Innan í pýramídanum sem er við Louvre safnið í París í Frakklandi.
Innan í pýramídanum sem er við Louvre safnið í París í Frakklandi.
Í NÝLEGRI grein í breska tímaritinu Highlife kemur fram að svokallaðar stuttferðir séu að verða æ vinsælli meðal almennings þar í landi. Þessar niðurstöður virðast vera í samræmi við evrópskan lífsstíl og Íslendingar eru engin undantekning þar á.

Í NÝLEGRI grein í breska tímaritinu Highlife kemur fram að svokallaðar stuttferðir séu að verða æ vinsælli meðal almennings þar í landi. Þessar niðurstöður virðast vera í samræmi við evrópskan lífsstíl og Íslendingar eru engin undantekning þar á. Breska fyrirtækið British Airways Holidays hefur merkt mikla aukningu síðustu misseri á bókunum í styttri ferðir og líkir þessu við sprengju. Ástæðurnar má m.a. rekja til þess að styttri ferðir eru ódýrari en lengri ferðir en einnig höfðar menningarlegt inntak ferðanna til fólks. Æ stærri hluti ferðalanga vill njóta menningaráhrifanna og læra eitthvað um áfangastaðinn. Í greininni kemur jafnframt fram að breytinguna megi einnig rekja til breyttra lífshátta. Mikið sé um að vera í atvinnulífinu og það henti fólki því betur að taka nokkur stutt frí í stað eins langs.

"Íslendingar hafa verið að gera meira af því undanfarið að fara í stutt frí. Þetta er einfaldlega nýr lífsstíll", segir Símon Pálsson hjá Flugleiðum. "Í staðinn fyrir að fara til dæmis fínt út að borða er land lagt undir fót í skamman tíma. Það er í raun allt vinsælt þegar kemur að stuttferðum og helgarferðum þetta fer bara eftir áhugasviði hvers og eins. Þessar niðurstöður eru alveg í samræmi við evrópskan lífsstíl og Íslendingar eru þar engir eftirbátar," segir Símon.

Að sögn Helga Jóhannssonar, framkvæmdastjóra Samvinnuferða-Landsýnar, sjá þeir þessa breytingu greinilega. "Þessar hefðbundnu þriggja vikna ferðir voru allsráðandi fyrir þremur til fjórum árum. Þetta hefur snarbreyst. Við höfum nákvæmar tölfræðilegar upplýsingar yfir þetta og þar sjáum við meðal annars hvernig dregið hefur úr meðaldvalarlengd. Í dag er langalgengast að menn fari í tveggja vikna ferðir og síðan aftur í eina til tvær styttri ferðir. Það er sprengja í haust- og borgarferðum.

Okkar reynsla hjá Samvinnuferðum Landsýn sýnir að sex til sjö daga ferðir á fjarlæga staði eins Kúbu eru mjög vinsælar. Það sama má segja um stuttar ferðir eins og til London og Dublin. Það hefur einnig verið mikil aukning í helgarferðum. Það er greinilegt að lífsmáti Íslendinga er að breytast. Það fara orðið miklu fleiri til útlanda utan háannatíma. Eini munurinn á Íslendingum og útlendingum þegar kemur að þessu er að útlendingar fara einnig töluvert í svokallaðar einnar náttar ferðir. Íslendingum finnst það aftur á móti of stutt vegna langs flugtíma hverju sinni. Langalgengustu ferðirnar eru 3-4 daga ferðir," segir Helgi.