Pajero Pinin í Off-Road Excitement útfærslu.
Pajero Pinin í Off-Road Excitement útfærslu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MITSUBISHI Pajero Pinin, hannaður af Pininfarina á Ítalíu, er nýjasta útspilið í jepplingadeildinni. Hann kom á markað síðastliðið haust á fyrstu mörkuðunum en aðeins þrennra dyra. Fimm dyra gerðin kemur ekki á markað fyrr en í haust.

MITSUBISHI Pajero Pinin, hannaður af Pininfarina á Ítalíu, er nýjasta útspilið í jepplingadeildinni. Hann kom á markað síðastliðið haust á fyrstu mörkuðunum en aðeins þrennra dyra. Fimm dyra gerðin kemur ekki á markað fyrr en í haust. Hann verður boðinn með 1,8 lítra vél, þeirri sömu og fæst í Mitsubishi Carisma, með svokallaðri beinni strokkinnsprautun, GDI. Drifrásin kemur beint úr stóra Pajero.

Pinin er lítill bíll með mikla torfærueiginleika en um leið þægindi í akstri sem Mitsubishi segir að gæti sómt hverjum fólksbíll. Beygjuhringurinn er þannig ekki nema 4,9 metrar sem gerir hann afar þægilegan í borgarskaki. Annað minnir á alvörujeppa, eins og há sætastaða og þar með gott útsýni. Nafngiftina má rekja til Battista Farina, ítalska hönnuðarins, sem var lágvaxinn maður og gekk undir nafninu Pinin, sem á ítölsku þýðir lítill. Og það er Mitsubishi Pinin einmitt, lítill jeppi.

Drifrásin er SS4-i, sem er byggð á Super Select fjórhjóladrifinu sem menn þekkja úr Pajero. Hægt verður að skipta bílnum úr drifi á tveimur hjólum í fjórhjóladrif, og öfugt, á allt að 100 km hraða. Þá er bíllinn með seigjukúplingu sem dreifir snúningsátakinu milli öxla. Með stillt á fjórhjóladrif er afl hins vegar eingöngu flutt einnig til framhjólanna þegar þörf er fyrir það. Þetta dregur úr eyðslu og gerir bílinn þægilegri í notkun innanbæjar. 1,8 lítra GDI vélin skilar að hámarki 125 hestöflum við 5.500 snúninga á mínútu og togaflið 174 Nm við 3.750 snúninga á mínútu. Við vélina er síðan tengd annað hvort fimm gíra handskipting eða fjögurra þrepa sjálfskipting.

Bíllinn verður líklega ekki fluttur hingað til lands fyrr en hann kemur í fimm dyra útfærslu síðar á árinu. Hann verður boðinn í tveimur gerðum. Off-road Excitement bíllinn er mun kraftalegri útlits og betur búinn en City Size Refinement. Alls óvíst er hvert verðið verður á bílnum hér á landi.