STURLA Böðvarsson samgönguráðherra segir, í samtali við Morgunblaðið, að mikilvægt sé að vanda vel undirbúningsvinnu varðandi þriðju kynslóð farsímakerfa, svokallaðs UMTS-kerfis, sem búast má við að verði tekið í gagnið víða um heim árið 2002.

STURLA Böðvarsson samgönguráðherra segir, í samtali við Morgunblaðið, að mikilvægt sé að vanda vel undirbúningsvinnu varðandi þriðju kynslóð farsímakerfa, svokallaðs UMTS-kerfis, sem búast má við að verði tekið í gagnið víða um heim árið 2002. Haft var eftir Gústafi Arnar, forstöðumanni Póst- og fjarskiptastofnunar, í Morgunblaðinu á miðvikudag, að í lok þessa árs megi búast við því að hugað verði að leyfisveitingu fyrir slíkt kerfi hér á landi, en kerfið er frábrugðið núverandi kerfi að því leyti að gagnaflutningshraði þess er tuttugu sinnum meiri.

Aðspurður segist Sturla ekki telja hægt að bjóða leyfi fyrir UMTS-kerfi upp öðruvísi en að í slíkum uppboðslýsingum væri klárlega og skýrt skilgreint hvaða þjónustu kerfið eigi að veita. Hann segist ekki vilja gefa upp afstöðu sína til þess með hvaða hætti leyfin verði veitt, fyrr en greinargerð frá Fjarskiptastofnun liggi fyrir, þar sem meðal annars verði fjallað um hvernig þessum málum sé háttað í öðrum löndum.

Tryggja verður hagkvæmni kerfisins sem heildar

Sturla segir að undirbúa verði stefnumótun í þessu máli mjög vandlega. Hann segir mikilvægt að kerfið komi til með að ná yfir sem stærst landsvæði og að tryggja verði að hagkvæmni kerfisins sem heildar verði sem mest.

"Þjóðhagsleg hagkvæmni er mjög mikilvæg því hún hefur þýðingu fyrir neytendur. Því meiri fjárfesting í heildina, því meiri kostnaður á neytendur," segir Sturla Böðvarsson.