CHRISTIE'S og Sotheby's, sem teljast án efa tvö stærstu uppboðsfyrirtæki heims, hafa sætt athugun bandaríska dómsmálaráðuneytisins síðan 1997.

CHRISTIE'S og Sotheby's, sem teljast án efa tvö stærstu uppboðsfyrirtæki heims, hafa sætt athugun bandaríska dómsmálaráðuneytisins síðan 1997. Christie's í Bandaríkjunum hlaut nýlega skilyrta sakaruppgjöf fyrir að aðstoða við rannsókn málsins, en tveir af æðstu yfirmönnum Sotheby's hafa sagt af sér í kjölfar rannsóknarinnar.

Rannsókn dómsmálaráðuneytisins snerist um það hvort fyrirtækin væru sek um að hafa komið upp verðsamkomulagi sín á milli hvað varðaði umboðsgreiðslu til seljenda. 1995 tók Christie's upp á því nýmæli að greiða seljendum umboðsgreiðslur á bilinu 2-10% í stað 10% fastagreiðslu áður. Sotheby's fylgdi síðan fljótlega í kjölfarið.

Samkvæmt bandarískum lögum flokkast slíkt samkomulag undir ólöglega viðskiptahætti. Christie's staðfesti á þriðjudag að bandaríska dómsmálaráðuneytið hefði veitt fyrirtækinu skilyrta sakaruppgjöf vegna málsins eftir að ný yfirstjórn fyrirtækisins afhenti yfirvöldum allar þær upplýsingar sem talið var að tengdust rannsókninni.

A. Alfred Taubman, sem er stærsti hluthafi Sotheby's síðan 1983, lét hins vegar af störfum sem stjórnarformaður Sotheby's Holdings Inc. á miðvikudag. Taubman mun eftir sem áður sitja í stjórn Sotheby's ásamt því að vera stærsti hluthafinn, en við starfi stjórnarformanns tekur Michael Sovern, fyrrverandi rektor Columbia-háskóla. "Þó þetta sé ekki auðveld ákvörðun, þá hef ég ákveðið að það sé tími fyrir mig að segja af mér sem stjórnarformaður," sagði Taubman. Diana D. Brooks forstjóri Sotheby's sagði einnig starfi sínu lausu, en við af henni tekur William Ruprecht.

Eftir að upplýst var um verðsamkomulag hefur fjöldi viðskiptavina Sotheby's höfðað mál á hendur uppboðsfyrirtækinu, en málsaðilarnir eru flestir ríkir safnarar sem segjast hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni. Að sögn Sotheby's eru viðskiptahættir uppboðsfyrirtækjanna tveggja nú einnig til endurskoðunar hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem og yfirvöldum í Bretlandi og Ástralíu.

New York. AP, AFP, The Daily Telegraph.