ÞEIM sem hafa aðgang að Netinu fer enn fjölgandi, samkvæmt nýrri könnun Gallups. Þeim sem versla á Netinu fjölgar hins vegar ekki en 45% af þeim sem notuðu þá þjónustu keyptu bækur. Ríflega þrír af hverjum fjórum keyptu þær frá Amazon.com.

ÞEIM sem hafa aðgang að Netinu fer enn fjölgandi, samkvæmt nýrri könnun Gallups. Þeim sem versla á Netinu fjölgar hins vegar ekki en 45% af þeim sem notuðu þá þjónustu keyptu bækur. Ríflega þrír af hverjum fjórum keyptu þær frá Amazon.com.

Alls hafa um 70% þátttakenda í könnuninni aðgang að Netinu, ríflega 54% hafa aðgang að Netinu á heimili og eru það um 5% fleiri en samkvæmt könnun í desember á síðasta ári. Aðgangur að Netinu er sem fyrr algengari meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins en landsbyggðarfólks. Aðgangurinn er einnig tekjutengdur, því hærri sem tekjur einstaklinga eru því meiri líkur eru á því að hann hafi aðgang að Netinu.

Þeim sem versla á Netinu hefur ekki fjölgað síðastliðið ár samkvæmt könnun Gallup en þeir eru 23,4% í úrtaki könnunarinnar. Þeim fjölgaði hins vegar verulega árið þar á undan, úr 8,7% í apríl 1998 í 23,5% í apríl/maí 1999. Fólk á bilinu 25 til 34 ára verslar mest á Netinu. Borgarbúar versla meira en landsbyggðarfólk og sömuleiðis notar hátekjufólk Netið meira til kaupa á vöru en þeir sem lægri laun hafa.

Könnunin var unnin dagana 19. janúar til 6. febrúar síðastliðinn í gegnum síma. Svarendur voru 804 af 1200 manna tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá á aldrinum 16 til 75 ára.