við fergingu og hita. Tjörneslögin liggi grunnt en væntanlega liggi svipuð lög mun dýpra í setlögum úti fyrir Norðurlandi. 1998 lagði samráðshópurinn til að ríkið legði fram 30-50 milljónir kr. á ári til kortlagninga og mælinga. "Þetta þurfa Íslendingar að gera sjálfir til þess að þekkingin verði nóg til að vekja áhuga erlendra aðila. Setlögin eru miklu yngri en menn eiga að venjast en aðstæður hér eru líka afbrigðilegar vegna þess að hér hitnar hratt með auknu dýpi. Jarðfræðilegar aðstæður geta verið til hraðrar myndunar olíu og gass hérlendis," segir Sveinbjörn.

Sérfræðingur á vegum Statoil mat líkurnar á því að gas væri að finna úti fyrir Norðurlandi 1 á móti 10 en líkurnar á vinnanlegri olíu 1 á móti 40. Sveinbjörn segir að líkurnar vaxi um leið og takist að sanna að það myndist olía í setlögunum með frekari rannsóknum. Olíufélögin hafi enn aðgang að mörgum svæðum þar sem líkurnar eru 1 á móti 2 og hefja vinnslu á slíkum svæðum áður en athygli þeirra beinist annað. Fyrirtæki eins og Grynberg Petroleum, sem er lítið fyrirtæki á alþjóðlegan mælikvarða, hreiðri gjarnan um sig á svæðum þar sem ríki mikil óvissa í þeirri von að stóru olíufélögin fái áhuga á svæðinu. Þá selji litlu fyrirtækin þeim gjarnan rannsóknir sínar. Sveinbjörn segir að greinilega verði vart við slíka aðila núna þegar olíuvinnsla er að hefjast í Færeyjum.