Og Gunnlaugur heldur áfram: "Athyglin hefur dregizt að báðum þessum verkum, Guernica og Höfuðlausn," sagði Gunnlaugur, "vegna þess að þau birta okkur þetta örlagaríka og ægilega í mannlífinu, þennan óskapnað.

Og Gunnlaugur heldur áfram:

"Athyglin hefur dregizt að báðum þessum verkum, Guernica og Höfuðlausn," sagði Gunnlaugur, "vegna þess að þau birta okkur þetta örlagaríka og ægilega í mannlífinu, þennan óskapnað. Mig langaði einu sinni að gera myndir við Höfuðlausn, þær áttu að vera stórar og ég byrjaði á einni. Það var undir vetur og ég vann að myndinni allan veturinn, en gafst vitanlega upp. Mér fannst það einhvers konar guðlast eða móðgun við listina að mála mynd út af slíku listaverki - það var líkt því að horfa á bál, ef maður kemur of nálægt brennir maður sig. Mér finnst síðasta erindi Höfuðlausnar eitthvað það fallegasta, sem ég hef lesið í skáldskap. En það fjallar hvorki um styrjöld né múgmorð:

Bark þengils lof

á þagnar rof;

kannk mála mjöt

of manna sjöt;

ór hlátra ham

hróðr bark

fyr gram;

svá fór þat fram,

at flestr of nam,

þ.e. ég flutti kvæðið, meðan ég fékk hljóð, ég kann að haga orðum mínum svo sem við á, þar sem ég er staddur o.s.frv. "Óttinn er enn mjög ríkur í okkur," sagði Gunnlaugur, "við hræðumst mest af öllu varnarleysi okkar gagnvart sjálfum okkur. Það er meginkjarni þessara listaverka beggja, Höfuðlausnar og Guernica."

Í fyrsta ljóðinu, sem hafði veruleg áhrif á Gunnlaug Scheving, Lágnætti Þorsteins Erlingssonar, kemur fyrir heiti eins og njóla, "það hefur mér alltaf þótt fallegt. Skáldin velja slík orð af því að þau hljóma vel. En þau voru mér torskilin sem barni, þó að mér fyndist þau falleg. Sama má segja um ýmsar kenningar, þær hafa minnt mig á skraut. Ég hlustaði á þessi ljóð eins og tónlist. Seinna missti ég áhuga á ljóðum og hafði ekkert gaman af þeim. En þegar ég var á Tjarnarlandi í Fljótsdalshéraði, voru Íslendinga sögurnar mikið lesnar, en lítið til af ljóðabókum. Þá barst mér andlegur hvalreki, tvær nýjar og fallegar bækur komu inn á heimilið. Það var Jón frá Nefbjarnarstöðum, sem kom með þær, eins og ég hef sagt þér. Þetta voru kvæðabækur Jónasar Hallgrímssonar og Kristjáns Jónssonar. Fóstri minn hélt mikið upp á Jónas, en fóstra mín hafði meira dálæti á Kristjáni. Mér féllu kvæði Kristjáns betur, ég held það hafi verið einlægnin í bölsýni hans, sem var mér að skapi. Þá fór ég aftur að hafa gaman af ljóðum, en hef alltaf haldið mest upp á þá ljóðagerð, sem stendur nærri alþýðukveðskap, ég veit ekki hvers vegna. Og þó, mér hefur fundizt, að Jónas Hallgrímsson hafi tekið eitt frá okkur: þessa hrjúfu rödd bóndans, þessa sigggrónu hönd og saltið í vísu Egils Skallagrímssonar, þjölina og élameitilinn."

M