STARFSEMI Lyfjaeftirlits ríkisins og lyfjanefndar ríkisins verður sameinuð í einni stofnun, Lyfjamálastofnun, nái fram að ganga lagafrumvarp um breytingu á lyfjalögum og lögum um almannatryggingar sem heilbrigðisráðherra hefur lagt fram á Alþingi.

STARFSEMI Lyfjaeftirlits ríkisins og lyfjanefndar ríkisins verður sameinuð í einni stofnun, Lyfjamálastofnun, nái fram að ganga lagafrumvarp um breytingu á lyfjalögum og lögum um almannatryggingar sem heilbrigðisráðherra hefur lagt fram á Alþingi.

Fram kemur í athugasemdum við lagafrumvarpið að hinni nýju stofnun séu auk þess ætluð ný verkefni við umsjón með skráningu og eftirlit með verkunum og aukaverkunum lyfja. Kemur einnig fram að frá setningu lyfjalaga 1994 hafi komið fram ábendingar um ýmis atriði sem kveða þurfi á um í lyfjalögum, m.a. vegna gildistöku tilskipana Evrópusambandsins sem teknar hafa verið inn í samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Jafnframt þyki, að fenginni reynslu af framkvæmd laganna, nauðsynlegt að gera nokkrar aðrar breytingar á lögunum.

Meginbreytingar í frumvarpinu eru annars þær að lyfjaeftirlit ríkisins og lyfjanefnd eru sameinuð í eina stofnun, Lyfjamálastofnun.

Sérstök nefnd ákveði þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði vegna nýrra lyfja

Reglum um álagningu lyfjaeftirlitsgjalds er breytt frá því sem nú er og er gert ráð fyrir að hún verði í formi skattlagningar en ekki þjónustugjalda; gert er ráð fyrir að sérstök nefnd taki ákvörðun um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði vegna nýrra lyfja; kveðið er á um að eignarhlutdeild starfandi lækna, tannlækna og dýralækna, svo og maka þeirra og barna undir 18 ára aldri, í lyfsölu, lyfjaframleiðslu eða lyfjaheildsölu megi ekki vera svo stór að það hafi teljandi áhrif á fjárhagslega afkomu þeirra, og loks er kveðið skýrar á um meðferð umsókna hjá lyfjaverðsnefnd.