Viðeyjarbiblía
Viðeyjarbiblía
Standa verður vörð um íslenzkt talmál sem íslenzkt ritmál. Stefán Friðbjarnarson staldraði við þátt kirkjunnar í vernd íslenzkrar tungu.

Fjögurhundruð og sextíu ár eru síðan Nýja-Testamentið kom út í íslenzkri þýðingu Odds Gottskálkssonar, sem þá var ritari biskupsins í Skálholti. Þýðingin var þrekvirki á þeirri tíð. Hún var unnin við mjög frumstæð skilyrði - í fjósi biskupsstólsins. Skammt varð stórra högga á milli. Fjörutíu og fjórum árum síðar kemur biblían í heild sinni út á íslenzku, biblía Guðbrandar biskups Þorlákssonar.

Þessi tvö verk, Nýja-Testamenti Odds Gottskálkssonar og Guðbrandarbiblía, eru talin eiga hvað drýgstan þátt í því að íslenzk tunga hefur varðveizt lítt breytt fram á okkar daga. Fátt var um lesmál á tungu þjóðarinnar þegar þessar þýðingar vóru gefnar út. Á 17. og 18. öld - og reyndar fram á þá 19. - var biblían tiltækasta íslenzka lesmálið á tungu þjóðarinnar, þótt hún væri reyndar ekki til á hverjum bæ. Líkur standa til að lunginn úr kynslóðum þessara alda hafi lært að lesa og draga til stafs með þessar bækur á borði.

Kirkjurnar vóru og nær einu samkomustaðir kynslóðanna á þeim öldum sem hér um ræðir. Það var þjóðarlán að þar var ætíð predikað á hreinni íslenzku. Þangað sóttu kynslóðirnar m.a. fyrirmynd um framburð móðurmálsins, en að sjálfsögðu lærðu börn á þessum tíma, sem á öðrum tímum, tungutakið í foreldrahúsum.

Á þessum öldum töpuðu grannþjóðir okkar tungu sinni að hluta til, þeirri sem eitt sinn var töluð um öll Norðurlönd. Hér var hún varðveitt. Þýðingar kirkjunnar manna, Odds Gottskálkssonar og Guðbrandar Þorlákssonar, áttu drjúgan þátt í þeirri varðveizlu. Sem og predikun fagnaðarerindisins á móðurmálinu í kirkjum landsins, helztu samkomustöðum fólks á þeirri tíð. Mikilvægi þessa sést bezt af því að móðurmálið, þjóðtungan, og sú menningararfleifð sem hún geymir, er hornsteinninn að og meginröksemdin fyrir menningar- og stjórnarfarslegu fullveldi þjóðarinnar.

Ritmálið vegur þungt í menningu þjóðarinnar. Það má hinsvegar aldrei gleyma því að talmálið gegnir engu ómerkara hlutverki. Góðir predikarar, sem kunnu tökin á móðurmálinu, texta og framburði, gegndu því dýrmætu hlutverki í varðveizlu móðurmálsins. Kirkjan átti jafnan - og á enn - frábæra predikara. Hlutur hennar í þessum efnum verður sízt ofmetinn. Málvernd, sem er brýnni í dag en nokkru sinni, þarf að ná til talmálsins ekkert síður en ritmálsins.

Margt hefur breytzt síðan byggð var hér reist. Kirkjurnar eru ekki lengur svo til einu samkomustaðir landsmanna. Erlend máláhrif flæða yfir landið: sjónvarp, útvarp, tölvur, kvikmyndir og velkomnir ferðalangar. Og trúlega finnst ekkert heimshorn á plánetunni jörð þar sem ekki er Íslendingur á faraldsfæti. Allt er þetta gott og blessað og í takt við tíðarandann. En móðurmálið á í vök að verjast, vægt orðað. Heimili, skólar, dagblöð, útvarp, sjónvarp og þeir, sem tölvumálum stýra, hafa ríkum skyldum að gegna í málvernd, verndun þjóðtungunnar, hornsteins menningar- og stjórnarfarslegs fullveldis landsmanna.

Ríkisútvarpið skjaldaði móðurmálið flestum betur - í áratugi. Þar fóru málræktarmenn; menn sem töluðu fagurt mál. Menn sem gerðu sér grein fyrir því að talmálið, réttur framburður móðurmálsins, skiptir engu minna máli en ritmálið. Pétur þulur Pétursson er pistlahöfundi sérstaklega í minni í þessu sambandi. Ríkisútvarpið hefur enn á sínum snærum nokkra vel mælta unnendur móðurmálsins. Svo er og um aðra miðla ljósvakans. Þar er þó víða pottur brotinn. Útvarps- og sjónvarpsstöðvar mættu gjarnan herða töluvert talmálskröfur, sem gera verður til þeirra sem ná eyrum þjóðarinnar dag hvern.

Kirkjan í landinu gegndi ómetanlegu menningar- og málræktarstarfi öldum saman - og gerir enn. Hún gegnir þó fyrst og fremst mannræktarstarfi: kristniboðun, lofgjörð og fyrirbænum. Móðurmálið er farvegur hennar með kristinn boðskap til Íslendinga, sem vilja játa trú sína á eigin tungu. Það er því engan veginn út í hött að flétta þetta tvennt saman hér og nú - í þessari hugvekju - málræktina og boðunina. Sálmaskáldið og presturinn Hallgrímur Pétursson orðaði þetta svo:

Gefðu að móðurmálið mitt,

minn Jesús, þess ég beiði,

frá allri villu klárt og kvitt

krossins orð þitt út breiði

um landið hér til heiðurs þér,

helzt mun það blessun valda,

meðan þín náð lætur vort láð

lýði og blessun halda.