Laxamýri - Nokkuð var þungt í fundarmönnum á deildarfundi Kaupfélags Þingeyinga á Húsavík í fyrrakvöld, en fundurinn var sameiginlegur deildarfundur nokkurra sveitarfélaga á svæðinu.
Laxamýri - Nokkuð var þungt í fundarmönnum á deildarfundi Kaupfélags Þingeyinga á Húsavík í fyrrakvöld, en fundurinn var sameiginlegur deildarfundur nokkurra sveitarfélaga á svæðinu.

Á fundinum var kynnt tillaga til framhaldsaðalfundar félagsins þess efnis að samþykkt yrði að nýta sér ákvæði í lögum um samvinnufélög um sérstaka rannsókn.

Í umræddu lagaákvæði kveður á um að félagsmaður geti þar komið fram með tillögu um að fram fari sérstök rannsókn á tilgreindum atriðum varðandi starfsemi félags eða ákveðnum þáttum ársreiknings. Rannsókn þessi skuli einkum beinast að aðdraganda að greiðsluerfiðleikum Kaupfélags Þingeyinga og þeim úrræðum sem gripið var til til lausnar á þeim. Sérstaklega skuli rannsaka þátt einstakra aðila er tengjast málinu og athuga hugsanlegt vanhæfi einstaklinga sem unnið hafa að nauðarsamningum og uppgjöri KÞ.

Hið svokallaða Aldinmál var mjög á dagskrá og ljóst að það fyrirtæki átti drjúgan þátt í því að Kaupfélagið lenti í þeim greiðsluerfiðleikum sem um ræðir. Stjórnarmenn viðurkenndu að ekki hefði verið gripið nægjanlega í taumana og hafði kaupfélagsstjóri greitt reikninga trjávinnslufyrirtækisins Aldins úr viðskiptareikningi Kaupfélagsins og greitt starfsmönnum laun án vitundar annarra yfirmanna félagsins.

Farið var yfir fjárhag Kaupfélagsins síðustu tíu árin og kom fram að fyrir löngu hefðu menn átt að bregðast við miklu tapi og grípa til raunhæfra aðgerða í málinu. Sagði Erlingur Teitsson bóndi á Brún að bæði félagsmenn og stjórnarmenn hefðu brugðist og aðgerðarleysi væri ástæða þess að félagið komst í þrot.