FORYSTUMAÐUR úr röðum sósíalista í Baskalandi Spánar fórst ásamt lífverði sínum er bílsprengja sprakk í höfuðstað héraðsins, Vitoria, á þriðjudag. Fullvíst var talið að hryðjuverkamenn í ETA-samtökunum hefðu staðið fyrir tilræðinu.

FORYSTUMAÐUR úr röðum sósíalista í Baskalandi Spánar fórst ásamt lífverði sínum er bílsprengja sprakk í höfuðstað héraðsins, Vitoria, á þriðjudag. Fullvíst var talið að hryðjuverkamenn í ETA-samtökunum hefðu staðið fyrir tilræðinu. Þúsundir manna efndu til útifunda gegn ETA í borgum Spánar daginn eftir.

John McCain öldungadeildarþingmaður sigraði í forkosningum repúblikana í Michigan og Arizona á þriðjudag. Hefur hann nú hlotið 90 kjörmenn en helsti keppinautur hans, George W. Bush, ríkisstjóri í Texas, 67. Til að verða tilnefndur forsetaefni flokksins í kosningunum, sem verða í nóvember, þarf 1.034 kjörmenn.

STÓR svæði í Mósambík voru á fimmtudag undir vatni vegna gífurlegs úrhellis sem staðið hefur í nokkrar vikur. Um 300 þúsund manns hafa misst heimili sín í hamförunum og er óttast að farsóttir breiðist út.

Þingmenn á Evrópuþinginu kröfðust þess í vikunni að hafin yrði rannsókn á ásökunum þess efnis að Bandaríkjamenn notuðu háþróuð hlerunarkerfi til að stunda iðnaðar- og viðskiptanjósnir í Evrópu. Njósnakerfið sem um ræðir er nefnt Echelon og standa auk Bandaríkjamanna að því Bretar, Kanadamenn, Ástralir og Nýsjálendingar.