Sigurjón Einarsson athafnamaður í Noregi.
Sigurjón Einarsson athafnamaður í Noregi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hann er athafnamaður sem býr í Noregi og hóf feril sinn hjá TV Norge en nú er athafnasvið hans helst allur heimurinn. Hildur Einarsdóttir tók hús á Sigurjóni Einarssyni og forvitnaðist um feril hans og þá ekki síst kynni hans af sjálfstæðisbaráttu íbúa Austur-Tímor.

Í LÍFI Sigurjóns Einarssonar hafa tilviljanirnar oft ráðið ferðinni eins og árið 1986 þegar hann var staddur á kaffihúsi í Nice í Frakklandi. Þar hitti hann nokkra Norðmenn sem voru eins og hann á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Það barst í tal að Norðmennirnir, sem hétu Helvar Flatland, Ola Steinsrud og Ola Grönvold, væru að fara af stað með fyrstu frjálsu sjónvarpsstöðina í Noregi sem þeir kölluðu TV Norge. Sigurjón sem byrjaði að fikta við kvikmyndagerð á menntaskólaárunum í MH og hafði unnið svolítið við auglýsingagerð hér fyrir sjónvarp, sagði þeim frá frumkvöðlunum á Stöð 2, þeim Jóni Óttari Ragnarssyni og Hans Kristjáni Árnasyni. Eitt leiddi af öðru; Sigurjón var fenginn til að kynna þá fyrir sjónvarpsstjórunum á Tunguhálsinum þar sem þeir kynntu sér starfsemi fyrstu einkareknu sjónvarpsstöðvarinnar hér á landi. Kynnin við Norðmennina urðu til þess að Sigurjóni var boðin vinna við TV Norge og fluttist hann utan með fjölskyldu sína og hefur búið þar síðan.

Að sögn Sigurjóns er TV Norge afþreyingarsjónvarpsstöð sem byrjaði sem kapalstöð sem var öllum opin. Á þessum árum var 60% heimila í Noregi tengd kapli. Aðaltekjulind stöðvarinnar var af auglýsingum.

Hóf feril sinn hjá TV Norge

"Þetta var mjög lítil sjónvarpsstöð í upphafi," segir Sigurjón. "Þegar forsvarsmenn hennar komu til að skoða Stöð 2 þá hálf skömmuðust þeir sín fyrir tækjakost sinn sem var minna en 5% af þeim tækjum sem Stöð 2 hafði þá yfir að ráða. Þeir höfðu í upphafi mjög litla fjármuni og byrjuðu smátt. En TV Norge fékk mjög góðar viðtökur strax í upphafi og stækkaði fljótt.

TV Norge var og er dæmigerð afþreyingarstöð og á að þjóna öllum. Boðið er upp á innlenda skemmtiþætti, erlendar kvikmyndir og sápuóperur.

Nú er hún þriðja stærsta sjónvarpsstöðin í Noregi á eftir norska ríkissjónvarpinu og TV 2 með um 400 þúsund manna áhorf að meðaltali á kvöldi," segir Sigurjón sem vann við sjónvarpsstöðina í 7 ár.

Lætur innsæið ráða

Sigurjón hefur fengist við mörg ólíka störf eftir að hann pakkaði niður og flutti utan með eiginkonu sinni, Margréti Björnsdóttur og þremur börnum þeirra, Iðunni, sem nú er 19 ára, Einari, 16 ára og Hörpu, 12 ára.

Hann segir að í lífi sínu hafi hann verið rekinn áfram af innsæinu. Þar sem hann eygði möguleika, nam hann land tímabundið en færði sig um set þegar önnur áhugavekjandi verkefni birtust út við sjóndeildarhringinn. En höldum áfram með frásögnina af veru hans hjá TV Norge.

"Fljótlega eftir að stöðin fór í loftið var byrjað að framleiða sjónvarpsþátt sem hét Casínó. Þátturinn gekk út á að sjónvarpsáhorfendur hringdu inn til stöðvarinnar og léku rúllettu við þáttarstjórnandann. Í fyrstu voru verðlaunin ýmis heimilistæki eins og ísskápar en eftir 150 þætti voru þau einbýlishús, bíll og bátur eða allt sem þurfti til að hefja nýtt líf. Sjónvarpsþátturinn varð mjög vinsæll og á honum byggði stöðin velgengni sína í upphafi."

Fór um heiminn og tók upp ferðaþætti

Á þessum upphafsárum stöðvarinnar vann Sigurjón bæði við þátta- og auglýsingagerð hjá sjónvarpsstöðinni. "Auglýsingagerð fyrir sjónvarp var lítt þróuð í Noregi á þessum árum því auglýsingar höfðu ekki verið leyfðar í ríkissjónvarpinu. Það var því eitt af okkar fyrstu verkum að stofna fyrirtæki sem annaðist gerð auglýsinga fyrir sjónvarp."

Sigurjón starfaði einnig við gerð ferðaþátta. Hann fór til Suður-Ameríku, Afríku, Indlands, Shri Lanka og Kúbu til að safna efni. Var um tvær þáttaraðir að ræða, önnur hét Safari en hin Over stok og sten en stjórnandi þeirra þátta hét Sten Johnsen og var þarna verið að leika sér að orðum. Starfaði Sigurjón sem upptökustjóri þáttanna og vann við gerð þeirra á 5 ára tímabili.

Lenti í fjöld ævintýra

"Já, eðlilega lenti ég í mörgum ævintýrum á ferðum mínum um þessi framandi lönd," segir hann aðspurður. "Mér er til dæmis minnisstætt þegar við vorum á ferðalagi á Inkaslóðum í Perú. Við gengum í 5 daga leiðina frá Cusco að Machophico sem er heilög borg í ríki Inkanna og kvikmynduðum. Við gengum yfir fjögur fjöll og alveg upp í 4.200 metra hæð. Með í för var 15 ára gömul dóttir mín. Þetta ferðalag var óheyrilega erfitt. Við vorum með mikinn og viðkvæman tækjabúnað og loftið var afar þunnt svo við áttum erfitt með andardrátt. Ég var oft alveg við það að gefast upp. Þegar við komum loksins til hinnar heilögu borgar var svarta þoka yfir henni, en hún stendur í 1.800 metra hæð. Þetta voru mikil vonbrigði því við höfðum þrjá klukkutíma til að mynda borgina. Þá gerðist það að þokan lyftist allt í einu af henni og hún blasti við í allri sinni dýrð, ég gleymi aldrei þeirri mikilfenglegu sjón," segir Sigurjón.

Þegar krókódíllinn ætlaði að gleypa afa

"Ég á líka sögu til að segja væntanlegum barnabörnum, þegar krókódíllinn ætlaði að gleypa afa," segir Sigurjón sposkur. "Það atvikaðist þannig að við vorum að mynda sofandi krókódíl á sandrifi í miðri á. Við vorum á báti sem við höfðum lagt upp að rifinu og beygðum okkur fram til að ná góðri mynd af honum. Þá vaknar hann allt í einu og kastar sér í áttina til mín sem var næstur honum. Okkur sem vorum í bátnum brá svo mikið að við hentumst til og var þá báturinn við það að hvolfa. Ef við hefðum lent út í væri ég ekki til frásagnar nú!

Við fórum einnig til nokkurra borga og kynntum þær sérstaklega eins og Reykjavík og Pétursborg. Í þeirri síðarnefndu hittum við Rússa að nafni Valery Berkov. Hann var prófessor í norrænu við háskólann í Pétursborg. Hann hafði samið norsk-rússneska orðabók og talaði góða norsku þó hann hefði aldrei komið til Noregs. Hann heyrði að ég talaði norsku með erlendum hreim og spurði hvaðan ég væri, ég sagði honum það. Þá breytti hann yfir í íslensku sem hann talaði líka með ágætum."

Bankað á hurðina

Á þessum árum fékkst Sigurjón við gerð tónlistarmyndbanda. Hann gerði meðal annars tónlistarmyndband fyrir Morten Harkert, meðlim hinnar þekktu, norsku hljómsveitar AHA. Með þeim tókst góð vinátta sem hefur haldist síðan. Sigurjón segir blaðamanni frá atviki sem þeir Morten lentu í þegar þeir voru staddir í Monte Carlo árið 1993 í tilefni þess að Morten var að taka á móti tónlistarverðlaunum sem nefnast World Music Award. Þessi atburður átti eftir að hafa áhrif á líf þeirra og annarra sem komu við sögu.

"Við vorum staddir upp á herbergi Mortens að kvöldlagi þegar barið var á hurðina," byrjar Sigurjón frásögn sína. "Fyrir utan stóð lágvaxin kona, dökk yfirlitum. Hún kynnti sig og kvaðst heita Maurine Davis og væri ættuð frá AusturTímor en byggi í Kanada þar sem hún væri kennari við háskólann í Montreal. Hún sagðist hafa fundið út eftir krókaleiðum að Morten væri þarna staddur og ætti hún við hann erindi. Það var eitthvað fallegt yfir konunni svo við ákváðum að bjóða henni inn."

Vakti athygli á sjálfstæðisbaráttu Austur-Tímor

"Þessa kvöldstund og langt fram á nótt sagði hún okkur sögu Austur-Tímor sem er fyrrum portúgölsk nýlenda. Fyrir 25 árum voru Austur-Tímorar að leggja drög að sjálfstæði sínu þegar Indónesía réðst á landið og innlimaði það. Sú aðgerð var gersamlega í trássi við alþjóðalög. Það kom fram í máli konunnar að hún vonaðist til þess að Morten mundi beita áhrifum sínum sem fræg poppstjarna til að vekja athygli á frelsisbaráttu Austur-Tímor í heimalandi sínu, en Morten var þekktur fyrir að taka að sér góðan málstað og berjast fyrir honum.

Við heilluðumst báðir af örlagasögu þjóðarinnar og spurðum okkur sjálfa hvað við gætum gert.

Það kom fljótt upp í umræðu okkar að það sem gæti vakið mesta athygli á málstað Austur-Tímor væri ef helstu baráttumenn frelsissamtaka Austur-Tímor fengju friðarverðlaun Nóbels.

Þegar við komum til Noregs byrjuðum við á því að kynna málið fyrir stjórnmálamönnum en því miður töluðum við fyrir daufum eyrum. Aðeins einn þingmaður, Kåre Christiansen, tók eitthvað mark á því sem við vorum að segja."

Fékk íslenska þingmenn til að tilnefna Horta til friðarverðlauna

"Fljótlega eftir þetta kynntumst við José Ramos Horta sem hafði verið utanríkisráðherra AusturTímor í nokkrar vikur eftir nellikkubyltinguna árið 1974 þegar eyjan öðlaðist tímabundið sjálfstæði. Hann var helsti baráttumaður Austur-Tímora og ferðaðist um heiminn til að kynna málstað þeirra. Hann var meðal annars fulltrúi eyjarskeggja hjá Sameinuðu þjóðunum sem vildu ekki viðurkenna yfirráð Indónesa.

Horta heimsótti okkur nokkrum sinnum til Noregs og fylgdumst við vel með því sem var að gerast í heimalandi hans.

Það var svo rétt áður en frestur til að senda inn tilnefningar til Nóbelsverðlaunanna rann út, hinn 20. febrúar 1995, að mér hugkvæmdist að fá íslenska þingmenn til að tilnefna José Ramos Horta til friðarverðlauna Nóbels. Aðeins þingmenn og dómarar mega senda Nóbelsnefndinni tilnefningar.

Það lá beinast við að tala við Kristínu Ástgeirsdóttur, þingmann Kvennalistans, því ég þekkti hana, en hún er systir mágs míns. Lagði hún tillöguna fyrir Nóbelsnefndina ásamt þingkonunum Kristínu Einarsdóttur og Önnu Ólafsdóttur Björnsson."

Heimildarmyndagerð í þágu málstaðarins

"Ýmis samtök í heiminum voru einnig að vinna að því að kynna málstað Austur-Tímora. Höfðu því fleiri tilnefningar borist til Nóbelsnefndarinnar um að veita Horta verðlaunin.

Skömmu fyrir afhendingu friðarverðlaunanna benti ýmislegt til þess að José Ramos Horta hlyti verðlaunin þetta árið. Horta koma því til Osló í október og var við öllu búinn. En eins og menn vita varð ekkert úr því að hann fengi friðarverðlaunin það árið. Eftir þetta urðum við svolítið vonlaus. Skömmu síðar ákvað ég að gera heimildarmynd um sögu Austur-Tímor frá sjónarhorni Norðurlandabúa. Breskur blaðamaður að nafni Marx Stahl vann með mér að gerð myndarinnar. Stahl hafði myndað fjöldamorðin í Austur-Tímor árið 1991 þegar verið var að skjóta á mótmælagöngu í kirkjugarði í höfuðborginni Dili og fjöldi fólks lést. Marx hafði smyglað sér inn í landið til að taka myndir af ástandinu en mjög erfitt var að fá vegabréfsáritun þangað. Við Morten höfðum reynt að fá áritun en verið hafnað."

Stóra stundin

"Gerð myndarinnar lauk vorið 1996. Við gerðum einnig 3-5 mínútna myndir sem áttu að vera til taks ef friðarverðlaunin féllu í skaut Austur-Tímor um haustið.

Í samræðum okkar við íslensku þingkonurnar kom fram að hyggilegast væri að tilnefna aðila til friðarverðlaunanna sem tilheyrðu tveim ólíkum hópum, þ.e. fulltrúa hins andlega samfélags í AusturTímor, Carlos Ximenes Belo, sem er biskup kaþólskra í landinu og sameiningartákn íbúanna og José Ramos Horta stjórnmálalegan leiðtoga. Okkur var sagt að Ísland hafi verið eina landið sem tilnefndi þá báða.

Einn gleðilegasti atburðurinn í lífi mínu var svo þegar þessir tveir menn hlutu friðarverðlaun Nóbels árið 1996," segir Sigurjón.

"Við Morten vorum viðstaddir afhendinguna ásamt þingkonunum Kristínu Ástgeirsdóttur, Kristínu Einarsdóttur og Önnu Ólafsdóttur Björnsson."

Heimildarmynd Sigurjóns og Stahls var sýnd í Noregi að kvöldi verðlaunaafhendingarinnar. Sjónvarpsréttinn að myndinni seldu þeir CNN-sjónvarpsstöðinni en myndin var sýnd víða um heim, meðal annars hér á Íslandi.

José Ramos Horta var boðinn til Íslands árið 1997. Af því tilefni sagði hann að Ísland hefði alltaf stutt mál Austur-Tímor þótt margar aðrar þjóðir hefðu ekki þorað það vegna hagsmunatengsla við Indónesíu."

Stofnaði eigið fjölmiðlafyrirtæki

Sigurjón vann hjá TV Norge þar til árið 1993 er hann stofnaði sitt eigið fjölmiðlafyrirtæki sem heitir Interfox.

"Það var mjög lærdómsríkt að vinna hjá TV Norge og gaman að taka þátt í að skrifa sögu frjálsu sjónvarpsstöðvanna í Noregi," segir hann. "Ég var 25 ára þegar ég hóf störf þar og var þá nokkuð róttækur í hugsun. Ég hafði fram að því verið að gera listrænar, litlar myndir og samdi handritin að þeim sjálfur. Svo fór ég að vinna við auglýsingagerð sem ég hafði í rauninni aldrei gaman af. Ég fékk þó heilmikið út úr starfinu og kynntist mörgu góðu fólki sem ég átti eftir að vinna með síðar."

Skömmu áður en Sigurjón hætti hjá TV Norge hafði hann sett á laggirnar matvælafyrirtæki ásamt Íslendingum og Norðmönnum. Fyrirtækið er með umboð fyrir ýmsa þekkta matvöru, einkum bandaríska, í Skandinavíu. Sigurjón hefur nú ekki mikil afskipti af daglegum rekstri fyrirtækisins en er stjórnarformaður þess.

Fyrir 5 árum seldu stofnendurnir TV Norge og var þá afkoma sjónvarpstöðvarinnar mjög góð. Þeir gegna nú ýmsum mikilvægum störfum í norskum fjölmiðlaheimi. Helvar Flatland vinnur til dæmis sem þáttastjórnandi hjá norska ríkissjónvarpinu.

Kaupandinn að TV Norge var bandarískt fyrirtæki, SBA, sem er alþjóðlegt fjölmiðlafyrirtæki.

Heillaður af Netinu

Interfox, fyrirtæki Sigurjóns, hefur einnig verið að vinna við Netið. Fyrstu afskipti hans af Netinu hófust fyrir fjórum árum þegar hann var beðinn að hanna heimasíðu fyrir hljómsveitina AHA.

"Þrátt fyrir að hljómsveitin hafi ekki komið fram í tíu ár þá á hún fjölda aðdáenda út um allan heim," segir Sigurjón. "Inn á heimasíðu hennar fara að meðaltali 500 manns á dag alls staðar að úr heiminum.

Nú er hljómsveitin AHA að gefa út sinn fyrsta geisladisk eftir allan þennan tíma og kemur hann í verslanir eftir nokkrar vikur. Það verður þó byrjað að leika lag af disknum á útvarpsstöðvum nú fyrir helgina sem heitir "Sommer moved on"."

Það kemur fram í máli Sigurjóns að hann hefur í bígerð að opna netgátt þar sem borðið verður upp á ýmsa þjónustu. Hann vill lítið ræða þessa starfsemi sem hann segir enn vera í undirbúningi. "Nú eru fleiri hundruð milljónir á Netinu og miklir möguleikar eru fyrir hendi," segir Sigurjón.

"Ég er heillaður af Netinu," bætir hann við. "Þetta er miðill sem er afar gefandi. Hann er eins konar gluggi til alheimsins. Möguleikarnir eru ótæmandi og staðan á netinu nú minnir á fyrstu ár sjónvarpsins þegar svo margt var ógert."

Þjóðvegur sextíu og sex

"Það er mikilvægt þegar verið er að setja fyrirtæki sem þetta á laggirnar að þekkja besta fagfólkið á þessu sviði og hef ég lagt áherslu á góða samstarfsmenn," segir hann.

Jafnhliða netgáttinni starfar Interfox að auglýsinga- og þáttagerð fyrir sjónvarp eins og áður segir. Sigurjón segist þó lítið koma nálægt auglýsingagerðinni sjálfur. Hann er nú að ljúka við ferðaþátt fyrir ríkissjónvarpið sem hann kallar Rute 66. Í þættinum er ferðast frá Chicago niður til Los Angeles. Hluta af þessari leið fór Sigurjón á Harley Davidsson-mótorhjóli fyrir nokkrum árum og hreifst af. "Leiðin var einnig kölluð "Boulevard of broken dreams" eða "the Life line of America". Nú er gamli þjóðvegurinn kominn úr alfaraleið og kaffi- og veitingahús sem þarna eru mega muna fífil sinn fegri. Í þættinum er rætt við fólk sem bjó á þessum slóðum eða fór þarna um. Rifjar það upp stemmninguna sem ríkti á þessari þjóðleið til frægðar og frama."

Sigurjón var staddur hér á landi í nokkra daga þegar þetta samtal fór fram. Hann flaug síðan til Bandaríkjanna á vit nýrra verkefna því ævintýramenn staldra sjaldnast lengi við á sama stað.